27.03.1928
Neðri deild: 58. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 3848 í B-deild Alþingistíðinda. (3514)

116. mál, tekju- og eignarskattur

Frsm. meiri hl. (Hjeðinn Valdimarsson):

Þegar jeg bar þetta frv. fram af hálfu okkar jafnaðarmanna, var það að nokkru leyti vegna þess, að frá fjhn. kom frv. um að innheimta vörutoll með 25% gengisviðauka. Fyrir því er hækkun í þessu frv. miðuð við 25% og til sama tíma, 1930, eins og í gengisviðaukafrv. Þetta var gert með það fyrir augum, að gera má ráð fyrir því, að kosin verði nefnd á þessu þingi, er fjalli um skattamál landsins. Þá má vænta þess, að afleiðingin af starfi þeirrar nefndar verði sú, að settur verði nýr grundvöllur undir tekjuskatts- og tollalöggjöf landsins.

Það er athyglisvert að bera saman afstöðu hv. 1. þm. Reykv. til þessara tveggja frv., frv., sem fór fram á hækkun kaffi- og sykurtolls um 25%, og þess frv., sem hjer um ræðir. Hv. þm. barðist mjög fyrir hækkun sykurtollsins, enda þótt sú hækkun lenti langharðast á heimilum verkamanna og sjómanna, þar sem börnin eru oft mörg og fátækt mikil. Kemur þessi hækkun tollsins þyngst niður á þeim, er búa við sjávarsíðuna, og því þyngra, sem heimilin eru fátækari.

En með þessu frv. um tekjuskattsviðauka eru þeir í fyrsta lagi undanþegnir, er ekki hafa hærri tekjur en 4000 kr., og í öðru lagi kemur þessi hækkun jafnt niður, þannig að efnamennirnir greiða því meira, sem tekjur þeirra eru hærri, svo framarlega sem það eru heiðarlegir menn, sem skattinn greiða, og skattanefndin er rjettlát í gerðum sínum.

Þessi framkoma lýsir svo greinilega hugsunarhætti hv. 1. þm. Reykv., að berjast á móti hækkun á tekju- og eignarskatti efnamannanna, en berjast með hækkun tolla, sem kemur harðast niður á fátækustu heimilunum, einkum þó við sjóinn, og þá fyrst og fremst hjer í Reykjavík.

Hv. 2. þm. G.-K. sagði, að jeg hefði ekki tekið nægilegt tillit til útsvaranna hjer, sem væru mjög þung, í samanburði við tekjuskattinn í Danmörku. Jeg hefi einnig athugað þetta og virðist tekjuskatturinn til bæiarins í Kaupmannahöfn, sem svarar til útsvarsins hjer. vera mjög líkur útsvörunum hjer.

Við niðurjöfnun hjer nema útsvör aldrei meira en 15% af tekjum manna, en í Kaunmannahöfn nemur tekjuskattur til bæjarins þó oft alt að 21% af tekjunum. Þá gat hann bess, að Danir þyldu betur háan tekjuskatt, sökum þess að þeir væru ríkari þjóð.

Það getjeg ekki skilið. — Því að einstaklingar með sömu tekiur í báðum löndum hljóta að bola sama skattstiga, jafnháan tekjuskatt. Finst mjer það einnig mjög kynleg röksemdaleiðsla hjá þessum tveim hv. þm. (ÓTh, MJ), að rík þjóð þoli betur háa skatta, en ríkur maður þoli þá ver, eins og virtist koma fram við umræður þeirra, sem altaf eru að berjast á móti hærri tekjuskatti á efnuðu stjettirnar en með tollum á fátæklingana.

Það kann að vera, að oft sje deilt um stefnu íhaldsmanna og jafnaðarmanna í skattamálum, enda eru þær stefnur mjög mismunandi, eins og víða greinir á með jafnaðarmönnum og framsóknarmönnum. En um frv. það, sem hjer um ræðir, voru bæði framsóknarmennirnir og jafnaðarmaðurinn í nefndinni sammála, svo að óþarfi er í sambandi við þetta mál að taka upp slík deiluefni. Háttv. 2. þm. G.-K. gat þess, að tekjuskattslöggiöfin hefði ýmsa galla, t. d. þann, að skattgreiðendur yrðu að greiða gjald þetta einu sinni á ári, og kæmi það því tilfinnanlega við menn. Veit jeg ekki, hvernig þessu er háttað um sveitirnar, en hitt veit jeg, að hjer ganga innheimtumenn um, svo að menn geta jafnvel greitt af tekjuskatti sínum vikulega, ef þeir fara fram á það. Hv. þm. gat þess einnig, að skattsvik væru mjög farin að tíðkast; jeg er alveg sömu skoðunar, að mikil brögð eru að skattsvikum, og mun minst af þeim komast unp. Þetta er auðvitað stór galli á löggjöfinni. en jeg vænti þess, að hæstv. núv. stj. geri ítarlega gangskör að því að láta skattanefndir athuga svo framtöl manna, að þetta geti ekki viðgengist.

En í þessu sambandi vil jeg geta þess að jeg er þess óviss hvort skattsvikin eru meiri en tollsvikin, því að það er alkunna, að tollsviknar vörur eru jafnvel seldar í búðum, og það vörur eins og tóbak sem allir geta sjeð, að er skattsvikið, þegar tollmerki vantar á það; og árlega komast upp stórkostleg tollsvik. Hygg jeg, að lítill munur muni á sviksemi gjaldenda, hvort sem um skatta eða tolla er að ræða, svo að þar sje ekki hægt að halda fram tollum umfram beina skatta. En eftirlit fyrverandi ríkisstjórna hefir verið skammarlega ljelegt með þessum málum. Þá hjelt hv. þm. því fram, hve beinu skattarnir væru stopull tekjustofn fyrir ríkið, — en alveg hið sama má segja um tollana. Þeir minka og hækka eftir árferði, svo að engu minni munur er á þeim frá ári til árs en tekjuskattinum. Hv. 2. þm. G.-K. og hv. 1. þm. Reykv. tóku það fram, að þessi hækkun tekju- og eignarskatts kæmi þyngst niður á millistjett manna og embættismönnum, og þykir þeim það heldur köld svör þingsins gagnvart launabeiðni þeirra.

Jeg verð að efast um það, að tekjuskattur liggi svo sjerstaklega þungt á embættismönnum, ef það er rjett, sem háttv. 1. þm. Reykv. sagði, að þeir greiddu 180 þús. kr. á ári í tekjuskatt.

Auk þess finst mjer, ef sagt er, að það sje of mikið að leggja ¼ meiri skatt á embættismennina, að það sje enn ranglátara, ef þessar 200 þús. kr. eru lagðar á þá, sem eru neðar embættismönnunum að launum, eins og gert yrði með hækkun kaffi- og sykurtolls, því að þá mundi þunginn mestmegnis lenda á fátækasta fólkinu við sjóinn. Þegar menn eru komnir upp í 5000–7000 kr. árstekjur, er þeim vorkent, að á þá sje lagður skattur, en ef árstekjurnar nema ekki meiru en 2000–3000 kr., þá má ómögulega ljetta skatti af þeim.

Hv. 1. þm. Reykv. spurði, hver tilgangurinn væri með 4000 kr. frádrættinum, hvort þær tekjur ættu ekki að vera skattskyldar. Frv. ber með sjer, að svo er sem fyr, því að gert er ráð fyrir auknum skatti einungis á hærri tekjum. Að vísu munar ekki mikið um skatt af svo lágum tekjum, og er tvísýnt, hvort það borgi sig að hafa tekjuskatt á lágtekjum. Vil jeg í því sambandi geta þess, að oft hefir komið til mála í bæjarstjórn Reykjavíkur að fella niður hin lægstu útsvör, af því að þau svara ekki kostnaði.

Þá sagði hv. 1. þm. Reykv., að langur tími væri til 1930. Jeg skal játa, að æskilegt væri, að undirbúningur skattalöggjafarinnar gæti gengið svo fljótt, að þessi sjerstaki tekjuauki gæti gengið úr gildi fyrir þann tíma, en eftir því, hvernig gengið hefir til þessa um undirbúning þennan, er varla þess að vænta, að gengið verði frá skattalöggjöfinni fyr. En færi svo, að svo miklar tekjur fengjust á þennan hátt, að hægt væri að afnema tekjuaukalög þessi fyr, mætti fella þau úr gildi á þinginu 1929 frá næstu áramótum.

Háttv. 1. þm. Reykv. sagði, að jeg hefði sagt, að peningarnir væru betur komnir hjá ríkissjóði en einstaklingum. Þetta er auðvitað haft gersamlega rangt eftir mjer, og vona jeg, að það stafi af misskilningi, en ekki öðru. Jeg sagði, að þær 200 þús. kr., sem hjer er um að ræða, væru betur komnar hjá ríkinu, með því að búið væri að samþykkja þau gjöld, að þeirra þyrfti með. Þingið er nú komið svo langt með fjárlögin, að ekki er þess að vænta, að neinar verulegar breytingar verði á gjaldahlið þeirra hjeðan af, og verður því að afla þess fjár, er með þarf, með tekjuaukafrv.

Loks tók hv. þm. undir það með hv. 2. þm. G.-K., að í þessu landi ætti að auka auðsöfnun einstakra manna, með því að hlífa þeim, er mest fje hefðu dregið saman. Gröndal segir einhvers- staðar: „Þá var stolið öllu frá þeim, sem ekkert áttu“. Það er það, sem þeir og þeirra flokksmenn vilja. En jeg tel rjettara, að fje safnist hjá fátækari hluta þjóðarinnar, svo að honum gefist kostur á að bæta lífskjör sín, eða safna sjer varasjóði fyrir veikindum, elli og uppfóstrun barna, heldur en að hlífa auðugasta fólkinu. Þetta frv., sem hjer er um að ræða, kemur hvorki við verkalýð nje bændur, og ekki við millistjettina nema að litlu leyti. En jeg álít, að stóratvinnurekendur landsins sjeu ekki of góðir til þess að greiða þá skatta, sem þeir eru færir um, í ríkissjóð, þegar hann þarf þess með.