28.02.1928
Neðri deild: 34. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 3835 í B-deild Alþingistíðinda. (3503)

116. mál, tekju- og eignarskattur

Jóhann Jósefsson:

Jeg skal ekki tefja umr. lengi úr þessu.

Hv. þm. Ísaf. hefur nú flutt snjalla og skörulega ræðu, þar sem hann, vegna ummæla, sem frá mjer fjellu, hefir kannast við, að það sje rjett, að atvinnufyrirtæki landsins sjeu látin í friði, en vill þó ekki viðurkenna, að á þetta hafi skort. Þingræðurnar munu samt bera það með sjer, að það er ekki í fyrsta sinn á þessu þingi í dag, að andað hefir kalt í garð vissra atvinnufyrirtækja, og vanalega því kaldara, sem atvinnufyrirtækin eru stærri.

Hv. þm. Ísaf. sagði, að reynslan hefði sýnt það hvarvetna, að hækkun tekju- og eignarskatts hefði ekki orðið til þess að draga úr framtaki einstaklinganna. En mjer þætti gaman, ef hann skýrði þetta nánar. Það, sem jeg sagði um þetta, stendur jafnóhaggað fyrir þessari reynslu, sem hv. þm. var að vitna í, en jeg fyrir mitt leyti er sannfærður um það, að sú reynsla er ekki til.

Jeg skal ekki lengja umræðurnar meira í þetta skifti, en jeg vil endurtaka það, að það fjekk mjer sjerstakrar ánægju, að hv. þm. (HG) vildi ekki vita af þessum ummælum í garð atvinnurekstrarins hjer á landi, sem jeg verð að álíta hættuleg, ekki aðeins fyrir atvinnufyrirtæki þjóðarinnar nú, heldur líka í framtíðinni.