28.02.1928
Neðri deild: 34. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 3816 í B-deild Alþingistíðinda. (3499)

116. mál, tekju- og eignarskattur

Jóhann Jósefsson:

Hv. flm. frv. sagði nú í sinni síðustu ræðu, að allur meiri hluti af sköttunum væri af nauðsynjavörum. Jeg held, að þetta sje nokkuð hæpin fullyrðing og vil benda hv. þm. á, að hann hefir sjálfsagt fyrir framan sig á borðinu, eins og jeg, síðasta landsreikning, sem útbýtt hefir verið nýlega, og getur hv. þm. þar sjeð skiftingu á tollum eftir vörutegundum. Hv. þm., flm. þessa frv., bar okkur það á brýn, og tók þar sjerstaklega til íhaldsmenn, að við bærum ekki þá umhyggju fyrir ríkissjóði, sem vera ætti. Hjer er nú ekki verið að ræða um afgreiðslu fjárlaganna, heldur er þetta sjerstakt tekjuaukafrv., sem hjer er til umr. Jeg held, að slíkt sje alveg ómaklegur áburður á Íhaldsflokkinn, og mjer kemur það einkennilega fyrir sjónir nú úr þessari átt, að það sje verið að bregða okkar flokki um það, að við viljum ekki afla ríkissjóði tekna. Jeg held, að það málgagn, sem stendur að þessum hv. þm., hafi kveðið við annan tón til íhaldsmanna að undanförnu, því að það hefir síst verið sparað að koma alþýðu manna á þá skoðun, að íhaldsmenn stæðu að öllum ónauðsynlegum tollum, hvað þá að hinum. En það er annað, sem hv. þm. hljóp yfir; hann gleymdi að bera í bætifláka fyrir það, sem jeg benti á, að hann væri að gera með sínu frv., sem sje það, að þyngja byrði alþýðunnar í kaupstöðunum, þ. e. a. s. þeirra manna, sem jeg kalla alþýðumenn, en það getur náttúrlega vel verið, að það sje einhver þrengri merking á því orði, sem hv. þm. hefir sjerstaklega fyrir augum. En mjer er það fullkomlega ljóst, að með þessu frv. eru nýir baggar bundnir fjölda manna í kaupstöðum landsins, mönnum, sem eru að reyna að bjargast upp á eigin spýtur. Það verður sjálfsagt ekki togað alt þetta fje út úr þeim hlutafjelögum, sem hv. þm. er að minnast á, og býst jeg við, að hann eigi þar við togarafjelögin í heild.

Það er annars dálítið einkennilegt fyrirbrigði, að hjer kemur varla nokkurt mál svo til umræðu, eða að minsta kosti ekkert mál, sem hv. flm. þessa frv. og flokksbræður hans taka þátt í, án þess að á einn eða annan hátt sje togaraútgerðin dregin inn í það. Manni er farið að verða það talsvert áhyggju- og undrunarefni, hve mikið er farið að bera á því, að vissir menn setji einlægt hnífla í þennan atvinnurekstur. Það má líka í því sambandi benda á ýms frv., sem beinlínis miða að því að íþyngja og hnekkja þessum atvinnurekstri. Jeg held, að það geti enginn maður gengið þess dulinn, að það er dálítið varhugavert, þegar þessi tilhneiging fer að verða mjög ríkjandi á Alþingi. Það er öllum mönnum vitanlegt, að þjóðfjelag vort Íslendinga er eitthvert hið minsta í heimi og að við erum bæði „fáir, fátækir og smáir“, eins og prestarnir mundu hafa sagt, og hitt er líka vitanlegt, að þjóðin hefir á undanförnum öldum eiginlega hvergi getað fylgst með í verklegum framkvæmdum á móts við aðrar þjóðir, já, maður getur sagt, að það sje ekki nema mannsaldurs gömul, og jafnvel varla það, sú viðleitni, að reyna að reka einhvern atvinnuveg líkt því, sem tíðkast hjá stærri þjóðum. En á nokkrum síðustu áratugum hefir þjóðin sýnt af sjer ákaflega mikið framtak á vissu sviði, og þetta framtak hefir altaf átt rót sína að rekja í framtakssemi einstakra manna. Af þessu hafa svo risið upp atvinnufyrirtæki, og maður getur sagt það, að togaraútgerðin er eitt hið veigamesta af því tægi. Hvernig stendur nú eiginlega á því, að þessi atvinnuvegur virðist vera eltur á röndum af ákveðnum mönnum, og jafnvel af ákveðnum stjórnmálaflokki, eða forkólfum hans? Í sambandi við tal hv. jafnaðarmanna um þessa stórútgerð, sem þeir kalla, og annað, er að henni lýtur, vil jeg benda á það, að brandur þeirra beinist altaf meira og meira að því að hnekkja framtaki einstaklingsins. Mjer finst, að eftir því sem þessar raddir taka að gerast háværari og eftir því sem þær fá meira fylgi, t. d. hjá bændum,innanþings og utan, og öðrum mönnum, þeim mun meira vex uggur um það, að það fari að verða mjög varhugavert að ráðast í atvinnufyrirtæki innan þessa þjóðfjelags, vegna þess að það er ljóst, að þó að kenningar og stefna þeirra manna, sem hjer á Íslandi kalla sig jafnaðarmenn, geri ekki svo mikið af sjer utanlands, í stærri þjóðfjelögum, þar sem menning og atvinnurekstur stendur á margra alda merg, þá verður ómögulegt að komast hjá því að kannast við. að í okkar fátæka og fámenna þjóðfjelagi er þessu alt annan veg farið. Það er miklu hættulegra á þessu landi að draga úr framtaki manna heldur en í stærri og sterkari þjóðfjelögum. Það er miklu hættuminna að bera þessar kenningar til landslýðsins annarsstaðar en hjer, þar sem veðrátta er blíðari og skilyrði betri til að komast áfram. Við stöndum gagnvart þeirri sögulegu sannreynd í þessu landi, að óðara en þjóðin er farin að rjetta sig úr þeirri kreppu, sem hún var í um margar aldir, þá rís þessi stefna upp í landinu, að reyna með öllu móti að draga atvinnureksturinn, svo sem unt er, undir hið opinbera, og draga úr framkvæmdum þeirra dugmestu meðal borgaranna við að ráðast í þau atvinnufyrirtæki, sem einstakir menn alment reka hjá öðrum þjóðum og sem veita fjölda fólks atvinnu. Mjer virðist það vera vel ljóst, að sjerstaklega í þessu þjóðfjelagi, þar sem hver er nákunnugur annars högum, hlýtur afleiðingin af þessari stefnu og hin naggslega framkoma á móti öllu framtaki, sem nokkuð kveður að, að leiða til þess, að hugir fólksins smitast, og ennfremur til þess, að hinn dugmeiri hluti þjóðarinnar fær ugg við það að starfa upp á eigin spýtur. Jeg held, að þetta muni verða til þess, að menn fari þá að hugsa sem svo, að það sje miklu arðvænlegra að ná sjer í einhverja stöðu, komast að landssjóðsjötunni eða einhverju því líku, gera eitthvað annað en reyna að bjargast upp á eigin spýtur.

Það getur nú verið, að þetta verði ekki álitið koma þessu frv. beinlínis við, sem hjer er um að ræða, en af því að hv. flm. fór inn á þetta svið í sinni ræðu, og af því að það kemur varla sá dagur fyrir á hinu háa Alþingi, að ekki sje þar vegið í hinn sama knjerunn, þá hefi jeg haft þau ummæli, sem nú hafa orðið, um afstöðu þessara hv. þingmanna til atvinnuveganna. Um það bil, sem þessi kenning jafnaðarmanna og fylgismanna þeirra hefir náð nægilega miklum tökum á hugum borgara þjóðar vorrar, þá munum við standa gagnvart þeirri sannreynd, það er jeg viss um, að þeim mönnum, sem bæði með þessari þjóð og öðrum þjóðum bera uppi atvinnulífið með einstaklingsframtaki, þeim, sem vilja leggja sig og sitt í að reka áhættusöm fyrirtæki, þeim mun fækka. En hinn hópurinn, sem vill snúast í kringum ríkissjóðinn og narta í þá, sem atvinnufyrirtækin reka, vex stórum. Og þegar svo er komið, þá tel jeg vísast, að öll alþýða Íslands muni sjá, að ver var af stað farið en heima setið með stefnumál þessa stjórnmálaflokks og þá bardagaaðferð. sem forsprakkar hans leyfa sjer að viðhafa.