27.03.1928
Neðri deild: 58. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 3861 í B-deild Alþingistíðinda. (3518)

116. mál, tekju- og eignarskattur

Halldór Stefánsson:

Jeg ætla ekki að blanda mjer í hina almennu röksemdaleiðslu með og móti frv. Vil aðeins benda á, að þegar þyngja skal álögurnar alment, er sennilegt, að best sje, að það komi niður á sem flestum tekjustofnum ríkissjóðs. Hjer á þó að gæta hófs um þennan skatt, því að eftir brtt. meiri hl. á að fella hinar lægri tekjur undan viðaukanum. — Í öðru lagi virðist mjer, að í samanburðinum við tekju- og eignarskatt annarsstaðar gleymi menn verulegu atriði, sem sje útsvörunum. En þau eru samskonar í eðli sínu og síst minni víðast á landinu, heldur þvert á móti hærri.

Það, sem olli því, að jeg stóð upp, var þó ekki þetta, heldur ummæli frá hv. þm. Dal. Þau fjellu á þá leið, að embættismenn hjer á landi væru mjög illa launaðir, og það væri alment viðurkent. Jeg vil ekki láta þessi ummæli fara svo um garð, að ekki sje að þeim vikið. Fyrst og fremst er það við þetta að athuga, að laun embættismanna hjer á landi eru svo misjöfn, að ein umsögn getur ekki átt við um þau alment. Í öðru lagi fer það, hvort þau eiga að teljast há eða lág, eftir því, við hvað er miðað; alla hluti þarf að viðmiða, til þess að þeir skiljist. Ef miðað er við embættislaun í öðrum auðugri löndum, er þetta kannske satt hjá hv. þm. Dal., og eins, ef miðað er við tekjur þeirra, er þær hafa mestar hjer á landi. Það skiftir miklu máli, hvort miðað er við þetta fyrsagða eða við smáframleiðendur, verkafólk og annan almenning, sem þó verður að borga sinn skerf til launagreiðslunnar. Ef við tekjur þessa fólks er miðað, er ekki hægt að segja skilyrðislaust, að laun embættismanna sjeu lág. — Þetta fer og eftir því, hvort miðað er við hófsamlegt líferni eða eyðslulíf. En því má ekki gleyma, að íbúarnir verða að miða kröfur sínar við náttúrugæði landsins, en ekki við það, hvað hugurinn kann að girnast. — Til eru tvær leiðir fyrir embættismenn til að bæta kjör sín. Önnur, sem hjer er mjög kunn, er að krefjast meiri launa. Hin er að lækka kröfurnar til þæginda og miða þær við hin eðlilegu náttúrugæði lands vors og hvað það getur af mörkum látið. Enn gætu þeir reynt að hafa áhrif á dýrtíðina í landinu. Ef hægt væri að lækka hana, væri það sama eins og kjör embættismanna bötnuðu að mun. Ef til vill má segja, að embættismenn hafi lítil skilyrði til þess að hlutast til um að draga úr dýrtíðinni, en þeir ættu þó að geta sjeð leiðir til þess, ekki síður en aðrir.

Það er t. d. eitt mikilsvert atriði í þessu sambandi sem oft er bent á, og það er hin óhæfilega háa húsaleiga, sem verður að greiða hjer í Reykjavík. Það gæti verið mikilsvert atriði til þess að bæta kjör embættismanna ef fundin væri leið til að lækka þennan stóra lið í útgjöldum þeirra.

Jeg fjölyrði ekki um þetta meira og býst ekki við að fást um það, þótt einhver andmæli: það er ekki minn háttur að munnhöggvast um alt, sem jeg er ósamþykkur því sem sagt er.