03.04.1928
Efri deild: 64. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 3910 í B-deild Alþingistíðinda. (3537)

116. mál, tekju- og eignarskattur

Frsm. meiri hl. (Ingvar Pálmason):

1 Jeg hefi í rauninni ekki miklu að svara. Mikill hluti af ræðu hv. frsm. minni hl. gekk út á að minna á hina gömlu og góðu tíma, þegar skattar voru lágir og umsetning ríkissjóðs lítil. En tímarnir breytast og jeg held, að ekki væri til neins, þótt við vildum taka höndum saman um að taka upp aftur hið gamla og góða ástand. Slíkt er ekki annað en að berja höfðinu við steininn.

Hv. frsm. minni hl. taldi almenna dýrtíð undangengna og samfara henni þungar álögur. Ennfremur talaði hann um, að hætta væri á undandrætti á greiðslu, vegna þess að menn ekki viðurkendu rjettmæti skattanna. Jeg verð að segja það, að jeg hefi aldrei komist upp á það að sleppa við greiðslu á lögmætum sköttum og skyldum, og mjer er ekki kunnugt um dæmi þess. Það má vel vera, að hv. minni hl. þekki það betur, en jeg verð að telja slíkt sprottið af alt öðrum hvötum en hv. þm. (BK) vill tileinka efnaðri mönnunum í landinu.

Hv. þm. trúði ekki á árangur af starfi milliþinganefndar, vegna þess að sú aðferð, sem hún benti á, mundi ekki standa stundinni lengur. Jeg byggi hinsvegar mikið á því, að þetta verði rannsakað til hlítar, og tel það rjetta aðferð til að finna heppilega lausn á þessu máli, og það tel jeg mjög mikilsvert, ef það tækist. Það má vel vera, að okkur takist ekki að finna öruggan grundvöll, en jeg byggi von mína á því. Hv. þm. sagði, að þetta frv. mundi hnekkja lánsstofnunum landsins. Jeg veit nú ekki vel, hvað hann á við með þessu, en líklega það, að bankarnir eigi fje hjá þeim, sem skatturinn lendir þyngst á. Ef hann hinsvegar óttast, að sparifjárinnstæður manna muni minka, þá held jeg, að þær sjeu yfirleitt ekki mest frá þeim, sem hafa yfir 4000 króna tekjur, heldur hinum, sem minni tekjur hafa, enda eru þeir fleiri. (BK: Jeg talaði ekki um sparifje). Nei, jeg er aðeins að velta fyrir mjer, hvað hv. þm. á við.

Þá talaði hann um, að þessar álögur dragi úr viðleitni efnamannanna til að styðja hina. Hann minti á örlæti efnamannanna, svo sem í Lóni í Austur- Skaftafellssýslu og í Keflavík syðra. Já, þessa starfsemi þekkjum við allir um alt land og viðurkennum hana, en hún liggur alveg utan við það mál, sem hjer er til umr., enda er það svo, að þó að oft sje hlaupið undir bagga með bágstöddum mönnum, þá koma menn ekki og hlaupa undir bagga með ríkissjóði, þó að hann sje í kröggum.

Þá sagði hv. frsm. minni hl., að margbúið væri að reikna út, að ekki væri þörf á þeim tekjum, sem þessu frv. væri ætlað að veita, til þess að jafna fjárl. Jeg get sagt nákvæmlega það gagnstæða, að það hefir margsinnis verið sýnt fram á, að ef ekki fást á næsta ári meiri tekjur, þá er óumflýjanlegur halli á ríkisbúskapnum. En munurinn er sá, að hv. þm. telur það ekki neitt athugavert, þó að einhver tekjuhalli verði á fjárl. Jeg verð nú að segja, að mjer kemur einkennilega fyrir að heyra þessa skoðun hv. þm. Hann mun alment álitinn varfærinn maður í fjármálum og mig minnir, að hann hafi hingað til ekki talið það heppilegt að afgreiða fjárl. með tekjuhalla. Það mun heldur ekki vera viðurkent af þjóðinni sem heppileg fjármálastefna. Auðvitað geta ófyrirsjáanleg höpp og hvalreki bætt úr því að nokkru, en slíku geta menn ekki reiknað með.

Jeg sje ekki ástæðu til að fara út í hugleiðingar hv. þm. um stefnur í skattamálum, en jeg gæti búist við, að eftir að milliþinganefnd væri búin að rannsaka þetta yrði hægra að rökræða það mál. Hitt getum við deilt um út í það óendanlega, hvort beinir eða óbeinir skattar sjeu heppilegir eða óheppilegir, og ef ekki má hlíta úrskurði þeirra, sem starfa að rannsókn málsins milli þinga, eða vænta þess, að nýtilegar till. komi fram frá þeim, þá er þó enn síður mikils að vænta af deilum okkar tveggja um það hjer í dag.

(*Ræðuhandr. óyfirlesið.)