28.02.1928
Neðri deild: 34. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 3834 í B-deild Alþingistíðinda. (3502)

116. mál, tekju- og eignarskattur

Flm. (Hjeðinn Valdimarsson):

Það skal ekki verða löng athugasemd hjá mjer og aðallega til þess að bera af mjer sakir.

Hv. 2. þm. G.-K. fanst það sómasamlegt fyrir sig að draga hjer inn í umr. það, sem gerðist á fundi í fjhn. fyrir nokkru. Þetta er nú kannske út af fyrir sig ekki stórt atriði, en hann skýrir algerlega rangt frá afstöðu minni til tekjuaukans, sem þá var verið að ræða um. Enda mun það sýna sig á sínum tíma, hvernig við jafnaðarmenn tökum í þessi tekjuaukafrv.

Jeg skal játa, að jeg var þess fýsandi, að rannsakað væri, hvort þörf mundi á tekjuauka, og ef svo reyndist, mundi jeg verða með því, að gerð yrði einhver tilraun með að afla ríkissjóði tekna í viðbót. En hv. 2. þm. G.-K. vildi enga rannsókn. (ÓTh: Þetta er vísvitandi rangfærsla). Nei, þetta er sannleikur, eins og aðrir hv. samnefndarmenn okkar gætu borið vitni um.

En nú horfir þetta mál öðruvísi við en það gerði þá. Nú liggur fyrir álit hv. fjvn., þar sem íhaldsmennirnir í nefndinni taka það fram, að þeir muni ekki horfa í að bera fram 350 þús. króna útgjaldatill. við 3. umr. fjárlaganna, þó að tekjuhalli verði á frv. eftir 2. umr. Er því auðsætt, að full þörf verður fyrir þann tekjuauka, sem hjer er um að ræða, og jafnvel fleiri.

Jeg sje ekki það ósamræmi, sem hv. þm. talar um, að sje hjá mjer og hv. þm. Ísaf. Ef þau frv., sem við höfum borið fram til tekjuauka, verða samþ., þá nemur sú hækkun margfalt hærri upphæð en sú lækkun á kaffi- og sykurtolli, sem minst hefir verið á. Það er því ekki um neina mótsögn að ræða hjá okkur.

Þá mintist hv. 2. þm. G.-K. á tekjuskatt minn. Mjer er engin launung á því, að jeg greiddi síðastliðið ár 270 kr. í tekjuskatt og kannast ekki við, að jeg sje stórkostlegur skattsvikari. En af því mun hv. 2. þm. G.-K. geta reiknað út, hvort jeg muni vera í flokki tekjuhæstu mannanna eða millistjettar.