03.04.1928
Neðri deild: 64. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 3734 í B-deild Alþingistíðinda. (3436)

92. mál, síldarbræðslustöðvar

Fors.- og atvmrh. (Tryggvi Þórhallsson):

Jeg geri nú ráð fyrir, að orðaskiftum milli mín og hv. þm. Dal. geti farið að verða lokið, enda hafa þau verið bæði í gamni og alvöru. En út af þeim samanburði, sem hann gerði á stefnumálum flokkanna, þá vildi jeg segja nokkur orð, og þá sjerstaklega um okkar pólitísku aðstöðu.

Hv. þm. Dal. var enn að tala um flokkinn sinn og lagði mikla áherslu á, að lífsskilyrði stjórnmálaflokkanna væru undir því komin, hverjir hefðu betri og hollari mál að berjast fyrir. Jeg er alveg á sama máli, að það sje ekki mannfjöldi flokkanna; sem ræður því, hvort þeir eiga langt líf fyrir höndum, heldur málin sjálf, sem barist er fyrir. Og þetta vildi hann heimfæra til þess málsins, sem honum verður tíðast að vitna í, en það er Sjálfstæðismálið. En það er ekki nóg að tala um það í tíma og ótíma, að við sjeum sjálfstæð þjóð, heldur verðum við að sýna það í verkinu, að við sjeum það.

Jeg álít, að fyrir þessu þingi hafi legið þrjú sjálfstæðismál, — og hverjir eru það, sem beitt hafa sjer fyrir því, að þau næðu fram að ganga?

Í fyrsta lagi skal jeg nefna einkasölu á tilbúnum áburði. Þar var um að ræða, hvort erlendu firma ætti að haldast uppi að skattleggja íslenska bændastjett með óhæfilegri álagningu á vöru, sem nota þarf mikið af til aukinnar ræktunar landsins. Samfara því að keppa að því marki að gera þessa vöru ódýrari fyrir bændur, þá er það orðið þeirra sjálfstæðismál. Þetta sjálfstæðismál hefi jeg borið inn í þingið, en hv. þm. Dal. hefir beitt sjer mjög á móti því.

Annað sjálfstæðismál, sem jeg vildi nefna, eru siglingamál þjóðarinnar. Á því sviði erum við mjög háðir útlendingum. Við höfum orðið að þola að sjá erlend skip svo tugum skiftir færa okkur varninginn heim, og Íslendingar hafa orðið að sigla undir erlendum fána hafna milli í sínu eigin landi. Við framsóknarmenn höfum viljað bæta úr þessu. Við höfum barist fyrir því, að Íslendingar gætu framvegis siglt undir íslenskum fána með ströndum fram. Þetta sjálfstæðismál hefi jeg einnig borið hjer fram á þessu þingi. En hverju hefir hv. þm. Dal. svarað? Móti þessu sjálfstæðismáli þjóðarinnar hefir hann lagst og reynt alt, sem hann gat, til þess að ónýta það.

Og þriðja sjálfstæðismálið, sem jeg vildi nefna, er það, sem hjer liggur fyrir og verið er að ræða. Hjer er verið að reyna að bæta úr því sleifarlagi, sem verið hefir á síldarútvegi Íslendinga. Við erum að reyna að losa okkur úr klóm erlendra spekúlanta. Og svo að jeg noti orð hv. þm. Dal., þá er með þessu verið að vinna að því að láta Ísland vera fyrir Íslendinga fyrst og fremst og gera þá sjálfstæða á þessu sviði. Að þessu hefi jeg stutt, eftir því sem jeg hefi orkað, en hv. þm. Dal. barist með hnúum og hnefum gegn þessu mikla sjálfstæðismáli þjóðarinnar.

Það er rjett hjá hv. þm. Dal., að það ræður mestu um framtíð stjórnmálaflokkanna, hverjir hafa betri eða hollari mál að berjast fyrir. Og jeg þori a. m. k. óhræddur að horfa framan í kjósendur landsins við næstu kosningar. (SE: Jeg er nú dauður: annars skyldi jeg andmæla). Hafi hv. þm. einhverju að svara, vænti jeg, að hæstv. forseti leyfi honum einu sinni enn örstutta athugasemd.