28.02.1928
Neðri deild: 34. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 3829 í B-deild Alþingistíðinda. (3501)

116. mál, tekju- og eignarskattur

Ólafur Thors:

Mjer er því miður ekki eftir skilin nema örlítil stund til stuttrar aths. Hefði jeg þó gjarnan kosið að mega skifta nokkrum orðum við hv. þm. Ísaf., til þess að svara ýmsum staðleysum, er hann í ræðu sinni nú var að bera á borð fyrir hv. þdm.

Hv. flm. talaði um afskaplegt ábyrgðarleysi hjá íhaldsmönnum, sem lýsti sjer í því, að þeir væru á móti að afla ríkissjóði tekna, og taldi ástæður íhaldsmanna engar aðrar en þær, að hæstv. stj. ráðstafaði ekki tekjum ríkissjóðs á þann hátt, sem þeir telja heppilegast. En eru ekki þetta nægar ástæður frá okkar bæjardyrum sjeð? Hvernig er hægt að ætlast til, að íhaldsmenn vilji rjetta þeirri stj. nýja tekjuauka, sem þeir treysta ekki til að hafa fjárreiður ríkisins með höndum?

Annars kom mjer það undarlega fyrir sjónir, að hv. 2. þm. Reykv. skyldi verða til þess að fitja upp á slíkum tekjuauka sem þessum. Það hefir nú verið svo á undanförnum þingum, að það hefir ekki skort stóryrðin hjá jafnaðarmönnum, þegar íhaldsmenn hafa verið neyddir til að bera fram frv. um tekjuauka. Þá hefir jafnan kveðið við sama tón: að það væri lítils virði að sýna afkomu ríkisins sæmilega, þegar vitanlegt væri, að alt, sem í ríkissjóðinn drypi, væri tekið úr vösum fátækra manna. Þess vegna þótti mjer undarlegt að heyra nú kveða við annan tón, og ennþá einkennilegra þó vegna þess, að mjer hefir virst annað kveða við í fjhn., þar sem við eigum báðir sæti. þegar rætt hefir verið um, hverja afstöðu nefndin tæki til þeirra ýmsu tekjuauka, sem væru á ferðinni í þinginu, — a. m. k. hefir mjer skilist svo á hv. 2. þm. Reykv., að hann mundi varla fyrstur manna verða til þess að leggja slíkum frv. liðsyrði. Hann taldi sig þá ekki dómbæran um að segja, hver tekjuhalli fjárlaganna mundi verða. Nú kveður hann upp úr með að tekjuhallinn muni verða um 600 þús. kr. Og á þeim tekjuhalla vill hann ráða bót að nokkru leyti með þessu frv., er hjer er nú til umr.

En sje nú þörf á þessum tekjuauka að dómi jafnaðarmanna, þá er mjer lítt skiljanlegt skraf hv. þm. Ísaf. um nauðsynina á að fella niður ýmsa tolla. Sá hv. þm. hefir t. d. alveg nýlega lýst því yfir, að hann mundi bera fram frv. um að fella niður kaffi- og sykurtoll, og jafnvel fleiri tolla að mjer skildist. Það, sem hv. flm. gefur með annari hendinni, tekur hv. þm. Ísaf. með hinni, og verður þá ekki auðvelt að glöggva sig á fjármálaspeki þessara manna.

Hv. flm. sagði, að jeg hefði sagt, að tekjuskatturinn kæmi þyngst niður á millistjettunum. En þetta er útúrsnúningur hans og misskilningur, sem hann notaði þó sjer í vil til þess að álykta, að þeir ríkari og tekjuhærri svikju skatt. Jeg skal ekkert deila við hann um skattsvik. Sjálfur mun hann falla undir þá tekinhærri, sem skatta eiga að greiða þjóðfjelaginu, og svarar því þá fyrir sig, hvort hann gerir það eða ekki. En mín orð voru þau, að af þeim tekjuaukafrv., er fyrir Alþingi lægju, mundi ekkert jafnbungbært millistjettunum sem hækkun tekjuskattsins.

Jeg staðhæfði í fyrstu ræðu minni, að tekjuskatturinn kæmi tiltölulega þyngra niður á íslenska atvinnurekendur en erlenda vegna mismunandi árferðis. sem við væri að stríða. Ennfremur benti jeg á, að nýr og þungur baggi hefði bætst á atvinnurekendur með gengishækkuninni. Jeg veit, að hv. flm. getur vel skilið, að þetta tvent, er jeg nú nefndi, geti farið saman, en þó virðist þetta flókið mál í hans huga, og má það undarlegt heita um mann með þeirri mentun, sem hann hefir fengið.

Jeg hefi víst tæplega leyfi hæstv. forseta til þess að víkja mikið að því, sem hv. þm. Ísaf. sagði. En rjett var það hjá honum, að afkoma alþjóðar veltur á því, hvernig fer um stórútveginn. Hitt er einnig satt, að okkur sumum hverjum þykir ekki eðlilegt, hve kalt andar oftast frá jafnaðarmönnum í garð þessa atvinnuvegar. Er því gleðilegt að heyra nú viðurkenning hv. þm. Ísaf., þegar hann er að tala um, að margir duglegir og áhugasamir menn sjeu í hópi þessara atvinnurekenda, sem unnið hafi mikið og gott starf, sem alþjóð beri að þakka. Þessi orð er sjaldgæft að heyra úr þeim herbúðum, sem hann heldur sig í. Við erum vanari að heyra þaðan talað um stórlaxa, sem ekki sjeu of góðir að borga í ríkissjóðinn — og það svo um muni.

Jeg má ekki misnota þolinmæði hæstv. forseta með því að fara að ræða þær tvær stefnur í skattamálum, sem við hv. þm. Ísaf. hvor í sínu lagi berum fyrir brjósti. Við höfum haft tækifæri til að leiða, bar saman hesta okkar, og gerum það væntanlega betur, enda stöndum við gersamlega á öndverðum meiði í þessu efni. Aðeins vil jeg endurtaka hjer það, sem jeg hefi svo oft sagt áður, að það er mín fulla sannfæring, að hækkun á tekjuskattinum muni draga ákaflega mikið úr framleiðslunni og að þess vegna beri þinginu skylda til að fara varlega í þessu efni.

Hv. þm. Ísaf. hafði það eftir mjer, að jeg hefði einhvern tíma sagt, að hlutafjelag gæti haft mikinn tekjuafgang, en slyppi þó við að greiða tekjuskatt. Þetta er rjett og ekki rjett eftir núgildandi lögum um tekju- og eignarskatt. Lögin mæla nefnilega svo fyrir, að draga megi frá 4% af innborguðu hlutafje. En hlutafjeð er lán, eða skuld fjelagsins við einstaka menn, sem lagt hafa fram fje í fyrirtækið. Hluthafarnir greiða svo aftur ríkissjóði fullan skatt af þessari eign sinni.

Hitt er rjett, að með lögunum frá 1926 er hlutafjelögum veitt allrífleg ívilnun með því að undanþiggja skatti 1/3 teknanna, sem lagðar eru í varasjóð. Þetta þótti nauðsynleg ráðstöfun til þess að hvetja fjelögin til að tryggja sem best fjárhag sinn. Jeg sje, að hæstv. dómsmrh. er kominn hingað í sæti sitt og brosir, enda mun hann hafa átt sinn þátt í því, að þessi ívilnun var veitt, þótt hitt sje ef til vill rjett, að honum hafi ekki verið fyllilega ljóst, hver fríðindi í þessu fólust.

Jeg hefi fengið orðsendingu frá hæstv. forseta um, að aths. sje farin að verða nokkuð löng, og er það ekki ófyrirsynju gert að minna mig á það. En áður en jeg sest niður vildi jeg mega leyfa mjer að benda á, að með lögum 1923 er svo ákveðið, að draga megi frá skattskyldum tekjum hlutafjelaga tekjuskatt og útsvar.

Með því nú að miða við hlutafjelag, sem greiddi nokkuð á þriðja hundrað þús. kr. á einu ári í útsvar og tekjuskatt, hefir opinberlega verið sannað, að hlutafjelagið getur haft mikinn tekju. afgang á pappírnum, en þó verið skattlaust.

Jeg hefi ekki sagt nema lítið eitt af öllu því, er jeg vildi segja, en finn þó ástæðu til að þakka hæstv. forseta fyrir þolinmæði þá, er hann hefir sýnt mjer að þessu sinni.