27.03.1928
Neðri deild: 58. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 3841 í B-deild Alþingistíðinda. (3512)

116. mál, tekju- og eignarskattur

Frsm. minni hl. (Ólafur Thors):

Við, sem í minni hl. urðum í nefndinni, höfum lagt til, að þetta frv. verði felt. — Ber margt til þess, en þó fyrst og fremst það, að jafnvel þótt allir væru á eitt sáttir um tekjuaukaþörf ríkissjóðs, er sú leið, er frv. bendir á, að okkar dómi ófær.

Hv. frsm. meiri hl. telur sig hafa rannsakað skattgjald manna í Danmörku og kemst að þeirri niðurstöðu, að tekjuskattur sje lítið hærri hjer en þar. Jeg hefi líka nokkuð rannsakað þetta og komist að alt annari niðurstöðu, en vegna þess, hve slíkur samanburður er erfiður, og þar eð jeg get vel rökstutt mitt mál, þótt staðhæfingar hv. frsm. meiri hl. væru rjettar, ætla jeg til hægðarauka að ganga út frá, að svo sje.

Hv. frsm. meiri hl. taldi tekjuskattinn vera hærri hjer en í Danmörku á hærri gjaldendum. En aftur lægri hjer en í Danmörku á miðlungstekjum. En þegar þetta er athugað, þá er fleira, sem þarf að taka til samanburðar. Það þarf t. d. líka að líta á útsvörin. Hjer eru þau mjög þung, og þarf að taka þau til samanburðar í báðum stöðunum. Jeg veit ekki, hvort hv. þm. hefir gert það. — Þá er hagur manna miklu betri í Danmörku en hjer. Meðaltalseign einstaklingsins er þar fjórföld við það, sem hjer er. Afleiðing þess er, að þeir þola þyngri skatta. Þá sagði hv. þm., að þótt svo væri, að tekjuskattur væri hærri hjer en í Danmörku, þá væri ekkert athugavert við það, þar sem hjer væri ónumið land og mikið, sem þyrfti að gera. Hjer kemur einmitt fram höfuðaðstöðumunurinn milli mín og hans um afstöðu okkar til þessa máls. Sú staðreynd, að við búum hjer í ónumdu landi, er í mínum augum sjerstök hvöt til að hafa tekjuskattinn lágan. Vegna þess að svo er, þá varðar það mestu að hvetja til framtaks. En löggjafinn gerir það best með því að hlífa frekar framtaksmanninum við að greiða ríkissjóðsgjöldin, en skattleggja eyðslu. Með öðrum orðum, að þótt algert rjettlæti náist ekki, þá er þó betra að haga löggjöfinni svo, að menn sjeu hvattir til sparsemi og að ýtt sje undir framtakssemi manna. Jeg álít því rjettara að leggja gjöldin á neysluvörurnar heldur en arðinn af starfrækslu manna. Þetta er sá höfuðaðstöðumunur, sem okkur skilur.

Þá er sú spurning, hvort hjer sje hætta á ferðum. Hvort þessi gjaldstofn sje ekki svo lágur, að óhæft sje að hækka hann án þess að framtak einstaklingsins sje heft með því.

Hv. frsm. meiri hl. sagði, að tekjuskatturinn væri þyngri hjer en í Danmörku. Að vísu ekki miklu þyngri, en þó þyngri. Er þó Danmörk miklu ríkara land. Skattgreiðendur þar eiga því miklu hægra með að gjalda háan tekju- og eignarskatt. Við minnihl.-menn teljum, að þessi skattur sje nú svo hár, að ekki sje viðlit að hækka hann nje vit að gera það, vegna þess að það mundi stórlega draga úr framtakssemi manna. Viðureign manna hjer við náttúruöflin er svo hörð, að ekki má veikja þá í þeirri baráttu. Og það er líka staðreynd hjer á landi, að þó sæmilega blessist með atvinnuvegina annað árið, þá jetur næsta ár það upp. Árferði er svo misjafnt hjer, eins og menn vita.

Ef farið er að tala um það, hvað Danir geri í þessum efnum, má benda á það, að jafnaðarmennirnir dönsku stungu upp á því, að hækka tekju- og eignarskattinn þar, en þó nam sú hækkun ekki svo miklu, að tekjuskatturinn yrði eins hár og hann nú er hjer, án breytinga, og náði þessi hækkun ekki lögfestu.

Undanfarið hefir bændastjórnin danska haft það á döfinni að lækka tekjuskattinn. — Sökum þess, hve mál þetta er þrautrætt orðið að því er snertir höfuðstefnurnar, vil jeg ekki þreyta hv. deildarmenn með ,,teoretiskum“ fyrirlestri um það efni. Geri jeg ráð fyrir því, að þeim sje kunnugt um, hvað á milli ber um stefnu jafnaðarmanna og íhaldsmanna, en að síðustu vil jeg með nokkrum almennum athugasemdum leiða athygli að helstu göllunum á tekju- og eignarskattslöggjöfinni.

Vil jeg þá benda á það, að skattgreiðendum þykir ilt að þurfa að greiða svo háan skatt í einni heild. Ennfremur er mjög erfitt að fyrirbyggja það, að tekju- og eignaframtöl sjeu svikin, en afleiðingin er sú, að fyrir svik annara verður hinn ráðvandi að gjalda. Þetta er annar afarveigamikill galli á skattalöggjöfinni. Loks vil jeg benda á það, hve þessi tekjustofn er geysilega stopull, sem sjá má á því, að tekjuskattur nemur aðeins 1/3 eitt árið af því, sem hann er annað árið.

Ef byggja á útgjöld ríkissjóðs á slíkum tekjustofni, verð jeg að álíta, að mjög sje í voða stefnt. Heldur þykir mjer það köld svör til embættismanna landsins, er þeir hafa sent þinginu málaleitun um nokkra launabót, og þingið svarar þeirri beiðni neitandi, þótt það hafi um leið viðurkent, að þess væri full þörf, en látið hitt vega þyngra, sem og rjett er, að ríkissjóður rís ekki undir þeirri launahækkun, — að í stað þess svars, er þeir óska, er þeim send þessi breyting á tekjuskattslöggjöf ríkisins, sem auðsjeð er, að hlýtur að koma þyngst niður á þessum mönnum og íþyngja þeim talsvert.