01.02.1928
Efri deild: 11. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 1349 í B-deild Alþingistíðinda. (351)

7. mál, skógar, kjarr og lyng

Fjmrh. (Magnús Kristjánsson):

Þetta er í rauninni ekkert stórmál, svo það er ekki mikil ástæða fyrir mig til að taka afstöðu til þess. En mjer þykir nokkur vafi á því, hvort þetta frv. sje til verulegra bóta, því mjer finst í raun og veru, að eðlilegast væri, að það væri á valdi ríkisstjórnarinnar, hvar væri varið fje í þessu skyni. En mjer finst, að það sje að mestu leyti á valdi þeirra, sem landið eiga, hvað gert verður í þessu efni, svo að mjer þykir sem þetta gefi mönnum að sumu leyti óþarflega mikið undir fótinn með það að seilast eftir fje úr ríkissjóði til þessara hluta, og þykir mjer ekki ólíklegt, að það kunni að verða notað þar, sem ekki sje mikil ástæða til, eða lítill árangur verði af. En í raun og veru er málið ekki svo mikils virði, að jeg vilji leggja neitt kapp á það.

Að því er mjer virðist, þá eru tvær fyrri brtt. á þskj. 72 heldur til bóta, að því leyti, að það verður ekki eins greiður gangur að því að heimta fje þar, sem lítil ástæða er til að hefjast handa í þessu efni.

Að því er snertir brtt. við 7. gr., þá vil jeg geta þess, að það er eitt atriði í frvgr., sem mjer þykir dálítið óeðlilegt; það er það vald, sem komið gæti til mála, að skógarvörður hefði fram yfir skógræktarstjóra, að skógarvörður geti leyft nytjar lands fram yfir það, sem skógræktarstjóri hefir heimild til. Auðvitað getur staðið nokkuð misjafnt á um landið, en samt er óeðlilegt, að tímatakmarkið skuli ekki vera það sama, og finst mjer því, að sú bót sje að brtt., að þetta ósamræmi verði leiðrjett með því að samþykkja hana.

Það hefði kannske verið allra rjettast að taka ekki ákvörðun um þetta mál þegar á þessum fundi, þar sem nefndin hefir ekki haft tækifæri til að ræða brtt.

En þrátt fyrir það, þó þetta mál sje í sjálfu sjer ekki mikils virði, verð jeg samt að álíta það rjettara að greiða heldur atkv. með brtt., þar sem það þó virðist vera tilgangur þeirra að hindra ríkissjóð frá að leggja fje í það, sem lítill eða enginn árangur verður af.