30.01.1928
Efri deild: 9. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 1341 í B-deild Alþingistíðinda. (342)

7. mál, skógar, kjarr og lyng

Fors.- og atvmrh. (Tryggvi Þórhallsson):

Jeg get lýst yfir því, að jeg er samþykkur till. hv. landbn. Sömuleiðis er jeg samþykkur brtt. hv. 3. landsk. (JÞ). Jeg tel, að frv. feli ekki í sjer heimild til sjerstakra fjárveitinga. Get því fallist á þær.

Um athugasemdir hv. sama þm. um frv. skal jeg ekki fjölyrða. Aðeins skal jeg geta þess, að frv. þetta er ekki borið fram að frumkvæði stj., heldur var það skógræktarstjórinn, sem óskaði, að það væri borið fram. En jeg get tekið undir það með hv. þm., að jeg er ekki ánægður með árangurinn af starfi því, sem int hefir verið af hendi á liðnum árum í þágu skógræktarinnar. Enda hefi jeg áður látið þá skoðun mína í ljós. Mun skortur á nægri þekkingu á staðháttum hafa valdið, og mun það trauðlega lagast fyr en nýr maður tekur við. — Fyrir ca. 20 árum var mikill áhugi fyrir Skógrækt innan ungmennafjelaganna. Þá hefði mátt fá mikla hjálp frá þeim sem sjálfboðaliðum til að vinna þessu máli gagn. En það hefir farist fyrir, að sú hjálp væri notuð.