16.02.1928
Efri deild: 24. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 3921 í B-deild Alþingistíðinda. (3549)

77. mál, einkasala á síld

Erlingur Friðjónsson:

Ekki er nema eðlilegt, að litið sje í stuttum dráttum yfir aðalástæðurnar til þess, að meiri og minni, hluti sjútvn. eru sammála um höfuðatriði þessa máls, það, að koma þurfi skipulagi á síldarsöluna. Jeg bið háttv. deild vel að athuga að hv. minni hl. fer ekki fram á, að látið sje haldast það ástand, sem nú er í síldarútveginum, heldur vill hann, að Alþingi haldi sjer við þær samþyktir, er það hefir þegar gert, er það samþykti heimildina til stofnunar síldarsamlags 1926. Hvernig stendur nú á því, að hv. minni hl., sem ekki getur fylgt þeim till., sem hjer eru á ferð, getur verið fylgjandi lögunum frá 1926? Þau hafa þó vissulega hinn sama tilgang, að skipulagsbinda síldarútveginn. Ástæðan mun vera sú, að öllum almenningi er orðið kunnugt, að einhverra ráða verður að leita til að bæta ástandið í þessum atvinnuvegi. En nú er svo komið, að útlendingar ráða yfir söltun og útflutningi síldar að tveim þriðju hlutum. Af 240 þús. tunnum, sem verkaðar voru til útflutnings á síðasta ári, höfðu útlendingar full ráð yfir a. m. k. 165 þús. tunnum. Fyrir þessu mega teljast óyggjandi sannanir.

Útlendingar, sem náð hafa tökum á þessum atvinnuvegi, hafa gert það á þann hátt, að þeir senda hingað til lands umboðsmenn sína, skrifstofuþjóna eða aðra, og þeir kaupa tíðum Íslendinga til að reka erindi þeirra hjer á landi. Það eru þessir menn, sem almenningur hefir leyft sjer að kalla leppa. Það skiftir ekki máli, hvort það eru skrifstofuþjónarnir sjálfir eða leigumenn þeirra, sem um er rætt, en aðalatriðið er það, að þetta eru oftast menn, sem ekkert er af að hafa, ef til einhverrar ábyrgðar kemur. Þess eru alls ekki fá dæmi, að þessir menn hafa orðið til að hrekkja Íslendinga í viðskiftum, bæði þá, er unnið hafa hjá þeim, og hina, er selt hafa þeim síldina nýja. Einnig hafa þeir stundum skotið sjer undan að greiða hjer lögmælt gjöld. Þeir, sem í raun og veru hafa haginn af þessum viðskiftum, skjóta ábyrgðinni yfir á aðra, sem ekkert er af að hafa og ekki er hægt að taka þeim tökum, sem þörf er á til þess að hlutur Íslendinga verði rjettur í viðskiftunum við þá. Um þessa hlið málsins þarf ekki að fara fleiri orðum, því að allir eru orðnir sammála um, að þetta þarf lagfæringar við.

Þá kemur til álita, hvor leiðin er betri, sú, sem í frv. er talað um, eða hin, sem samþykt var á Alþingi 1926. Af því að ástandið er svona, að 2/3 af útflutningi síldarinnar eru í útlendinga höndum, þá er sú leið, að láta útflytjendurna kjósa stjórnina, áreiðlega ekki besta ráðið til að losna við leppmenskuna. Þvert á móti eru leppunum og útlendingunum með því fengin tökin á atvinnuveginum. Meiri hl. leggur mikla áherslu á, að þetta frv. girðir fyrir það með stjórnarfyrirkomulagi einkasölunnar, að þetta þurfi að óttast. — Að sönnu er gert ráð fyrir því í lögunum frá 1926, að landsstjórnin skipi fyrstu stjórn síldarsamlagsins til fjögurra ára, þó svo, að eftir 2 ár gangi einn þessara manna úr stjórninni og eftir 3 ár annar. Síldarseljendur eiga að kjósa aðra í sæti þessara manna, og geta þannig náð meiri hluta í stjórn samlagsins eftir 3 ár. Og með því ástandi, sem nú er, sýnist enginn vafi leika á, að þá hafi hinir útlendu strámenn náð tökunum á stjórn samlagsins, þar sem þeir hafa í sínum höndum hluta af síldarútflutningnum og kosningunni er þannig hagað samkv. samlagslögunum, að atkv. eru miðuð við útflutta tunnutölu. Þess vegna var háski að lögunum um síldarsamlagið og gæfa, að þau komu ekki til framkvæmda. Enda mun það eingöngu stafa af þessari hættu, að þeir, sem kunnugastir eru málinu, hafa eindregið mótmælt síldarsamlaginu. Þannig bárust þinginu 1926 þegar í stað mótmæli frá Útgerðarmannafjelagi Akureyrar og Verkalýðssambandi Norðurlands, þegar samlagslögin voru á döfinni. Á mjög fjölmennum þingmálafundi á Akureyri 2. jan. síðastl. var ennfremur samþykt áskorun til Alþingis um að samþykkja lög um einkasölu á síld. Þar talaði ekki nokkur maður í þá átt, að vert væri að nota lögin um síldarsamlag, eða láta þau komast til framkvæmda. Þó var Björn Líndal, sem á sínum tíma var ötulasti fylgismaður laganna, staddur á fundinum; en hann mintist ekki á þessi lög einu orði, hvorki á þessum fundi nje nokkrum öðrum á Akureyri, jafnvel ekki á leiðarþingi sínu 1926. Svona er aðstaðan gagnvart þessu máli hjá þeim, sem best þekkja til hættunnar, sem yfir vofir, ef samlagslögin kæmu til framkvæmda.

Hv. minni hl. taldi ófært, að svo fámennur fjelagsskapur sem Útgerðarmannafjelag Akureyrar kysi fulltrúa í stjórn einkasölunnar. Jeg vil leyfa mjer að leiðrjetta það, sem hann sagði, að ekki væru nema 5 meðlimir í fjelaginu. Þótt fjelagið sje ekki fjölment, þá hygg jeg, að þar sjeu þó a. m. k. 15 menn.

Í annan stað talaði hv. þm. um, að það væri óheilbrigt að gera einkasöluna pólitíska, með því að láta sameinað Alþingi kjósa stjórnina að nokkru leyti. En eftir síldarsamlagslögunum átti ríkisstjórnin að skipa alla stjórn þess fyrstu árin. Sýnist mjer það ekki síður pólitískt. — Jeg sje, að hv. 3. landsk. hristir höfuðið og setur upp gleraugun. Vona jeg, að hann færi bráðlega rök fyrir ástæðunum til þessara umbrota, sem urðu í hugskoti þingmannsins af orðum mínum.

Jeg man ekki eftir, að háttv. þm. Snæf. fyndi neitt að því, þótt Verkalýðssambandi Norðurlands væri ætlað að kjósa fulltrúa í stjórn einkasölunnar. Skil jeg það sem viðurkenningu frá hans hálfu á þeim fjölmenna fjelagsskap.

En það er ekki aðalatriðið, hvernig stjórn einkasölunnar er skipuð. Aðalatriðið er það, að hún verði nógu sterk til þess að geta komið einhverju í framkvæmd. Í þessu frv. er gert ráð fyrir 5 manna stjórn og 2 framkvæmdarstjórum —, mjer fyndist þeir þó eins vel mættu vera 3, — þar sem í síldarsamlagslögunum var aðeins gert ráð fyrir 3 manna stjórn. Þess vegna er það ljóst, að stjórn einkasölunnar er gerð miklu sterkari í frv. heldur en í lögunum frá 1926.