10.04.1928
Efri deild: 66. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 3914 í B-deild Alþingistíðinda. (3540)

116. mál, tekju- og eignarskattur

Jón Þorláksson:

Jeg vil aðeins láta örfá ummæli fylgja þessu frv., þegar hv. deild nú afgreiðir það, sem gera má ráð fyrir.

Það er aðeins tvent, sem jeg vil segja af því marga, sem annars mætti taka fram til andmæla þessari lagasetningu. Hið fyrra, sem jeg vil taka fram, er það, að það er afarvarhugaverð stefna í skattamálum, sem þetta þing hefir tekið upp, þar sem það annarsvegar skerðir tekjur ríkissjóðs með því að lækka tolla á munaðarvörum, en hinsvegar fer fram á að bæta upp þann halla, og þó nokkuð meira, með því að hækka toll á afarnauðsynlegum vörum og með því að hækka tekju- og eignarskattinn. Þetta síðara, sem hjer liggur fyrir, tel jeg varasamt, fyrst og fremst af þeirri ástæðu, að eins og hún er fram borin í þessu frv., er ráðist á bann hluta af eignum og arði þjóðarinnar og þjóðarheildarinnar, sem hún síst má án vera. Það er ráðist einkum á þann hluta af þjóðararðinum, sem ætla má, að ekki mundi verða eyðslufje. En þessi arður af starfsemi borgaranna í þjóðfjelaginu er það fyrst og fremst, sem allur vöxtur og framfarir atvinnuveganna byggjast á, og í öðru lagi allar atvinnuvonir fyrir þá nýju borgara, sem vegna fólksfjölgunarinnar bætast í hópinn árlega og þurfa að fá atvinnutæki, hús og annað sem keypt verður fyrir sparifje þjóðarinnar, til þess að geta komist áfram.

Jeg álít að þetta sje afarvarhugaverð braut að fara inn á, beinlínis að höggva skarð í fjársöfnun þjóðarinnar, með því að þyngja beinu skattana. En hjer við vil jeg bæta því að eins og þetta frv. kemur fyrir sjónir og eins og afstaða þess verður til skattalöggjafarinnar yfir höfuð, þá mun tæplega verða litið öðruvísi á en að breytingin sje ranglát. Það hafa einu sinni verið sett lög um það, hvernig stighækkun tekju- og eignarskatts skuli vera, smáhækkandi skattstigi eftir því sem meira er til að gjalda af, hvort heldur eru eignir eða tekjur. Þegar einu sinni er búið að ákveða þetta, þá er það nú sú niðurröðun, sem verður að skoða sem rjettláta, eins og það nú er skoðað rjettlæti, að allir gjaldi jafnháan toll af sömu vörutegundum. Við þessu er nú haggað, með því að taka nokkurn hluta gjaldenda út úr hópnum og segja við þá: Þið skuluð greiða hærra en ákveðið er eftir gildandi skattstiga, en hinir skulu sleppa. Þetta er alveg eins og ef skipað væri í tolllögum, að sumar stjettir manna skyldu borga hærri toll af einhverjum vörutegundum heldur en öðrum væri sagt að gera.

Fleira mun jeg ekki segja um þetta frv. að sinni, en hvor af þessum ástæðum er næg fyrir mig til að greiða atkv. á móti frv.