03.04.1928
Neðri deild: 64. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 3731 í B-deild Alþingistíðinda. (3431)

92. mál, síldarbræðslustöðvar

Jón Auðunn Jónsson:

Það var lán Ísfirðinga, að þeir áttu þá mætu þingmenn, er hæstv. forsrh. taldi upp. En jeg skora á hæstv. forsrh. að færa sönnur á það, að jeg hafi nokkurntíma verið á móti sjálfstæðismálum þjóðarinnar hjer á þingi. Hver var það, sem fyrstur hóf andmæli, þegar fiskiveiðalöggjöfin var brotin á mjög viðsjárverðan hátt? Og hver vildi standa fastast gegn því, að á rjett landsins væri gengið með kjöttollssamningunum? En það, hvort tilbúinn áburður er keyptur beint eða hvort hann er keyptur af kaupfjelagi eða kaupmanni, það held jeg, að skifti sjálfstæði þjóðarinnar ekki miklu máli. Og hvort ríkið tekur einkasölu á áburði eða ekki, er út af fyrir sig ekki sjálfstæðismál. En á það má þó minna, að fyrirrennari minn, forsetinn mikli, barðist manna mest gegn einkasölu.

Hæstv. forsrh. sagði, að Skúli yngri Thoroddsen hefði „Skilið mig eftir“ norður við Ísafjarðardjúp. Jeg man sannast sagt ekki, hvort jeg ætlaði nokkuð suður, þegar Skúli fór til þings, en jeg held þó, að það hafi ekki verið. En hæstv. forsætisráðherra hefir ef til vill átt við það, að jeg hafi boðið mig fram á móti honum, en það var ekki, og hjelt jeg, að hæstv. ráðh. væri það kunnugt.