02.04.1928
Efri deild: 63. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 3794 í B-deild Alþingistíðinda. (3482)

86. mál, Strandarkirkja og sandgræðsla í Strandarlandi

Frsm. meiri hl. (Jón Baldvinsson):

Það væri mjög alvarlegt, ef full rök væru fyrst öllu því, sem hv. frsm. minni hl. talaði um í ræðu sinni. Það var ekki aðeins, að hann teldi með frv. þessu vera um kirkjurán að ræða, heldur taldi hann líka, að hjer væri á ferðinni stjórnarskrárbrot, tilraun til þess að grafa fje kirkjunnar í sand.

Það er alkunnut, að biskup hefir lagst á móti áheitum til þessarar fátæku kirkju þarna austur á sandauðnunum. En sem betur fer, hafa þau mótmæli ekki borið tilætlaðan árangur. Þau höfðu þvert á móti þau áhrif, að eftir það var talsvert alment farið að heita á kirkju þessa, svo að henni áskotnaðist af áheitum margar þúsundir króna árlega. Þó að svona færi nú í þetta sinn um till. biskups, að þær verkuðu öfugt við það, sem þeim var ætlað, þá verður maður samt að vona, að svo fari ekki um allar till. hans í kirkjumálum landsins. Annars skal jeg aðeins svara hv. frsm. minni hl. í fáum orðum. Er það þá fyrst, að jeg tel löggjafarvaldið hafa fullan rjett til þess að fyrirskipa með lögum, að verja skuli fje Strandarkirkju eins og hjer er farið fram á. Getur því ekki verið um neitt kirkjurán eða stjórnarskrárbrot að ræða í því sambandi. Alt slíkt er hreinasti misskilningur. Annars er alls ekki verið að tala um það hjer hvað eigi að gera við allan sjóð kirkjunnar, sem er nú fullar 41 þús. kr. Það er aðeins lagt til, að á næstu tveimur árum verði farið 10 þús. kr. hvort árið til, sandgræðslu o. fl. í Strandarlandi, og síðan megi verja alt að 1000 krónum árlega til viðhalds og græðslu. Það er því síður en svo að hjer sje farið fram á að eyða öllum sjóði kirkjunnar, þegar líka þess er gætt, að hún fær í áheitum og gjöfum margar þúsundir á hverju ári. Og jeg fyrir mitt leyti lít svo á, að þessu fje sje ekki betur varið á annan hátt en til þess að græða upp landið í kringum kirkjuna. Það tekur að vísu töluverðan tíma að gera það land að blómlegu graslendi, sem er sandauðn nú, en í það er ekki horfandi.

Hv. frsm. minni hl. segir í nál. sínu meðal annars: „Þó að kirkjunni væri gefin uppblásin auðn, verður sú gjöf aðeins til kostnaðar og byrði fyrir kirkjuna“. — Mjer finst þetta, að taka að sjer til uppgræðslu sandorpið land, líkt því, þegar góðhjartaður maður tekur til uppfósturs munaðarlaust, heilsulítið og óefnilegt barn, sem aðrir ekki vilja taka til uppfósturs. Því það sýnir gott hjartalag. En hitt er minna þakkarvert, að taka við hraustu og efnilegu barni. Og það er ekkert sjerstaklega þakkarvert að taka við vel grónu landi til yrkingar, heldur hitt, að taka við uppblásnum sandauðnum eins og hjer er ætlast til. Og jeg tel fjármunum kirkjunnar vel varið á þennan hátt.