02.04.1928
Efri deild: 63. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 3798 í B-deild Alþingistíðinda. (3485)

86. mál, Strandarkirkja og sandgræðsla í Strandarlandi

Fjmrh. (Magnús Kristjánsson):

Mjer þykir næsta undarleg sú andstaða, sem komið hefir fram gegn frv. þessu, því að jeg fæ ekki betur sjeð en að þetta sje ágæt ráðstöfun gagnvart hinni merku kirkju, sem hjer á í hlut, að gera hið gróðurlausa umhverfi hennar svo, að hægt sje fyrir menn og skepnur að hafast þar við í nánd; því jeg get ekki skilið, að það þyki betri málalok að láta hana hverfa í sand. Mjer fyndist þvert á móti eðlilegt, að þeir, sem bera hag kirkju þessarar svo mjög fyrir brjósti, teldu sjer það bæði ljúft og skylt að styðja að því, að þessi umbót verði gerð. Að hjer sje verið að svifta kirkjuna eignum, er fjarri öllum sanni. Það er sanni nær, að með þessari gjöf til kirkjunnar sje verið að auka álit hennar og veg í alla staði. Því að jeg get vel ímyndað mjer, að þegar ár líða og samgöngur batna þangað austur, verði farið að fara nokkurskonar pílagrímsferðir til þessa staðar. Væri þá óneitanlega viðkunnanlegra, að þarna væri eitthvert stingandi strá og að menn viltust ekki á sandauðnunum í kringum kirkjuna.

Annars þýðir ekki að orðlengja mikið um þetta mál. Jeg fyrir mitt leyti tel þau rök, sem fram hafa verið færð gegn því, svo lítilvæg, að ekki sje hægt að taka tillit til þeirra.