12.03.1928
Neðri deild: 45. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 3781 í B-deild Alþingistíðinda. (3470)

86. mál, Strandarkirkja og sandgræðsla í Strandarlandi

Frsm. (Jörundur Brynjólfsson):

Mjer þykir leiðinlegt að verða stöðugt að eiga í höggi við hv. 1. þm. Reykv. út af þessu máli. Mjer finst það sjerstaklega einkennilegt, hvílíkt kappsmál honum það er, að kirkjan eignist ekki landið. Ef kirkjan á nú ekki að græða upp landið, nema hún fái fje það, er hún hefir lagt fram, endurgreitt að fullu, þá mætti ætla, að honum væri það ekki ógeðfelt, að kirkjan eignaðist landið, sem auðvitað verður mikils virði, þegar búið er að græða það upp. En hann hefir nú einu sinni bitið það í sig, að kirkjan megi ekki eignast landið, og þar við situr.

Þó verður að viðurkenna það, að hv. þm. hefir töluvert nálgast oss fylgismenn málsins, síðan við síðustu umr. Nú er hann þó kominn svo langt, að hann vill heimila fje að láni fyrir ríkið í þessu skyni, og er ekki fjarri því, að hepnast muni að græða landið upp. Þetta má sannarlega kalla framför frá 2. umræðu, því að þá kvaðst hann enga trú hafa á því, að það mætti takast. En jeg get fullvissað hann um, að takast muni að græða landið upp, svo framarlega sem það verður friðað.

Fari svo, að till. hans verði samþ., verður ekkert eftir af hinu upprunalega frv. Í stað þess kemur heimild til að lána ríkissjóði fje úr sjóði kirkjunnar, sem ríkissjóður á að greiða aftur. Jeg lít öðrum augum á þetta mál. Jeg er þess fullviss, að kirkjunni er mikill gróði í því að eignast landið og láta fje af mörkum til að græða það upp. Það fje myndi hún fá margborgað, áður en langt um líður. Auk þess verður að líta á það, að eins og sakir standa, er kirkjan í beinni hættu stödd. Haldi sjórinn áfram að brjóta af landinu, verður þess ef til vill ekki langt að bíða, að kirkjan geti ekki staðið lengur þar, sem hún nú er. En ef hrest verður upp á sjóvarnargarðinn og grætt upp landið, verður henni trygður staður um aldur og æfi, eða a. m. k. um ófyrirsjáanlegan tíma. Þeir, sem vilja hlynna að kirkjunni, geta ekki fallist á brtt. hv. 1. þm. Reykv. Vona jeg því, að háttv. deild haldi fast við atkvgr, sína við 2. umr. fyrir nokkrum dögum.

Hv. þm. taldi uppgræðslu landsins kirkjunni óviðkomandi. Eins og jeg hefi þegar tekið fram, er þetta hinn mesti misskilningur, því að kirkjan sjálf er alls ekki örugg, nema varnað sje því, að sjórinn brjóti landið og þeir fáu gróðurblettir, sem eftir eru, hverfi í sand. En til þess að kirkjan beri ekki skarðan hlut frá borði við það að leggja fram fjármuni sína, vill meirihl. hv. deildar tryggja kirkjunni, að hún eignist landið og að hún megi auðgast á því að leggja fjármuni sína fram til að græða það upp. Jeg fyrir mitt leyti er viss um, að hún getur ekki varið fje sínu betur á annan hátt. Jeg vænti þess því, að hv. deild felli allar till. hv. 1. þm. Reykv.

Um 4. gr. er það að segja, að jeg er þess fullviss, að fje kirkjunnar muni standa í hinum almenna kirknasjóði sem nú og því sje þarflaust að fella greinina niður.