16.02.1928
Efri deild: 24. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 3927 í B-deild Alþingistíðinda. (3552)

77. mál, einkasala á síld

Erlingur Friðjónsson:

Jeg skal ekki halda langa ræðu, aðeins svara með fáum orðum þeim andmælum gegn frv. þessu, sem fram hafa komið frá hv. frsm. minni hl. og hv. 3. landsk. Það, sem okkur frsm. minni hl. og mig deilir á um, er það, hvort heppilegra sje, að stjórn þessarar einkasölu sje skipuð af ríkisstjórninni eða af þinginu að einhverju leyti og öðrum aðiljum að nokkru leyti. Hv. frsm. minni hl. hallast að því, að heppilegra myndi verða að láta ríkisstjórnina skipa menn í stjórn þessa fyrirtækis, og í sama strenginn tók hv. 3. landsk. Hann taldi, að það myndi verða minni pólitískur blær á útnefningu þessara manna, ef ríkisstjórnin útnefndi þá. Þessum hv. þm. vil jeg segja það, að vel gæti verið, að jeg bæri það traust til ríkisstjórnarinnar, að jeg vildi frekar, að hún útnefndi þessa menn heldur en aðrir aðiljar, ef jeg væri sjálfur búinn að sitja í stjórn í nokkur ár. En nú er jeg ekki búinn að því, og þess vegna ber jeg líkt traust til beggja, ríkisstjórnarinnar og þingsins, og tel því ekki, að að nokkru leyti sje bætt um til hins betra, þó frv. sje breytt hvað þetta snertir.

Hitt er mjer ljóst og þar er jeg alveg samdóma hv. frsm. minni hl., að nauðsyn beri til þess, að stjórn þessa fyrirtækis sje skipuð öðrum en síldarseljendum. Þetta taldi hv. frsm. minni hl. að mætti laga, ef þörf yrði á, eftir 1–2 ár, enda þótt heimildarlögin frá 1926 yrðu notuð. En jeg vil spyrja: Hvað á að gera með að draga það? Hví þá ekki að breyta lögunum strax, svo bygt sje fyrir það í tíma, að síldarseljendurnir nái tökum á stjórn þessa fyrirtækis, fyrst háttv. frsm. minni hl. er sammála mjer um, að þeir megi ekki ná þeim?

Þá virtist hv. frsm. minni hl. líta svo á, að ólagið á síldarsölunni myndi læknast á tveimur árum, En jeg fyrir mitt leyti er ekki sannfærður um það. Jeg þykist sjá það í hendi minni, að útlendingar, sem selja síld, geti með síldarsamlagslögunum náð aftur tökum á síldarsölunni, gegnum leppa, eftir 2–3 ár, og bíði því rólegir þangað til. Það, sem því hv. frsm. minni hl. hefir haldið fram í þessu máli, verður ekki skilið á annan veg en að nauðsyn sje á að hafa stjórn þessa fyrirtækis svo sterka, að útlendingar sjeu alveg útilokaðir. En jeg sem kunnugur maður geri mjer enga von um, að það gangi svo greiðlega að losna við útlendingana, að við getum það með lausatökum á þessum málum, eins og jeg tel, að gert sje með lögunum frá 1926.