12.03.1928
Neðri deild: 45. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 3779 í B-deild Alþingistíðinda. (3469)

86. mál, Strandarkirkja og sandgræðsla í Strandarlandi

Magnús Jónsson:

Af því að jeg samdi brtt. á þskj. 459 nokkuð fljótlega og hún fór snögglega í prentsmiðjuna, þá hefir hún ekki komist alveg rjett á pappírinn. Síðari brtt. á að eiga við bæði 3. og 4. gr. frv., að þær falli báðar niður. Vil jeg skjóta því til hæstv. forseta, hvort ekki megi laga þetta með skriflegri brtt. — Annars býst jeg ekki við, að jeg þurfi að tefja lengi umr. með því að mæla fyrir þessum brtt., því að þær eru afleiðing af því, sem jeg sagði við 2. umr. málsins.

Jeg er því mótfallinn að verja sjóði kirkjunnar til annars en hann er ætlaður; sem sje til viðhalds og endurbóta á kirkjunni og til kaupa á munum til hennar, og jeg tel það óviðeigandi að gefa kirkjunni sandauðn, aðeins til þess að hún verji sínum peningum til þess að rækta auðnina upp. Því að kirkjan hefir ekkert við hana að gera, og óvíst, hvort hún verður nokkurntíma arðberandi fyrir kirkjuna.

Ummæli mín við 2. umr. og nú má ekki skilja svo, að jeg sje á móti því að græða þessa sandauðn upp. Til þess er Selvogur of frægt og ágætt land. Áður var Strönd í Selvogi metin á hundruð hundraða og var þá í tölu mestu höfuðbóla landsins, þangað til Selvogur varð fyrir þessari voðalegu hremmingu, að hann legst í auðn á eitthvað 30 árum.

Menn vita ekki með vissu, hvernig á því hefir staðið, en þess hefir meðal annars verið getið til, að brostið hafi á það, að hinum fræga vörslugarði, sem þar var, hafi verið haldið við með sama dugnaði og áður. Þá eyðilögðust og hin ágætu selalátur, sem þarna voru, og Strandarsund, sem var eitthvert besta og öruggasta útræðið á allri Suðurlandsströndinni, fyltist og ónýttist.

Jeg álít það sjálfsagt, að nokkru fje verði varið til þess að rannsaka, hvort hægt sje að græða upp þetta land. En jeg tel það Strandarkirkju alveg óviðkomandi; jeg álít, að landið ætti að gera það. En til málamiðlunar hefi jeg borið fram þá brtt. við 1. gr. frv., að í stað orðsins „verja“ komi: lána ríkissjóði.

Það, sem felst í þessari brtt., er, að í stað þess, að kirkjan ávaxti fje sitt í hinum alm. kirknasjóði, eins og undanfarið, þá ávaxti hún nú nokkurn hluta þess í ríkisskuldabrjefum. Þetta verður að vísu til nokkurs tjóns fyrir fátækari kirkjur, sem þá verða af þeim hagsmunum að geta fengið jafnmikið fje að láni úr sjóðnum, en eftir minni brtt. á þetta einungis að verða um nokkra hríð, þar sem frv. fer aftur á móti fram á að svifta sjóðinn þessu fje fyrir fult og alt.

Jeg vil segja, að það sje mikill styrkur fyrir ríkið, ef það vill ráðast í þessar framkvæmdir, að fá þetta fje til umráða. Þegar hjeruð hafa farið fram á styrk til verklegra framkvæmda, eins og brúa- og símalagninga, þá hefir því stundum verið svarað, að ef hjeraðið vildi kaupa ríkisskuldabrjef, sem sagt leggja fram fjeð, þá væri það sjálfsagt.

Þá ber jeg fram brtt. um að fella 4. gr. frv. niður. Jeg held, að sú breyting á frv. sje sjálfsögð, þótt frv. verði samþ., óbreytt að öðru leyti. Og jeg er satt að segja hissa á því, að hv. nefnd skuli ekki hafa orðið til að leiðrjetta þetta.

Till. um að fella niður 3. gr. er í fullu samræmi við brtt. mína við 1. gr., því að engin meining er í því að ætla að gera landið að eign Strandarkirkju, þegar hún einungis lánar fjeð. Jeg mun því bera fram skriflega brtt. við 3. gr., sem verður á þessa leið: „Við 3. gr. Greinin fellur niður“.

Vona jeg, að hv. deild samþykki afbrigði um till., hversu sem atkv. kunna að falla um hana síðar.