03.04.1928
Efri deild: 64. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 3905 í B-deild Alþingistíðinda. (3536)

116. mál, tekju- og eignarskattur

Frsm. minni hl. (Björn Kristjánsson):

Það mun vera æðitilgangslítið að fara mörgum orðum um þetta mál. Forlög þess munu vera ákveðin fyrir- fram, eins og í flestum öðrum málum. Það ætti þó ekki að vera ámælisvert, þótt mismunandi skoðanir komi fram um þetta mál, sem grípur svo djarflega inn í hag atvinnuveganna við sjóinn og hag embættis- og sýslunarmanna landsins. Bændur snertir lagabreyting þessi ekki, eða sáralítið.

Minni hl. telur óráðlegt að halda stöðugt áfram að hækka eignar- og tekjuskattinn, sem er þegar alt of hár í fátæku og veltufjárlausu landi eins og þetta land er. Það, sem atvinnuvegir okkar hafa einkum að berjast við, er veltufjárleysið. Lánsstofnanirnar freistast því til — og það oft meira en holt er fyrir þjóðfjelagið — að lána atvinnufyrirtækjunum fje til rekstrar þeirra, án nauðsynlegrar tryggingar. Ef haldið er áfram að íþyngja atvinnuvegunum með háum beinum sköttum, þá þýðir það, að þau eignast lítið og komast seint eða aldrei úr kútnum. Og alt gengur þetta út yfir aðallánstofnanirnar, lífæð þjóðarinnar, sem halda áfram að vera í dauðateygjunum eins og þær hafa verið nú síðustu 7—8 árin. Að þessu er stefnt með frv. þessu.

Það var stefnt að því hjer áður, meðan þekking á fjármálum fjekk að ráða og njóta sín á Alþingi og á meðan menn litu á ríkissjóð sem sjóð, sem ekkert mætti granda, að taka tekjurnar þar, sem þær voru tryggastar fyrir ríkissjóðinn. Þá datt engum í hug að braska með ríkissjóðinn, að láta hann „spekúlera“ eins og spákaupmenn. Þess vegna tóku menn skattana í landssjóð með tollum, en að litlu leyti með beinum skatti af atvinnu. Samkvæmt skattalögunum 1877 gat at- vinnutekjuskatturinn komist hæst upp í 4%. Nú vita menn, hversu hár hann er. Menn treystu því þá, að svo lágur beinn skattur kæmi undandráttarlaust í landssjóð, af því að hann var ekki hærri en þetta.

Nú er það hvorttveggja, að atvinnutekjuskatturinn er mjög óáreiðanlegur tekjustofn, því að þær tekjur fara eftir árferði, og svo er allmikil hætta á undandrætti á greiðslu skattsins, þegar hann er orðinn svo hár, að menn viðurkenna ekki rjettmæti hans, og þegar hann bætist þá líka ofan á sveitarútsvör, sem eru miklu hærri en svo, að þau standi í rjettu hlutfalli við árstekjur manna.

Jeg vil benda á, að atvinnutekjur voru undanfarin ár sem hjer segir: 1922 1224000, 1923 781000, 1924 841000, 1925 2108000 og 1926 1071000 krónur.

Menn sjá af þessu, að miklu getur munað frá ári til árs. Embættis- og sýslunarmenn landsins verða hjer langharðast úti, þeir sem meiri tekjur hafa en 4000 kr.

Þegar launalögin voru sett síðast, gengu menn út frá því, að tekjuskatturinn, eins og hann þá var, mundi eiga að vera aðeins bráðabirgðaráðstöfun. Að minsta kosti bjuggust menn þá ekki við, að sá skattur mundi hækka. Skattahækkun þessi verkar því sem beinn frádráttur á lögmæltum launum þeirra. Og hver veit nema þinginu þóknist næsta ár að hækka skatt þennan upp í 50% og árið þar eftir upp í 75%, o. s. frv., án þess að hækka laun embættismanna að sama skapi. Jeg treysti því ekki, þó að hv. frsm. meiri hl. (IP) bendi á nýja milliþinganefnd, að hún bæti neitt úr þessu. Jeg sje ekki betur en að skattastefna þessi miði að því að gera þá menn, sem helst bera þjóðfjelagið uppi, að öreigum og að hnekkja því, að aðallánsstofnanir okkar geti einhverntíma komist á rjettan kjöl. Alt á að jafna við jörðu, sem er undanfari hins eftirþráða kommúnistaríkis. Alt stefnir að því að gera bjargálnamennina að öreigum — ríkismenn eigum við enga, — í staðinn fyrir að draga öreigana nær bjargálnamönnum, að hefja þá upp um leið og bjargálnamönnum fjölgar.

Samhjálpin virðist hollari stefna, þar sem þeir efnaðri hjálpa þeim minni máttar, ef eitthvert óhapp ber að höndum. Sú stefna er að ryðja sjer til rúms hjer á landi og ætti að sigra.

Jeg hefi rekið mig á hana hjer og þar á ferðum mínum um landið. Í Lóni, til dæmis, má það heita föst regla, að ef fátækur maður missir kú, eða verður fyrir öðrum óhöppum, þá skjóta efnaðri mennirnir saman til að bæta honum skaðann. Sama má segja um til dæmis Keflavík syðra. Þar eru efnamennirnir búnir að taka upp sama siðinn. Ef útgerðarmaður þar verður fyrir sjerstökum óhöppum, þá skjóta efnamennirnir saman til að hjálpa honum. Hið sama má segja um Reykjavík. Beri óhapp að höndum, eru menn, sem það geta, boðnir og búnir til að bæta úr því, og það jafnvel þó óhappið snerti aðeins utanbæjarmenn. Fjöldi er hjer af fjelögum, sem vinna að því, að þeir, sem geta, beri annara byrðar, sem eru ver settir en þeir. Þessi stefna eykur því drengskap manna, göfuglyndi og kærleikann til annara. Þveröfug áhrif hefir niðurrifsstefnan, sem alt vill jafna við jörðu og sem notar öll meðul til þess. Hún skapar aðeins úlfúð og hatur milli manna, og er því ekki þess að vænta, að neitt göfugt eða holt spretti upp af því sæði. Og þetta frv. er einn liðurinn í niðurrifsstefnu þessa þings.

Þetta voru þá almennar athugasemdir út af þeirri stefnu, sem ríkt hefir á þessu þingi.

Hv. frsm. meiri hl. talaði um, að tvær stefnur væru uppi í skattamálum, að ná tekjunum sem mest með beinum sköttum annarsvegar og hinsvegar með tollum. Hann taldi, að hjer væru þurftarlaun undanskilin, 4000 krónur. Jeg verð hinsvegar að álíta, að þarfir margra heimila sjeu miklu meiri en 4000 kr.

Þá hjelt hv. frsm. meiri hl. því ennfremur fram, að fjárl. yrðu ekki afgreidd án tekjuhalla nema þetta frv. yrði samþ. Það er nú búið að margreikna það og sanna, að þessara tekna þurfi ekki við til þess að jafna fjárl., og jafnvel þótt smávegis tekjuhalli yrði á þeim, þá hefir það oft komið fyrir og ekki reynst stórhættulegt. Það mun mjög sjaldan hafa verið svo, að enginn tekjuhalli væri á fjárl., og stundum hefir hann verið mjög mikill, upp undir hálfa miljón króna. Jeg hefi heldur enga trú á því, þótt sett væri milliþinganefnd í skattamálin, að hún finni grundvöll, sem ekki verði breytt. Meðan þessi reikula ráðleysisstefna ríkir, sem nú er uppi, getur enginn fastur grundvöllur skapast. Það er því alls ekki hægt að rjettlæta þetta hringl með því að skipa milliþinganefnd í þessi mál, því að útkoman mundi verða hin sama.

Sá meiri hluti, sem nú ber ábyrgð á gerðum þingsins, mundi einnig þar hafa völdin.