27.03.1928
Neðri deild: 58. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 3859 í B-deild Alþingistíðinda. (3517)

116. mál, tekju- og eignarskattur

Magnús Guðmundsson:

Jeg verð að játa, að mjer er heldur illa við þetta frv., enda þótt jeg sje ekki óvinveittur þeim skattstofni, sem hjer er um að ræða. Þvert á móti tel jeg hann rjettlátan að vissu marki. Árið 1921 var hann fyrst settur í lög í svipaðri mynd og nú er. Að vísu voru til lög um tekju- og eignarskatt frá 1877, en þau voru ófullkomin og skatturinn ekki stighækkandi. Gaf hann ríkissjóði og litlar tekjur. En síðan 1921 hafa tekjurnar af honum verið nokkuð á aðra miljón króna að meðaltali á ári. Stundum hefir hann og verið hærri, á þriðju miljón kr. — Þegar þessum skatti var komið á, var dýrtíðin á hápunkti sínum, og var skattstiginn miðaður við hið háa verðlag. Jeg og núv. hv. 2. þm. Reykv. unnum þá einmitt saman að þessu máli, og veit jeg, að hann minnist þess, að okkur þótti fært að hafa skattstigann svo háan vegna þess verðlags, er þá var hjer í landi. Síðan hefir skatturinn ekki verið lækkaður. Þvert á móti hefir hann verið hækkaður á hinum hærri tekjum á Alþingi 1923. Jeg held því, að hann verði of hár, ef hann á nú að hækka um fjórða hluta. Því má ekki gleyma, að þótt þessi tekjustofn sje góður, hefir hann sína galla. Hinn stærsti mun líklega vera sá, að þeim mun hærri sem hann er, þeim mun ver innheimtist hann.

Um það hefir verið talað, að þessi skattur komi misjafnt niður á ýmsum stöðum á landinu. En það hlýtur þá að vera framkvæmdinni á lögunum að kenna, því að í þeim er enginn greinarmunur gerður á skattinum eftir því, hvar í landinu menn eiga heima.

Ef skatturinn verður hækkaður nú, verður það til þess að auka óvinsældir hans; það verður einkum óheppilegt um sveitirnar, því að jeg er hræddur um, að margir álíti, að þessi skattur eigi þar alls ekki við. En jeg álít, að hann eigi eins vel við þar eins og annarsstaðar, þótt hann eigi eftir að ná þar fullkominni festu. Þess vegna er ekki laust við, að jeg óttist, að farið verði að leita að nýjum skattstofnum til sveita, ef óvinsældir tekju- og eignarskattsins fara vaxandi. En jeg veit, að ekki finnast aðrir, sem koma ljettar niður á sveitabúum. Það er því ilt, ef þetta verður til þess að draga fram þá galla, sem geta verið á þessum góða stofni, svo að kostirnir kæmust í skugga fyrir þeim. Því að kostirnir eru margir. Jeg hygg, að engin skattalög sjeu rjettlátari, ef þau eru rjett framkvæmd.

Því hefir verið haldið fram, að tekjuskattslögin frá 1921 væru ófullkomin. Jeg vil ekki neita, að svo kunni að vera í ýmsum einstökum atriðum, en þótt þau verði endurskoðuð, fullyrði jeg, að aðalreglum þeirra laga verður fylgt framvegis. Hinsvegar veit jeg, að skort hefir nægilegt eftirlit með þeim hingað til, en það er ekki löggjöfinni að kenna. — Eitt vil jeg undirstrika: að síðan þessi lög voru sett, hefir yfirleitt verið erfitt árferði til sveita, og því hefir ekki mátt búast við miklum skatti þaðan. Menn hljóta líka að viðurkenna, að erfitt er að hafa þannig búreikninga, að þeir geti talist tryggir. En það er ekki aðeins hjer á landi, sem kvartað er undan því, að skatturinn sje minni úr sveitum en bæjum. Það er alstaðar gert. En jeg er ekki viss um, að þær kvartanir sjeu á rökum bygðar. Skal jeg þó ekki neita, að vegna fyrirkomulagsins sje meira undir framkvæmd laganna komið í sveitum en bæjum.

Jeg hefi það fyrir satt, að eins og stendur sje þessi skattur hvergi hærri í nágrannalöndunum heldur en hjer. Ef hann er hækkaður um ¼ hluta, erum við þar með komnir langt fram úr öðrum. Jeg get bætt því við orð hv. 2. þm. G.-K., að danska bændastjórnin hefir nú þegar á þessu ári lækkað skattinn, af því að hún áleit, að hann ætti að lækka í hlutfalli við hækkun krónunnar.

Jeg mintist þess, að í umræðunum um byggingar- og landnámssjóð í hitteðfyrra var stungið upp á að afla honum tekna með viðauka við tekju- og eignarskattinn, sem þó skyldi ekki verða hærri en í Englandi. En það var upplýst við rannsókn, að ekkert mundi koma í sjóðinn, því að okkar tekju- og eignarskattur væri þegar eins hár og Englendinga. Veit jeg ekki til, að síðan hafi verið hróflað við þessum skatti í Englandi.

En það, sem aðallega gerir það að verkum, að jeg get ekki samþykt frv., er það, að jeg óttast, að hækkunin muni auka óvinsældir skattsins og máske leiða til þess, að þessi skattstofn þyki ekki nýtilegur fyrir suma hluta landsins. En það teldi jeg illa farið.