02.04.1928
Efri deild: 63. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 3797 í B-deild Alþingistíðinda. (3484)

86. mál, Strandarkirkja og sandgræðsla í Strandarlandi

Frsm. meiri hl. (Jón Baldvinsson):

Háttv. 3. landsk. verður að athuga það, að frv. þetta breytir sandgræðslulögunum að engu leyti, þótt í staðinn fyrir framlag landeiganda komi tillag úr gjafasjóði Strandarkirkju, og eins er ætlast til, að ríkissjóður greiði sitt tillag samkv. sandgræðslulögunum. Hjer er því ekki verið að skjóta neinum undan rjettmætum greiðslum.

Þá talaði háttv. þm. mjög hátíðlega, um það, að með þessu frv. væri verið að brjóta upp gjafastokk kirkjunnar, og vitnaði til hegningarlaganna í því sambandi. En þessi ástæða háttv. þm. finst mjer hreint og beint hlægileg, því jeg veit ekki betur en löggjafarvaldið hafi fullan rjett til þess að ráðstafa fje þessu á hvern þann hátt, sem því finst best við eiga í þarfir kirkjunnar. Og hjer er beinlínis ætlast til þess að hressa upp á Strandarkirkju, þar sem það á að notast til þess að græða upp landið í kringum hana, og það verður að teljast fullforsvaranleg ráðstöfun, þar sem jafnframt er sjeð fyrir því, að meira en nægilegt fje verði samt eftir í sjóðnum til þess að byggja hana sjálfa upp að nýju síðar. Nei, andstaðan gegn frv. þessu er ekki vegna ákvæða 1. gr., um að veita 10 þús. kr. af fje kirkjunnar til sandgræðslu, eða gegn 2. grein, að framkvæmd sandgræðslunnar fari eftir sandgræðslulögunum, og þá því síður gegn ákvæðum 3. og 4. gr. frv. Heldur er andstaðan gegn 5. gr. frv., sem er um það, að dómsmálaráðuneytið hafi umsjón með stjórn kirkjufjánna og setji reglur um framkvæmdir. — Gegn þessu ákvæði er andstaðan, og hún er vitanlega komin frá biskupi landsins, sem altaf hefir haft horn í síðu áheita til þessarar kirkju, og jeg veit hreint ekki, hvort það er vert að taka svo mjög mikið tillit til þessara till. hans gagnvart Strandarkirkju, og það af þeim ástæðum, sem jeg hefi þegar tekið fram.