16.02.1928
Efri deild: 24. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 3918 í B-deild Alþingistíðinda. (3547)

77. mál, einkasala á síld

Frsm. meiri hl. (Ingvar Pálmason):

Eins og sjá má af þskj. þeim, sem fyrir frv. Meiri hl. leggur til, að frv. verði samþykt með allverulegum breytingum. Brtt. meiri hl. við það er að finna á þskj. 154, og eru í sjö liðum.

Fyrsta brtt. er við 2. gr. og er þess efnis að bæta við því ákvæði, sem í þskj. stendur. Er það til þess að tryggja það, að ætíð sje víst, að svo miklu leyti sem hægt er, að útnefning formanns hafi að baki sjer meiri hluta.

2. brtt. er við 4. gr., og eru þar gerð skýrari ákvæði greinarinnar um verkefni eða störf stjórnar fyrirtækisins. Við athugun virtist nefndinni ástæða til að gera þessi ákvæði skýrari, og höfðu borist um það tillögur að norðan frá útgerðarmönnum, sem mikið hafa starfað að undirbúningi málsins.

3. brtt. er aðeins skýring. Þar er tekið fram, að ef útflutningsnefnd veðsetur óselda síld, þá megi ekki hvíla á henni nein önnur veðbönd.

4. brtt., við 7. gr., er efnismest. Greinin er algerlega orðuð um, og er þar aðallega farið eftir tillögum útgerðarmanna norðanlands.

5. brtt., við 8. gr., gerir skýrari ákvæðin um varasjóð og markaðsleitarsjóð. Hún þarf annars engrar útskýringar við.

6. brtt. er tímabreyting á reikningsári einkasölunnar, sem nefndinni þótti rjett að gera.

7. brtt. er nauðsynlegt bráðabirgðaákvæði. Ef frv. verður að lögum, er nauðsynlegur nokkru lengri frestur að þessu sinni fyrir útgerðarmenn að ákvarða sig.

Að öðru leyti sýnist mjer ekki á- stæða til að fara langt út í málið á þessu stigi. Jeg geri ráð fyrir, að hv. minni hl. geri grein fyrir sinni afstöðu, og gefst þá sennilega tækifæri og tilefni að ræða það nánar. Jeg vil aðeins geta þess að endingu, að fyrir nefndinni lágu skýr gögn um það, að að baki frv. stendur meginþorri síldarútvegsmanna við Eyjafjörð og Siglufjörð. Jeg hugsa, að hv. meðflm. og meðnefndarmaður minn, hv. þm. Ak., muni skýra málið nánar, en hann hefir til þess miklu betri þekkingu.