03.04.1928
Neðri deild: 64. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 3702 í B-deild Alþingistíðinda. (3419)

92. mál, síldarbræðslustöðvar

Sigurður Eggerz:

Hæstv. forsrh. fór enn að tala um samband mitt við jafnaðarmenn. Jeg get vísað til þess, sem jeg hefi sagt áður um þetta mál, að jeg hefi aldrei verið vonbiðill þeirra, og eru því þessi ummæli hans ósönn. En jeg býst við því, að hæstv. ráðh. mundi ekki drepa hendi við því, ef menn úr einhverju kjördæmi kæmu til hans og byðu honum þar stuðning sinn. Annars bauð jeg mig aldrei fram í G.-K., jafnvel þótt hæstv. ráðh. byði mjer mjög ákveðið fylgi síns flokks þar. (ÓTh: Það er nú ekki stórt). En það má ekki tala um snöruna í hengds manns húsi, — því að hver er aðstaða hæstv. ráðh. til jafnaðarmanna? Hann getur ekkert gert nema með hjálp jafnaðarmanna. Þeir halda honum í klóm sínum, svo að hann getur ekki hreyft sig; alt hans mikla og stórkostlega veldi, sem hann hefir lýst með svo mörgum orðum, er hrunið á sama augnabliki, sem jafnaðarmenn hrukka svolítið upp á nefið. Það má með sanni segja, að alt er fallvalt í veröldinni, þar sem þetta mikla veldi getur fallið við það eitt, að jafnaðarmenn hrukka svolítið upp á nefið. Hæstv. forsrh. veit það eflaust úr sínu gamla starfi sem sálusorgari, hve alt er fallvalt, en hann mun læra það ennþá betur af þessari samvinnu. Því að mjer virðist svo, sem jafnaðarmenn ætli að halda ákaflega fast á sínu máli. Mjer sýnist hæstv. forsrh. vera alveg í gapastokknum hjá þeim. Og jeg verð að segja það, að jeg kenni bókstaflega í brjósti um hann. Þjóðnýtingin, sem áður var fjarlæg, er altaf að koma nær og nær. Á þessu þingi verða líklega samþ. eitt síldareinokunarfrumvarp, ríkisrekstur á síld og eitt einokunarfrumvarp snertandi landbúnaðinn.

Jeg sje, að hæstv. fjmrh. ber í borðið. Það sýnir, að hæstv. stj. er nú farin að veita Frjálslynda flokknum eftirtekt, og það er líka rjett, því að þótt hann sje lítill, þá hefir hann þó þau mál meðferðis, sem hæstv. stj. hlýtur að. beygja sig fyrir á sínum tíma.

Út af hinum fáu orðum míns góða vinar, háttv. þm. V.-Sk., hefi jeg fátt eitt að segja. En jeg held, að það sje ekki hægt að bregða mjer um það, að jeg fjandskapist við hina íslensku bændastjett. Jeg sýni henni þvert á móti þann mikla velvilja nú, að vara hana við að fara inn á þá braut, sem jeg er sannfærður um, að liggur til óhamingju. Jeg er sannfærður um, að sá andi, sem ræður gerðum núverandi hæstv. stj., er ekki andi hinnar íslensku bændastjettar. Því að sanngirnin er andi hinnar íslensku bændastjettar; jeg er viss um, að allir eru sammála um það. En það er ekki sanngirni, sem ræður aðgerðum hæstv. stj., heldur miklu fremur ósanngirnin. Þótt hjer eigi að heita bændastjórn, þá er landinu ekki stjórnað í anda hinnar íslensku bændastjettar, því að jeg er viss um, að ef svo væri, þá mundum við fá meiri frið og meiri ró í þessu landi. (Dómsmrh. JJ: Í hvaða anda er Íslandsbanka stjórnað? — ÓTh: Nei, nei, er nú hæstv. dómsmrh. kominn?). Honum er stjórnað í þeim anda, að reyna að styðja atvinnuvegi þjóðarinnar og gera þeim jafnhátt undir höfði, eftir því sem hægt er.

Þetta er einungis stutt aths., en jeg held, að í ræðu minni áðan hafi jeg sagt hæstv. stjórn meiri sannleika en hún hefir fengið að heyra nokkurntíma fyr á þessu þingi.