27.03.1928
Neðri deild: 58. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 3844 í B-deild Alþingistíðinda. (3513)

116. mál, tekju- og eignarskattur

Magnús Jónsson:

Eins og jeg benti á við 1. umr. þessa máls, þá er það alviðurkent, að af öllu, sem menn gjalda til hins opinbera, finna menn langþyngst til hinna beinu skatta — tekju- og eignarskatts og aukaútsvars.

Það þýðir ekkert að halda því fram, að þessir skattar sjeu rjettlátari. Þeir menn, sem fá goldnar svo lágar tekjur viku- og mánaðarlega, að þær hrökkva ekki til brýnustu þarfa, finna langþyngst til þess að eiga að gjalda þessi háu gjöld einu sinni til tvisvar á ári. Tekjuskatturinn kemur langónotalegast við, sökum þess að hann einangrast, en önnur gjöld, tollar og því um líkt, festast í verðlagi á vörum, og er tekið tillit til þeirra, þegar ákveðið er kaupgjald manna. Jeg vil benda á það, eins og hv. 2. þm. G.-K. hefir einnig tekið fram, að það myndi bæta mikið úr, ef þessir beinu skattar kæmu ótvírætt rjettlátt niður, en öllum kemur saman um það, að fjarri sje því, að svo sje, enda ekki hægt við að gera.

Það er viðurkent hjer og annarsstaðar, að þeir, sem fá ákveðna borgun fyrir vinnu sína, svo sem opinberir starfsmenn, skrifstofufólk og bankamenn, gjaldi mikinn hluta þessara gjalda og í langhæstu hlutfalli, miðað við tekjur þeirra.

Jeg benti á það við 1. umr., að til þess eru dæmi, að einstakur maður, sem vinnur á skrifstofu hjer í Reykjavík, greiði eins mikið í tekjuskatt og heilir hreppar, enda þótt í þeim hreppum finnist vel efnaðir bændur. — Þetta vita allir, og er ekki hægt í móti því að mæla.

Jeg hefi fengið dálitla sundurliðun á því, hve mikill tekjuskattur hvíli á þeim mönnum hjer í Reykjavík, sem eru á föstum launum. Mjer hefir verið gefið upp, að þessir menn greiði liðlega 180 þús. kr., og einmitt á þessa menn, sem berjast í bökkum eða komast ekki af, á nú að leggja með þessu frv. hækkun, sem nemur um 45 þús. kr. Þeim fyndist sennilega flestum, að þeim væri meiri þörf á dálítilli launabót heldur en á þessum tilfinnanlega aukaskatti.

Jeg vil um leið benda á viðvíkjandi brtt. á þskj. 401, þar sem gert er ráð fyrir því, að tekjur, sem ekki nema 4000 kr., skuli undanþegnar, að jeg er ekki viss um, að þetta sje nægilega skýrt fram tekið í till.

Hvernig eru þessar 4000 kr. reiknaðar? Eru það tekjur áður en lögmætur frádráttur er gerður? Það hefði mikið að segja, ef svo væri. Þá mundi tekjuskattur af 4000 kr. nema 72 kr. að jeg held. Ef um hjón er að ræða, má draga frá 1000 kr., og er þá tekjuskattur af 3000 kr. kr. 42.00, og er þá skattívilnunin kr. 10.50. Ef þessi hjón eiga tvö börn, má enn draga frá 1000 kr.; er þá tekjuskatturinn kr. 22.00 og skattívilnun kr. 5.50. Þetta er þá svo óveruleg upphæð, að hún hefir ekkert að segja.

Alt öðru máli er að gegna, ef átt er við 4000 kr. skattskyldar tekjur. Yfirleitt er tekjuskattslöggjöf vor ákaflega ófullkomin á ýmsan hátt, enda ekki óeðlilegt, þar eð hún er flutt inn frá öðrum löndum, þar sem ástæður eru alt aðrar en hjer.

Sjerstaklega er skattalöggjöfin ófullkomin, ef þess er gætt, hve framkvæmdir á tekjuskattslöggjöfinni eru misjafnar til sveita. Sama er að segja um hlutafjelögin, sem hafa mjög mismunandi tekjur. Á því getur enginn vafi leikið, að hið fyrsta verkefni þeirrar skattanefndar, sem í ráði er að skipa, verður það, að taka þessi atriði til gagngerðrar athugunar.

Því finst mjer, að þar sem ekki er hægt að benda á aðkallandi þörf til þessarar hækkunar á tekjuskatti, þá mætti slíkt bíða, þar til nefndin hefir komist að niðurstöðu um þessi atriði.

Eins og skattstiginn er nú hækkunarlaust, með þeim misfellum, sem á honum eru, kemur skatturinn mjög órjettlátlega niður, eins og allir vita. Með frv. þessu er ekkert bætt úr göllum löggjafarinnar, misfellurnar stækka aðeins í sama hlutfalli og skatturinn hækkar, en frv. fer fram á að hækka skattstigann. Og viðvíkjandi því, að þessi hækkun nái til 1930, þá álít jeg óþarft að setja ákvæðið til svo langs tíma.

Það voru ýms atriði í ræðu hv. frsm. meiri hl., sem jeg hefði viljað minnast á, en hv. frsm. minni hl. hefir nú drepið á flest þeirra. Vil jeg þó minnast á eitt þeirra, en það er sú almenna regla, sem hv. frsm. meiri hl. hjelt fram, að það væri meira gagn að því, að peningarnir væru í höndum ríkisins en í höndum einstakra manna. (HjV: Þessar 200 þús. kr.). Skil jeg ekki, að það eigi við um þá, sem ekkert hafa umfram beinar lífsþarfir, nema út frá þeirri almennu reglu, að peningarnir sjeu best komnir hjá ríkinu. Mun það og mjög nálægt þeirri stefnu, sem hv. frsm. sem jafnaðarmaður heldur fram, þar sem eignarrjetturinn er yfirleitt talinn skaðlegur og álitinn þröskuldur í vegi allra framfara. Út frá öðru skil jeg ekki, að hægt sje að setja fram þessa skoðun.

Við verðum að meta það í hvert skifti, hvort ríkið geti gert meira gagn einstaklingum þjóðarinnar með þeim tekjum, er það fær, en einstaklingarnir sjálfir.

Þá hjelt háttv. frsm. meiri hl. því fram, að hjer gætu menn sætt sig við hærri tekjuskatt en í nágrannalöndunum, þar sem hjer þyrfti meiri framkvæmda en í „eldri“ löndunum, sem lengra eru komin áleiðis; en jeg verð að álíta, að það sje einmitt þvert á móti. England t. d. getur staðið sig við að taka megnið af sínum tekjum með tekjusköttum. Hvers vegna? Það er ekki vegna þess, að þar sje ónumið land og framkvæmdir skamt á veg komnar, heldur vegna þess, að þetta er gömul og forrík þjóð, svo að peningarnir verða að leita að fyrirtækjunum, en ekki eins og hjer, þar sem fyrirtækin verða að leita fjárins. Þar, sem fjárhagurinn er mjög þröngur, eins og hjer, er ekkert eins nauðsynlegt og að spara eitthvað saman, sem getur gengið til peningastofnananna og þaðan til fyrirtækjanna, og því held jeg, að verði að fara varlega í það að íþyngja þeim um of, sem einhvers afla.

Skal jeg svo ekki orðlengja um þetta frekar, en vildi aðeins fyrir mitt leyti leggja það til, að hv. deild sæi sjer fært að láta frv. þetta ekki ná fram að ganga. Hitt er annað mál, þar sem á leiðinni er nefnd til þess að rannsaka alla skattalöggjöfina, að hún athugaði í sambandi við önnur skattamál, hvort hægt muni vera að hækka tekjuskattinn án þess að íþyngja þeim um of, sem nú verða harðast úti með þessi gjöld.