09.03.1928
Neðri deild: 43. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 3768 í B-deild Alþingistíðinda. (3465)

86. mál, Strandarkirkja og sandgræðsla í Strandarlandi

Magnús Jónsson:

Það geta, náttúrlega verið margar ljótari ástæður til að mæla með einhverju máli en að gera það frá kristilegu sjónarmiði, og jeg er mjög ánægður, ef jeg berst í kristindómsins þágu; það er samboðið minni stöðu og fer enda vel á því fyrir hvern mann.

Annars harma jeg mjög, að háttv. samþm. minn (JÓl) hefir látið leiðast svo illa afvega í þessu máli, og hefði óskað, að hann hefði klofið nefndina og að við hefðum getað staðið hjer saman með hinni gömlu kirkju á sandinum (JörB: Á sandinum!), svo að ekki væri verið að ráðstafa hennar fje á þann hátt, sem óheyrt er. Hv. 3. þm. Reykv. sagði, að jeg hefði talað af miklum guðmóði, en minni þekkingu á staðháttum þarna eystra; og þekkingarleysið var þá helst í því fólgið, að hann hjelt jeg vissi ekki, að sandurinn rýkur. Jeg veit, að sandfokið er gífurlegt þarna austur á söndunum, þó að jeg hafi ekki sjeð það nema tilsýndar. En þó að sandhríðin sje ekki fögur, þá er samt efamál, hvort fegurra er að græða sandinn upp með hálfgerðu ránsfje frá kirkjunni. Hvað myndi þessi hv. þm. t. d. segja um það, að leggja þá kvöð á það togarafjelag, sem hann stendur fyrir, að það græddi upp land einhversstaðar og einhversstaðar, sem það varðaði ekkert um?

Það má satt vera, að það sje ekki veglegt fyrir kirkjuna að standa á þessum sandi; en jeg býst þó við, að einmitt það, að þessi kirkja er það eina, sem hefir staðið þarna eftir, þegar öll bygð fór þarna í auðn, einmitt þessi einmana kirkja á svörtum sandinum og í sandhríðinni, það sje það, sem mest hefir dregið huga fólksins. Menn heita ekki á þær kirkjur, sem standa á blómlegum og fögrum túnum; menn hugsa með lotningu til þess æðri kraftar, sem hefir hafið upp þetta guðshús, þegar sandurinn hækkaði og alt annað sokk. Jeg er ekki svo viss um, að sandgræðstan mundi auka á dýrð og veg kirkjunnar út af fyrir sig, þó að það sje kannske fallegt verk að græða sandinn. Jónasi Hallgrímssyni þótti hulinn verndarkraftur hafa hlíft Gunnarshólma, einmitt vegna auðnanna alt umnverfis; eins finst almenningi um þessa kirkju, þegar öll bygð fjell í auðn. Þó að sandurinn sje ekki fallegur, þá vekur hann þessa hlýju kend í hugum manna til kirkjunnar einmana.

Hv. samþm. minn benti á atriði, sem jeg hafði ekki tekið fram, en er tilstuðnings mínu máli, nefnilega hvernig hinum almenna kirkjusjóði er varið til að lána fátækum kirkjum, sem þarf að byggja upp. Þetta er ein ástæðan gegn því að taka fje úr þessum sjóði til búskaparfyrirtækja, sem kirkjunni koma ekkert við. Þetta fje er ekki einungis tekið frá Strandarkirkju, en lánamöguleiki fátækra kirkna úr þessum sjóði er skertur. Og jeg þakka hv. þm. fyrir þessa nýju röksemd á móti frv.

Hv. þm. þótti byrjað á öfugum enda, að fara að byggja húsið áður en græddur yrði sandurinn. Þetta er sá hugsunarháttur, sem jeg ekki skil í þessu máli. Jeg gat um, að þegar búið væri að reisa húsið, væri sök sjer að fara að athuga, hvort hægt væri að fá til láns eða á annan hátt eitthvað af fje Strandarkirkju, ef henni heldur áfram að safnast mikið fje. En að byrjað sje á öfugum enda með því að byrja á því eina, sem hægt er að verja fjenu til samkv. lögum, er mjer óskiljanlegt, og að það eina rjetta sje að verja því gagnstætt því, sem það er ákvarðað til, og ekki fyr en slíkum framkvæmdum sje lokið megi taka eitthvað til þeirra hluta, sem sjóðurinn er ætlaður til. Það vita allir, að kirknasjóður er fyrst og fremst ætlaður til þess að byggja upp kirkjurnar og halda þeim við, en ekki til sandgræðslu og túnræktar. Það hafa komið fram ýmsar uppástungur um það, til hvers nota mætti fje Strandarkirkju, svo sem til Hallgrímskirkju og jafnvel til að gefa eitt eða tvö herbergi í stúdentagarðinum. Þetta eru nú ljómandi fögur verkefni og mundu halda uppi hennar hróðri, en sjóðurinn er bara ekki ætlaður til þess arna, heldur til þess að byggja kirkjuna. Að byggja kirkjuna er því að byrja á rjettum enda.

Háttv. frsm. hafði ekki rjett eftir mjer í byrjun ræðu sinnar, er hann sagði mig hafa gefið í skyn, að hvorki söfnuðurinn nje þingið hefðu neitt að segja um þetta. Jeg hefi alls ekki nefnt þingið í þessu sambandi, og jeg efast ekki um það, að þingið hefir vald til þess að löggefa um þetta mál, — enda þótt jeg ljeti í ljós við 1. umr., að athugunarmál væri fyrir nefndina, hvort ekki væri fullnærri gengið stjórnarskránni, sem jeg þó ekki vil halda fram. Alþingi hefir yfirleitt afskaplega víðtækt vald. En einmitt af því að það hefir svo mikið vald, þá hvílir þessi brýna skylda á þm., að nota ekki sitt vald nema heppilega. Við vitum, að Alþingi getur látið greipar sópa um eignir manna og seilst djúpt ofan í pyngjur manna. Alþingi verður því að halda gætilega á sínu valdi.

Hvað söfnuðinum viðvíkur, þá hefir hann vitanlega ekkert vald; aðeins getur hann farið fram á við þingið að gera eitthvað og eitthvað viðvíkjandi kirknasjóðnum. Um „löglegan undirbúning“ er hjer hreint ekki að tala fremur en það t. d. væri kallaður löglegur undirbúningur, þegar sótt er um styrk, að styrkbeiðni er send. En þar að auki hefi jeg sýnt fram á, að undirbúningi þessum var mjög ábótavant; bæði voru atkvæði með þessu mjög fá og enginn hjeraðsfundur um þetta spurður, þó að jafnvel þurfi að spyrja hjeraðsfund, ef á t. d, að kaupa hljóðfæri í kirkju. Sýnist meiri ástæða að leita álits slíks fundar um það, hvort verja ætti þúsundum úr þessum sjóði gagnstætt tilgangi sjóðsins.

Hv. þm. sagði, að ekkert sjerstakt væri að athuga við það, þótt sjóðurinn yrði lagður undir dóms- og kirkjumálaráðuneytið. Það er skýrt tekið fram í lögum frá 1890, að slíkt fje standi undir umsjón biskups, og sje sjóðurinn lagður undir dóms- og kirkjumálaráðuneytið, þýðir það ekkert annað en það, að fjeð eigi að ávaxtast í einhverjum sjerstökum sjóði, sem það ráðuneyti sjái um. Nú hefir nefndin horfið frá þessu, og þykist jeg vita, að hún beri fram brtt. um að fella þá grein úr frv.; en það er tvímælalaust, að þessi síðasta grein frv. kveður svo á, að fjeð skuli ekki geymt í hinum almenna kirknasjóði. (JörB: Þetta er alveg skakt). Það er undarlegt að heyra þetta hjá hv. þingmönnum, þegar lögin um almenna kirknasjóðinn mæla svo fyrir, að slíkt fje sje undir umsjón biskups, en hjer er tekið fram, að stjórnin skuli hafa umsjón með því. Með því er ætlast til, að fje þessarar kirkju sje alveg sjerstaklega geymt.

Jeg ljet í ljós, að efasamt væri, að sandgræðsan mundi lánast; jeg er ekki fagmaður á því sviði, en efast ekki um, að mörg skynsamleg rök mæli með, að þetta gæti tekist. En jeg segi: Þetta er þó alls ekki víst; það er áhættuspil, sem peningarnir eru lagðir í.

Hv. 3. þm. Reykv. sagði, að jeg hefði enga till. gert í þá átt að fella niður styrk til sandgræðslu. Nei, fjarri því; jeg hefi altaf greitt atkv. með slíkum framkvæmdum til þess að verja bygð fyrir sandfoki. Og það er nokkuð annað en að taka fyrir einn eyðisand, sem ekki eyðileggur annað en sjálfan sig áframhaldandi. En þrátt fyrir það hefi jeg ekki á móti því, að fje sje lagt frá ríkinu til sandgræðslu á þessum stað. En að fara að gefa kirkjunni landið til þess eins að spila fje sínu í áhættufyrirtæki, það minnir nokkuð mikið á það, þegar Vermundur mjóvi ætlaði að gera styr bróður sínum þann greiða að gefa honum berserkina og gylti það fyrir honum, hve mikið brautargengi honum gæti orðið að slíkum mönnum. Yrði það álíka hefndargjöf að gefa kirkjunni sandinn til að fleygja fje sínu í. Hitt er annað mál, að þegar ríkið hefir tekið að sjer að græða upp sandinn og kirkjan hefir verið vel bygð á ný, hvort hún gæti þá rjett hjálparhönd til sandgræðslunnar, líkt og þegar Styr bauð Vermundi að leysa vandræði hans með því að taka að sjer berserkina.

Þá vildi hv. þm. gera mikið úr því, að jeg sagði, að menn hefðu kannske ekki þolað að sjá þessa peninga, og tók það sem heljarhnútukast til sóknarbarna í Selvogi. Jeg skal ekkert um þetta segja, því að jeg er alveg ókunnugur því, en mjer virðist, að einhver hafi verið þarna á fundinum, sem myndi þá eiga þessa hnútu, og hvorki var sóknarmaður nje heldur neitt barn; jeg á við sýslumann Árnesinga.

Þá sagði hv. frsm., að biskup hefði skrifað móti þessum áheitum á kirkjuna fyrir nokkrum árum. Jeg man ekkert eftir þessu, en rengi þó ekki hv. þm. En annars varðar mig ekkert um það, því að þó að jeg leiti upplýsinga biskups á þessu máli, þá er mjer að öðru leyti sama um skoðun hans yfirleitt á því. Að hann er mótfallinn þessu frv., er af sömu ástæðu og hjá mjer, að hjer er verið að fara með hæpið mál. En hafi hann hinsvegar skrifað móti áheitunum, hefir það verið út frá þeim forsendum, að eitthvað væri hjátrúarkent við þau.

Það er dálítið deilt um, hvort rjett sje að ala upp hjá mönnum trúna á áheitin, og skal jeg ekkert um það segja. Jeg hefi heitið tvisvar eða þrisvar á Strandarkirkju og aldrei orðið við. (JörB: Þessu get jeg trúað!). Jeg býst við, að áheitin sjeu gerð eins og svo margt annað, sem menn gera sjer til gamans. Að vísu skal jeg játa, að jeg hefi heyrt getið um margar og merkilegar jarteiknir í sambandi við Strandarkirkju, og efast heldur ekki um, að margt af því er satt. En það er um þetta að segja eins og ýmsa trú, sem bundin er við viss örnefni; hún getur haldist árum saman.

Hv. frsm. talaði um, að hann treysti því, að gifta kirkjunnar væri svo mikil, að málið mundi ná fram að ganga. Það vilja allir hafa giftu kirkjunnar með sjer. Og jeg tel svo, að gifta kirkjunnar hljóti fremur að fylgja þeim, sem hjer eru að reyna að verja eignir hennar fyrir ásælni. En kannske best sje að halda giftu kirkjunnar alveg utan við málið og fara með það eins og venjulegt þingmál.

Mjer finst farið út á hættulega braut að taka kirknafje og verja því til framkvæmda, sem ríkið á að kosta, og þess vegna er jeg á móti stefnu frv. um fjárframlagið. Hinsvegar hefi jeg ekkert á móti því, að landið umhverfis Strandarkirkju verði grætt upp. En jeg vil, að ríkið sem landeigandi beri kostnaðinn af þeirri græðslu.

Í sambandi við þetta, sem jeg hefi nú sagt, leyfi jeg mjer að bera fram till. til rökstuddrar dagskrár, er hljóðar svo:

„Í því trausti, að stjórnin láti rannsaka, hvort ekki væri rjett, að ríkið ljeti græða upp nokkuð af landi sínu umhverfis Strandarkirkju, tekur deildin fyrir næsta mál á dagakrá“.

Þessa dagskrártill. leyfi jeg mjer að afhenda hæstv. forseta. Með henni hefi jeg sýnt, að jeg er ekki á móti því, að landið sje grætt upp, sem hv. frsm. hefir upplýst um, að sje ekki áhættusamt, en jeg lít svo á, að það sje skylda ríkisins að gera það.