02.04.1928
Efri deild: 63. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 3796 í B-deild Alþingistíðinda. (3483)

86. mál, Strandarkirkja og sandgræðsla í Strandarlandi

Jón Þorláksson:

Það er vitanlega mjög lofsamlegt verk að græða upp sandauðnir í Strandarlandi í Selvogi eins og annarsstaðar, en jeg tel ekki rjett að taka af gjafafje Strandarkirkju til þess, af því að samkvæmt landslögum eru aðrir skyldir til að leggja fram fje til þess. Og hjer er það ríkið, sem er skylt til að leggja fram þetta fje, því að hvort sem það er kirkjujarðasjóður eða prestlaunasjóður, sem telst landeigandi, þá er það sama, því að þeir sjóðir eru báðir ríkiseign. En eins og kunnugt er, á landeigandi samkv. sandgræðslulögunum að leggja fram fje til slíkra hluta, gegn tillagi úr ríkissjóði. Hjer er því með frv. þessu verið að skjóta landeigandanum, sem í þessu tilfelli er ríkið, undan þessari lagalegu skyldu og velta þeirri byrði yfir á kirkjuna, sem hún á alls ekki að bera, með því í orði kveðnu að gefa kirkjunni land það, sem á að græða upp. Hjer er einungis verið að slá því fram til málamynda, að landið skuli verða eign kirkjunnar, af því að um eign í þessu tilfelli getur ekki verið að ræða, þar sem ríkisvaldið er löngu búið að slá því föstu, að fasteignir kirkna skuli vera rjettlausar gagnvart ríkinu, falla ríkinu til eignar án endurgjalds. Frv. þetta er því aðeins borið fram til þess að komast í sjóð Strandarkirkju og ná úr honum fje, sem ríkinu er skylt að greiða. Jeg get ekki greitt atkv. með þessu. Mjer finst það minna alt of mikið á það athæfi, sem nefnt er í 231. gr. hinna alm. hegningarlaga og talið þar með stórþjófnaði, sem sje að brjóta upp gjafastokk kirkna í því augnamiði að auðga sig á því. Og þó að í þessu tilfelli eigi ekki að auðga einstaka menn með því að brjóta upp gjafastokk Strandarkirkju, þá er það þó gert til þess að spara ríkissjóði útgjöld, sem honum samkvæmt lögum ber að greiða. En jeg vil ekki eiga neinn þátt í slíku athæfi til sparnaðar fyrir ríkissjóð.