03.04.1928
Neðri deild: 64. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 3730 í B-deild Alþingistíðinda. (3430)

92. mál, síldarbræðslustöðvar

Sigurður Eggerz:

Jeg má víst ekki eyða miklu af mínum dýrmæta tíma til þess að svara hæstv. forsrh. En þó verð jeg að segja það, að mjer finst þau næsta hlægilegt að kalla það sjálfstæðismál, þó að ríkið hafi einokun á áburðarverslun bænda. — Sama er um strandferðaskipið að segja; það er ekki heldur sjálfstæðismál. Um síldarbræðsluna ætla jeg alls ekki að tala. (Forsrh. TrÞ: Af því það er á dagskrá!). Jeg vil minna hæstv. forsrh. á það. að það er eitt af allra mestu sjálfstæðismálum þjóðarinnar að hugsa vel um fjárhag hennar, og sjálfstæðinu er stefnt í voða, ef þess er ekki gætt. En það var annað, sem hæstv. forsrh. mátti telja sjer til gildis, og það er, hvernig hann svaraði fyrirspurn minni í sjálfstæðismálinu, og vegna þess. hvernig hann svaraði henni, hefi jeg fundið miklu minna að við hann en jeg hefði ella gert.

Hv. 2. þm. Reykv. var ennþá einu sinni að minnast á náðun Ólafs Friðrikssonar, og hann sýndi þann dæmalausa ódrengskap að drótta því að mjer, að jeg hefði orðið að náða hann af pólitískum ástæðum. Það var þá helst ástæða til þess að gera það af pólitískum ástæðum! Ólafur Friðriksson var og er pólitískur andstæðingur minn, en hinsvegar mátti jeg vera viss um að baka mjer miklar óvinsældir með þessari náðun. Enda var það svo, að um tíma á eftir mátti jeg ekki ganga milli húsa hjer í bænum án þess að á mig væri ráðist fyrir þetta verk. Jeg gerði þetta því alls ekki af pólitískum ástæðum, heldur einungis af því, að jeg áleit það rjett. Jeg vissi, að Ólafur Friðriksson var maður, sem hefir ekkert af því glæpsamlega í hugarfari sínu. Hann hafði tekið ástfóstri við þennan dreng, og hann hegðaði sjer eins og hann gerði af misskildum „idealisma“. Annars hefi jeg í ræðu á þinginu 1923 gert grein fyrir framkomu minni í þessu máli, og get hjer vísað í hana. Jeg endurtek það, að hv. 2. þm. Reykv. hefir með aðdróttunum sínum sýnt ódrengskap á háu stigi, en það er svo sem ekki í fyrsta skifti, sem mjer er sýndur ódrengskapur úr þeirri átt. sem ráðherra bakaði jeg mjer oft óvinsældir vegna þess að jeg gerði ýmislegt fyrir þá, sem máttarminstir eru og versta hafa aðstöðu í þjóðfjelaginu. Enda held jeg, að það sje skylda hvers ráðherra að styðja einkum þá, sem bágast eiga.

En ódrengskapurinn skal sitja fastur á hv. sessunaut mínum (HjV). (Forseti hringir).