02.04.1928
Efri deild: 63. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 3789 í B-deild Alþingistíðinda. (3481)

86. mál, Strandarkirkja og sandgræðsla í Strandarlandi

Frsm. minni hl. (Jónas Kristjánsson):

Þetta frv. til laga um Strandarkirkju og sandgræðslu í Strandarlandi miðar til þess að láta kirkjuna sem slíka leggja fje til að græða uppauðnirnar í Strandarlandi á móti því fje, sem lagt er til þess, nefnil. af því fje, sem veitt er til sandgræðslu. Til þess að gera þetta girnilegt frá hálfu kirkjunnar sjeð, er henni gefið Strandarland, og þá sennilega sjerstaklega hinar uppblásnu auðnir í landinu, sem kirkjan á að verja fje sínu til þess að græða upp.

Nú er það svo, að Strandarkirkja er safnaðarkirkja. Söfnuðurinn tók við henni 1909 á löglegan hátt til umsjónar og fjárhalds, með bindandi samningi af hálfu hins opinbera. Síðan er kirkjan sjálfseign, undir yfirumsjón kirkjustjórnar. Söfnuðurinn er ekki eigandi kirkjunnar, en hefir á hendi fjárhald hennar. Hann hefir þó ekki heimild til neinna ráðstafana á fje hennar, nema í þarfir kirkjunnar sjálfrar. sem safnaðarkirkja hefir kirkjan slept öllum fasteignum til hins opinbera. Hún hefir þess vegna enga þörf fyrir annað land en það, sem hún stendur á. „Portion“ eða peningaeign kirknanna er ætlað að ávaxtast í kirkjasjóði, sem settur er á stofn með lögum til þess að vernda hag kirknanna og til þess að sjá fyrir fje til þess að byggja þær upp, þegar þess er þörf. Þess vegna verður ekki annað sagt en að Strandarkirkja hafi haft hið veglegasta starf með höndum innan kristinna kirkna hjer á landi, því að fje það, sem henni hefir áskotnast með áheitum, er á sama hátt varið til eflingar kirkjutrúnni í landinu. Það er því næsta harðleikið, ef kirkjan verður nú ómyndug ger og ekki fjár síns ráðandi. Ef til vill mun einhver segja, að vel sje fyrir því fje sjeð og því varið hið besta, sem varið er til ræktunar á grængresi, þar sem ekkert gras er fyrir, og þar beri fjeð því bestan ávöxt.

Það er auðvitað góðra gjalda vert að rækta upp auðnir landsins, en fjeð, sem til þess er notað, verður að vera fengið á sæmilegan og eðlilegan hátt, en ekki með kirkjuráni, sem framið er undir yfirskini greiða og gjafa, eins og á sjer stað í þessu Strandarkirkjufrv. Hjer er kirkjunni gefin uppblásin sandauðn og henni um leið lögð á herðar sú skylda að leggja fram stóran hluta af eignum sínum til þess að græða upp þessa sandauðn, og það margfalt meiri upphæð en líkindi eru til, að landið mundi geta kostað, þótt uppgræðsla tækist, sem er vafasamt, og alt fje Strandarkirkju fari til. –Þannig á því að grafa í sand það fje, sem kirkjunni er gefið í guðsþakkarskyni af trúuðu fólki. Sjálf er kirkjan, eftir myndum að dæma, fornfáleg, og veitir því ekki af fje sínu til þess að standa straum af sjálfri sjer. Þessi meðferð á fjármunum kirkjunnar er spegilmynd af því, hvernig fara mætti með fje landsins til minstrar fyrirmyndar. En þetta er alveg ófært. Strandarkirkja hefir hingað til frekar verið veitandi en þiggjandi. Hún hefir varið því fje, sem hún hefir fengið í guðsþakkaskyni, til þess að styrkja fátækar systur hennar, þær kirkjur, sem vantað hefir fje til þess að standa straum af byggingarkostnaði sínum. Þessi styrkur hverfur alveg, ef þing og stjórn nær fjenu í sínar hendur og grefur það í sandauðnunum í Strandarlandi.

Jeg er hræddur um, að þessi meðferð á fje kirkjunnar verði til þess, að áheitin og átrúnaðurinn á Strandarkirkju hverfi; að minsta kosti er ekki hægt að segja um, hve lengi hann helst úr því.

Þó að söfnuður Strandarkirkju samþykki með meiri hl. allra atkvæðisbærra manna, að veitt verði af fúlgu kirkjunnar til þess að hefta sandfok í Strandarlandi, þá er það auðsætt, að það er ekki gert fyrir hönd kirkjunnar eða í hennar þágu, heldur fyrir sveitina. Ef nú svo færi, að söfnuðurinn samþykti þetta, þá verður hjeraðsfundur fyrst og fremst að fallast á það, og svo biskup landsins, til þess að heimilt sje að nota fje kirkjunnar í þessum tilgangi. Að fengnu slíku leyfi tel jeg, að Alþingi hafi fyrst heimild til þess að verja fje kirkjunnar eins og frv. þetta gerir ráð fyrir, og þó því aðeins, að þetta sje gert fyrir kirkjuna sjálfa.

Nú er auðsætt, að kirkja þessi muni hafa stórkostlega mikið peningalegt tjón, ef Alþingi þvingar hana til að þiggja Strandarauðn að gjöf, til þess að eyða fje sínu til uppgræðslu á því landi. Nú er spurningin sú: Hefir kirkjan heimild til þess að þiggja að gjöf Strandarland, þegar því fylgir þessi kvöð, og kirkjan sem slík hefir ekkert með landið að gera, nema til þess að eyða fje sínu í það og verða ef til vill öreiga sjálf og efnalega ósjálfstæð? — Mjer þykir það næsta ósennilegt.

Jeg get ekki neitað því, að mjer finst eitthvað óhreint vera hjer á seiði og að hjer sie verið að fremja eitthvað, sem Alþingi ætti að varast að gera. Það má vel vera, að hjer ráði hreinar hvatir hjá þeim, sem leggja þetta til, en mjer finst málið vera lítt undirbúið, þar sem yfirstjórn kirkjunnar hefir ekki einu sinni verið kvödd til ráða, og hefði það þó verið það minsta, sem hægt hefði verið að gera. Að minsta kosti hefði það þó verið kurteisisskylda, sem ekki hefði kostað mikið fje. Jeg lít því svo á, að eins og frv. þetta er undirbúið, þá sje það í fullu heimildarleysi, að frv. þetta er lagt fyrir þingið til þess að samþ. það sem lög, því að jeg verð að endurtaka það, sem jeg hefi áður sagt, að jeg tel þetta ekki gert í þágu þeirrar kirkju, sem á að leggja fjeð fram, og ætti kirkja þessi, sem líklega er einhver frægasta kirkja landsins, aðra meðferð skilið af þinginu. Jeg lít því svo á, að Alþingi hafi ekki frekar heimild til þess að taka fje Strandarkirkju og fyrirskipa, hvernig því skuli varið, heldur en það hefir heimild til þess að taka fje einstaklinga, hvers eignarrjett stjórnarskráin telur skylt að varðveita. Þegar svo er komið, virðist mjer svo nærri gengið eignarrjetti þegnanna, að það liggi við broti gegn stjórnarskránni. Jeg er líka viss um, að margir líta svo á, að fje það, sem kirkjan hefir tekið á móti í áheitum, hafi að minsta kosti jafnmikinn rjett á sjer og jafnvel meiri helgi en eignir einstaklinga, svo jeg tel, að þingið ætti ekki að gera, sjer leik að því að óþörfu að taka það fjárnámi. Jeg segi fjárnámi af því að jeg fæ ekki betur sjeð en það sje sama og fjárnám að skína svo fyrir að fje Strandarkirkju skuli verja til þeirra hluta eða framkvæmda, sem eru kirkjunni alveg óviðkomandi.

Tilgangur frv. þessa er auðsær sem sje sá að taka fje kirkju þessarar með hálfgerðu ofbeldi og verja því til þess, sem aðrir aðiljar eiga að leggja fje til, en það eru eigendur Strandarlands, ásamt styrk úr ríkissjóði samkv. lögum um sandgræðslu. Þá verður ekki sjeð, að nein alþjóðarheill krefjist eignarnáms á fje því, sem Strandarkirkju hefir áskotnast með áheitum. Það, að verja eigi fjenu til þess að græða upp sandauðnir, er ekki nægileg ástæða til slíks ofbeldisverks. Fari nú svo, að þingið leyfi sjer að skipa svo fyrir, að verja skuli fje kirkjunnar til þess að græða upp sandauðnirnar í Strandarlandi og til þess að hefta sandfok þar, fæ jeg ekki annað sjeð en að þingið geti alveg á sama hátt tekið hvern sem er af hinum opinberu sjóðum, og það jafnt sjóðum, sem hafa sjerstakt ákveðið markmið og eru undir eftirliti stj., og skipað svo fyrir, að þeim skuli verja á einn eða annan hátt. En þá er hrun eignarrjettarins nærri og þá hefir „sósíalisminn“ náð hámarki sínu.

Af því sem jeg nú hefi tekið fram get jeg ekki varist þeirri hugsun, að þingið sje með þessu að fara út fyrir sitt löggjafarsvið og inn á það svið sem einstaklingum og þjóðarheildinni verður að teljast uggvænlegt ef ekki hættulegt.