09.03.1928
Neðri deild: 43. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 3766 í B-deild Alþingistíðinda. (3464)

86. mál, Strandarkirkja og sandgræðsla í Strandarlandi

Jón Ólafsson:

Hv. 1. þm. Reykv. gaf mjer tilefni til að segja nokkur orð. Hann varð alveg gapandi hissa á því, að við hefðum leiðst út á þessa voðabraut að leggja þessu máli lið í nefndinni. Hann kallaði þetta að ganga svo nærri hinni heilögu kirkju — og hann talaði um skollaleik og ránsferð á hendur kirkjunni. Jeg hefði kunnað betur við, að hv. þm. hefði talað af minni guðhræðslu og dálítið meiri þekkingu á staðháttum þarna eystra; því að ef hann væri þarna kunnugur og hefði til dæmis staðið undir kirkjuveggnum einhvern góðan norðaustan rokdag, þá held jeg, að hann mundi segja, að þar færi voðagestur á hendur kirkjunni, byggingunni sjálfri og öllu nágrenni. Hefði hann viljað athuga málið frá þessari hlið, þá held jeg, að hann mundi ekki segja, að verið væri að fara með fjeð út í bláinn eða í annara þágu en sjálfrar kirkjunnar. Jeg hygg þessum hv. þm. geti ekki verið fyrirmunað að sjá það, hversu óveglegt það er fyrir hina heilögu kirkju að standa á þessum sandi, venjulega í sandfoki og moldroki.

Þá var hann að tala um undirbúning á þessari löggjöf. Jeg verð að segja, að það mundi yfirleitt talið nægilegt, þegar húsbændur eða ráðamenn á 14 heimilum af 17 mæta, og má gera ráð fyrir, að það sje líkt hljóðið í þeim, sem á heimilunum búa, um það mál, sem húsbóndinn fer með. Hv. þm. áleit, að formsins vegna mætti hafa að engu þessa samþykt, þar sem ekki voru mættir menn nema frá 14 heimilum af 17; en hv. þm. þekkir kosningar og allar slíkar atkvgr., og hjer hefði samþ. fallið á líka leið, þó að öll heimili hefðu tekið þátt í atkvgr.

Um annan undirbúning málsins get jeg sagt hv. þm. það, að jeg hefi farið til eins ekki ómerks lögfræðings og spurt hann ráða um málið í heild sinni; því að þótt hv. flm. sje lagamaður, þótti mjer álitlegra að leita til lagamanns, sem var málinu algerlega óviðkomandi. Hann kvað málið á allan hátt löglega undirbúið, nema ef vera kynni, að hægt væri að vjefengja atkvgr., en taldi það í sjálfu sjer ekkert atriði. Söfnuðurinn hefir aðeins tillögurjett í þessu máli, en ekki ákvörðunarvald, og hefir látið þá ósk sína í ljós, að hann geti ekki annað gert en mælt með þessu, er Selvogsmenn telja algert nauðsynjamál fyrir hjeraðið.

Þá spurði hv. 1. þm. Reykv. að því hvort þetta mundi hepnast. Hann efaðist um að það mundi hafa hina minstu þýðingu. En fróðir menn í þeim efnum segja mjer, svo sem Sigurður búnaðarmálastjóri sem jeg leitaði álits til um það, hvort þetta fje mundi koma að tilætluðum notum, að þetta mundi vera hið albesta land til þess að græða upp og mundi þurfa sáralítið fyrir því að hafa annað en girða það, og til þess er í raun og veru þetta fje ætlað.

Það eru ýms atriði, sem hv. frsm. er búinn að svara svo rækilega, að jeg þarf ekki við að bæta. Hvað því viðvíkur, að söfnuður verði þarna stofnaður, þá sje jeg ekki betur en að þótt það yrði ekki, hafi kirkjan gott af að eiga þetta land, sem við förum fram á, að verði lagt við land kirkjunnar, sem sje það land, sem ekki er ennþá látið af hendi af Strandarlandi ásamt því, sem yrði grætt upp.

Það hefði að vísu mátt orða eitthvað skýrar viðvíkjandi kirknasjóðnum, en við höfum tekið það nógu vel fram, að ekki mætti taka fje úr honum. Við vitum, að ríku kirkjurnar hafa orðið að lána þeim fátækari og þær þannig getað fengið lán af sjóðnum í skjóli auðugu kirknanna, sem ekki þurftu á fjenu að halda til endurbyggingar. En jeg verð að segja, að meðan Strandarland er svo sandfokið eins og það er nú, þá er mjög hæpið, hvort ætti að byggja þetta 80–100 þús. kr. hús, sem háttv. þm. mintist á, fyr en landið væri það grætt, að sandurinn argaði ekki og sargaði á kirkjunni nótt og dag. Mjer finst byrjað á öfugum enda að byggja þetta 100 þús. kr. hús áður en hafist er handa að bæta landið í kring svo, að hæfði jafndýru húsi að standa þar.

Þótt hv. 1. þm. Reykv. heiti nú á Strandarkirkju um, að þetta frv. falli þá held jeg það nægi ekki: hvað þá heldur ummæli hans um málið í heild sinni sem voru kannske meir frá kristilegu sjónarmiði heldur en því verklega og virkilega sjónarmiði, sem hjer liggur til grundvallar.