27.03.1928
Neðri deild: 58. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 3876 í B-deild Alþingistíðinda. (3522)

116. mál, tekju- og eignarskattur

Sigurður Eggerz:

Jeg vil leyfa mjer að taka það fram út af ræðu háttv. 1. þm. Rang., að jeg hefi ekki með einu orði minst á þröngsýni bænda í þessum málum. (EJ: Jeg játa, að það hafi ekki verið gert undir þessum umræðum, heldur áður).

Mjer hefir skilist það, að beint hafi verið andmælum gegn mjer fyrir það, að jeg benti á, hvar tekjuskatturinn kæmi harðast niður. Því eins og jeg tók fram áðan, þá sýnir það sig, ef miðað er við árið 1927, að enginn tekjuskattur kemur á útgerðina, en allríflegur hluti af honum á embættismenn og ýmsa starfsmenn.

Þá hneykslaði það hv. 1. þm. N.-M., að jeg fór nokkrum orðum um kröfur embættismanna um að fá nokkra aukning á dýrtíðaruppbót þeirra. En jeg tók það jafnframt fram, að jeg væri einn í þeirra hópi, sem treystust ekki til að taka þá kröfu til greina nú, enda þótt hún ætti fullan rjett á sjer, ef hagur ríkissjóðs væri betri en hann er nú. Þá sagði þessi hv. þm. einnig, að þegar dæma ætti um kröfur þessara manna, þá yrði að miða þær við hófsamlegt líferni. Þetta er alveg rjett hjá hv. þm., því að það er hvorttveggja, að þjóðin hefir ekki ráð á meiru, og í öðru lagi væri það hrein fjarstæða að miða launin við annað. Laun flestra opinberra starfsmanna eru nú frá 3500 til 6000 kr., en þeir sem eru í hærri launaflokki, hafa frá 6–8 þús., og þegar svo litið er á það, að þessir menn verða að greiða í húsaleigu 1500–2000 kr. á ári, og það jafnvel upp í 3000 kr., þá er það ljóst, að slík laun leyfa ekki nema mjög nægjusamt líf. Enn augljósara verður þetta, þegar þess er gætt, að margir þeirra hafa ótal skuldir á baki sjer, sem fyrst og fremst stafa frá erfiðleikum stríðsáranna, og í öðru lagi frá námsárunum. Þegar menn athuga þetta, þá hlýtur öllum að verða það ljóst, að þeir tímar eru liðnir, sem það þótti vel við eigandi að skamma embættismennina, því að nú eru þeir ekki lengur í hópi þeirra, sem vel eru stæðir fjárhagslega; nú eru aðrir, sem betur eru settir og betur launaðir. Það er því óhætt að segja, að í híbýlum þeirra manna að minsta kosti, sem hafa 3–6 þús. kr. árslaun, er ekki óhófið, heldur býr fátæktin á mörgum þeim stöðum. Þess vegna hjelt jeg, að hv. 2. þm. Reykv. myndi finna samúð með þessum mönnum, því að það er sama baráttan, sem þeir verða að berjast, og margir í hópi hans stuðningsmanna. Það eru ekki margir embættismenn, sem hafa 10– 12 þús. króna laun. Langflestir hafa mun lægri laun. Og ef þingið svarar nú bænum þessara manna um launabætur með þungum tekjuskatti, þá býst jeg við, að almenningur líti svo á, að í því svari liggi alt of mikill kuldi til embættismanna þjóðarinnar.

Í landi eins og okkar verður það altaf spurningin, hvaða lausn verði heppilegust á launamálinu. Jeg hefi reynt sem ráðherra að fækka embættum; kom með mjög miklar sparnaðartillögur í þá átt, en Alþingi hefir ekki fallist á þær. Jeg er þeirrar trúar, að fyrir þjóðina sje það hollast, að embættismönnum hennar sje svo vel launað, að þeir geti gefið sig óskiftir við starfinu. En jeg hefi sjeð alt of margar sorglegar afleiðingar þess, að embættismenn þjóðarinnar hafa orðið að búa við sultarlaun; jeg þekki menn, sem aldrei hafa notið sín í starfi sínu vegna nagandi fjárhagsörðugleika, og því aldrei orðið að því gagni, sem hefði þó mátt vænta af þeim í starf- inu, ef þeir hefðu verið betur launaðir. Þetta er sannleiki, sem alstaðar er viðurkendur af þeim, sem til þekkja. Þess vegna vona jeg, þegar hv. sessunautur minn (HjV) hefir glöggvað sig á þessari mynd, sem jeg hefi dregið hjer upp og sýnir, hvaða kjör embættismenn þjóðarinnar hafi við að búa, að hann tali um þá næst með minni kulda en hann hefir gert.

Hann sagði — og mjer fanst liggja þykkja í röddinni —, að jeg kæmi fram sem riddari fyrir starfsmenn hins opinbera. Satt að segja veit jeg ekki, hvað hann hefir meint með þessu. Ef hann heldur, að jeg hafi gert það af stjórnmálalegum hagsmunum, þá skjátlast honum. sem stjórnmálamaður á jeg embættismannastjett landsins ekkert að þakka. Jeg veit ekki betur en sú stjett hafi jafnan verið mjer andstæð í stjórnmálum og vænti heldur ekki neins stuðnings af henni framvegis. Það er aðeins sanngirniskrafa þessara manna, sem hefir valdið því, að jeg hefi ekki viljað mæta henni með þeim kulda, sem felst í því að hækka tekjuskattinn og lækka með því launin. Enda veit jeg, að það kemur til með að hefna sín, ef stj. og þing heldur áfram að taka alt of lítið tillit til óska þessara manna. Þessir menn eru fyrir löngu hættir að vera „privilegeruð“ stjett. Það mætti miklu fremur segja um mikinn þorra hennar, að fátæktin væri hennar „privilegium“.

Jeg veit, að það er satt, að ef Alþingi samþykkir nú þessa hækkun á tekjuskattinum, þá kemur það harðast niður á þessum mönnum og sýnir alt of mikinn kulda í þeirra garð.