29.03.1928
Neðri deild: 60. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 3897 í B-deild Alþingistíðinda. (3529)

116. mál, tekju- og eignarskattur

Frsm. meiri hl. (Hjeðinn Valdimarsson):

Jeg ætla að svara þessu hjali hv. 1. þm. Reykv. með örfáum orðum, svo að hann geti svarað þeim með þeirri athugasemd, sem hann á ráð á að gera. (MJ: Við 4. umr.?). Hæstv. forseti hefír verið svo frjálslyndur að leyfa mönnum að gera eina aths., og vona jeg, að hann veiti leyfi sitt einnig nú.

Það virðist hafa komið óþægilega við þá hv. 1. þm. Reykv. og hv. þm. Dal., að farið var að athuga nánar þau plögg, sem þeir hafa mest notað til að færa sönnur á mál sitt, brjefið frá form. starfsmannasambands ríkisins. Nú gekk hin síðari ræða hv. 1. þm. Reykv. út á það að sanna, að í raun og veru væri meint alt annað í þessu brjefi, sem fyrir liggur og sem undirritað er af prófessor Ág. H. Bjarnason. Jeg verð að segja, að það er undarlegt, ef á að skilja það brjef á annan veg en það hljóðar, og þá fer að verða spurning, hvernig yfirleitt eigi að skilja það, er menn bæru fram einmitt það, sem þeir meintu ekki. Annars er það einkennilegt, að þegar embættismenn tala um launakjör sín, þá vitna þeir í launalögin, en ef minst er á tekjuskatt, þá er bætt ofan á launalögin öllum þeim aukatekjum, sem þeir kunna að hafa.

Hv. þm. sagði, að ekki væri óvanalegt, að þessir starfsmenn ríkisins greiddu 200–300 kr. í tekjuskatt, en ef litið er á skattstigann og ef menn þessir eiga 2–3 börn, þá eiga þeir að svara þeirri upphæð af 10500 til 12500 kr. árstekjum. Eru tekjur þeirra þá svo miklar, hvort sem það eru embættistekjur eða lögákveðnar tekjur, að viðbættum aukatekjum, að engin ástæða er til þess að vorkenna þeim það að greiða þennan viðauka á tekjuskatti, sem hjer er farið fram á.

Það er ekki bæði hægt að skírskota til þess, hve þessir embættismenn hafa lág laun samkv. launalögunum, og svo hins, hve ákaflega háan tekjuskatt þeir greiði, því að hann er reiknaður af hinum lögákveðnu launum og þeim aukatekjum, er þeir hafa. Það er ekki nóg með það, að þessi stjett manna fari fram á ríflega uppbót á launum sínum, heldur gerir hún einnig kröfu til þess að verða nær því skattfrjáls, eða að minsta kosti undanþegin persónuskatti.

Jeg verð að segja, að það er furðuleg krafa af þessari stjett að búast við því, að við sjeum svo langt á eftir tímanum og við lítum svo upp til hennar, að við veitum henni undanþágu frá þeim sköttum, sem aðrar stjettir verða að greiða.

Jeg vona, að meiri hl. hv. deildar líti svo á, að tekjuskátturinn eigi að ganga jafnt yfir allar stjettir, er hann nær til, sje almennur, sem er fyrsta regla allra góðra skatta. Þá reiknaði hv. 1. þm. Reykv., að Reykjavík greiddi 2/3 af tekjuskattinum, og geri jeg ráð fyrir, að það muni vera rjett.

Ennfremur giskaði hann á, að Reykvíkingar greiddu aðeins 1/3 af kaffi- og sykurtolli. Það þykir mjer ólíklegt, og þykir mjer nær sanni, að það muni vera 1/2. Jeg get ekki fallist á það, að kaffi- og sykurneytsla sje jafnmika í sveitum og kaupstöðum, þar sem mjólk er mikið notuð til sveita með öllu þurmeti í stað þessarar vöru.

En ef það er rjett, sem jeg hygg vera, að Reykjavík greiði helming kaffi- og sykurtolls, er ekki mikill munur á fjárhæðunum. Þó er það ekki aðalatriðið, hve mikill hluti er greiddur úr þessu kjördæmi, heldur hitt, af hverjum hann er greiddur og hvort það eru hinir ríku eða fátæku, sem skattinn og tollinn greiða.

Hv. 1. þm. Reykv. er svo sem ekki að verja hina fátæku kjósendur sína, heldur þá, sem ríkir eru, því að við nákvæmari sundurliðun á tekjuskatti í Reykjavík mundi hv. þm. sjá, að meiri hluti alls skattsins er goldinn af þeim, sem hafa yfir 10 þús. kr. tekjur. Það eru þessir menn, sem hann er að verja, og fyrir ríkustu mennina er hann að vinna, en jeg sje enga ástæðu til að hlífa þeim mönnum við tekjuskatti, sem nógar tekjur hafa, hvort sem þeir eru búsettir í Reykjavík eða annarsstaðar.

Jeg hjelt satt að segja, að hv. þm. væri svo ljóst, hver munur væri á árstekjum og skatttekjum, að hann gæti ekki vilst á þeim. Jeg veit, að hv. þm. færir árstekjur sínar mjög gaumgæfilega á hverju ári, en skatttekjurnar koma fyrst til greina eftir að skatt- stjórn hefir dregið frá lögmætan frádrátt. Alveg sama máli er að gegna um atvinnurekendur. Hygg jeg því, að öllum muni ljóst, að hjer er átt við 4000 kr. árstekjur. Jeg hefi enga trú á því, að tekjuframtal verði lakara, þótt þessi hækkun á tekjuskatti verði samþ., og jeg geri mjer að minsta kosti góðar vonir um það, að hæstv. stjórn gangi betur eftir því, að tekjuframtal manna verði betur af hendi leyst, en fráfarandi stjórn hefir gert.

Vona jeg, að önnur eins hneykslismál og komið hafa upp í sambandi við skattana komi ekki eftir að hæstv. stjórn hefir starfað að þessum málum.

Hv. þm. lauk svo máli sínu, að hann vildi vinna að því að koma „kapitalisma“ og „kapitalistum“ inn í landið. Hv. þm. Ísaf. skýrði frá skoðun okkar jafnaðarmanna á því atriði, en jeg vil benda hv. 1. þm. Reykv. á það, að vilji hann koma þeim upp með ívilnun á skattgreiðslum, þá getur hann það ekki nema með því að láta það koma niður á öðrum, það er að segja, alþýðunni. En á móti því berjumst við jafnaðarmenn og alþýðan öll.