26.03.1928
Neðri deild: 57. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 3961 í B-deild Alþingistíðinda. (3570)

77. mál, einkasala á síld

Sigurður Eggerz:

Á þinginu 1926 voru, eins og kunnugt er og vísað hefir verið til, samþykt lög um síldarsölu. Jeg held, að þau hafi aðallega verið runnin frá mönnum, sem fengist höfðu við síld. Jeg greiddi atkv. gegn þessum lögum. Yfirleitt hefi jeg haft þá reglu, þegar rætt hefir verið um einokun, að krefjast þess af einokunarmönnunum, að þeir gerðu grein fyrir, af hverjum ástæðum þeir vikju frá grundvelli frjálsrar verslunar. Jeg vil vekja athygli á því, að svo framarlega, sem einokun er þrautaúrræðið, þegar í vandræði rekur, þá fer rökstuðningur hinnar frjálsu verslunar að verða lítill. Hví á þá ekki að taka upp einokun yfirleitt?

Jeg er ekki í tölu þeirra manna, sem trúa á einokun. Og jeg held, að orsökin til þess, að lögin frá 1926 eru enn ekki komin til framkvæmda, sje sú, að þeir, sem harðast börðust fyrir þeim, hafi ekki treyst sjer til að fylgja þeim fram.

En nú er á ferðinni einkasala í sinni hreinustu mynd. Jeg hefi reynt að hlýða á umræður hjer og gera mjer grein fyrir þeim ástæðum, sem fram eru færðar. Þetta er stórmál og snertir mjög atvinnu þjóðarinnar. Mjer skilst, að aðalástæðan fyrir einokuninni sje talin sú, að hún sje nauðsynleg til að hafa hemil á markaðinum. En ef litið er til ársins 1927, sem er meira en meðalsíldarár, skilst mjer eftir upplýsingum, að utan landhelgilínunnar hafi veiðst um 190 þús. tn., en innan hennar um 160 þús. tn., að Austfjarðasíldinni frádreginni. Það liggur í hlutarins eðli, að á þeim tímum, sem svo mikið veiðist utan línunnar, er það eitt nóg til þess að gera markaðinn of lítinn, og þá er ekki hægt að hjálpa með einkasölu. Jeg ætla, að nærri láti, að 240 þús. tn. sjeu hæfilegur útflutningur á þann markað, sem nú er. En gerum ráð fyrir, að útlendingar veiddu þessar 240 þús. tn. fyrir utan landhelgi. Þá kemur lokunin ekki að haldi til annars en tryggja þeim hátt verð fyrir síldina. Með einkasölu verður því ekki ráðið fram úr vandræðunum.

Eftir mínu viti er aðeins ein lausn þessa máls. Hún er sú, að útvega nógu mikinn markað. Það er eina ráðið, sem kemur að haldi. Jeg vil benda á það, að 1927 voru seldar frá Noregi um 100 þús. tn. og hjeðan 25 þús. tn. síldar til Rússlands. Hefði salan hjeðan orðið nokkru meiri og farið fyr fram, mundi það hafa hjálpað talsvert. Nú hefi jeg heyrt, að möguleikar sjeu til síldarsölu í Þýskalandi. Jeg þekki mann, sem selt hefir nokkuð þangað. En eigi að takast útflutningur til fleiri staða en áður, þarf sennilega að breyta verkun síldarinnar. Höfuðatriðið er m. ö. o. að gera hana að eftirsóttri vöru. Svo hefir verið farið að annarsstaðar, þar sem síldveiði er stunduð, t. d. í Englandi. Jeg fæ þess vegna ekki sjeð, að með einkasölu sje hægt að ráða fram úr stærsta atriði málsins, að tryggja síldarmarkaðinn. En ef þetta er rjett, sem jeg hjer hefi sagt, þá eru í raun og veru allar ástæður fyrir einkasölu fallnar burt. Og svo vill það oft verða, að þegar farið er að rannsaka einokunina niður í kjölinn, þá liggur þessi máttur, sem menn hafa trú á í einokuninni, aðeins í því, að menn hafa ekki athugað málið nógu rækilega. Þegar illa gengur hin frjálsa verslun, þá eru menn að leita að öllum mögulegum ráðum og halda, að alt vinnist betur með nýjum aðferðum. Svipað dæmi má finna í stjórnmálunum. Þegar illa gengur í löndunum, kenna menn þingræðinu um eitt og annað, sem illa fer. En allir vita, hversu sorglega hefir reynst að yfirgefa þingræðisgrundvöllinn og byggja á einræðisgrundvelli. Í raun og veru er þetta alveg það sama. Hjer á að fara að yfirgefa hinn frjálsa grundvöll og leggja einræðisgrundvöll, af því að menn, sem hafa haft verslunina í sínum höndum, hafa ekki verið eins duglegir og þeir áttu að vera.

Jeg geri ráð fyrir, að við nánari yfirvegun muni mörgum virðast það alleinkennilegt, að Alþingi Íslendinga skuli eiga að fara að útnefna þá menn, sem eiga að standa fyrir síldarsölu. Jeg verð að spyrja: Hvaða skilyrði hefir þessi göfuga samkoma til þess að fara að takast slík störf á hendur? Aðeins á þessari ráðstöfun sjest það, að verið er að leggja inn á undarlega braut, þegar þeir menn eiga að útnefna forstöðumenn síldareinkasölunnar, sem hafa mjög litla þekkingu á því, hverjir eru best fallnir til þess starfa.

Þá er eitt atriði, sem óhjákvæmilegt er að minnast á í þessu sambandi, — hvernig hugsað er, að þessi síldareinkasala verði rekin. Mjer skilst það hljóti að fara svo, að hún verði rekin á ábyrgð ríkissjóðs. Jeg geri ráð fyrir, að það verði óhjákvæmilegt, ef einkasalan kemst á fót, að þeir menn, sem framleiða síldina, verði að fá strax peninga. Hvernig eiga þessir menn að útvega sjer tunnur eða salt? Til þess þurfa þeir auðvitað fje, — og hver leggur það til? Auðvitað verður einkasalan að gera það, — en hvar fær hún fjeð? Vitanlega hjá ríkissjóði. Með öðrum orðum: Það er búið svo laglega að draga sjálfan ríkissjóðinn inn í starf, sem viðurkent er að vera hið áhættusamasta á voru landi.

Jeg skal ekki segja, hvað mikið fje muni þurfa til þess að kaupa tunnur og salt fyrir þá framleiðslu, sem svaraði til þess, sem þætti hæfilegt fyrir markaðinn; en það hefir sagt mjer maður, sem er mjög vel inni í þessum málum, að það þyrfti frá 1½ miljón kr. upp í 2 milj. Það liggur nú í hlutarins eðli, að það er ekki meiningin með síldareinkasölunni að koma í veg fyrir starfsemi þeirra manna, sem lifað hafa af þessari framleiðslu. En hinsvegar er það, að ef ríkissjóður á að sjá mönnunum bæði fyrir tunnum og salti, þá munu sumir kalla, að hjer sje engin áhætta á ferð, vegna þess að þessi framkvæmdanefnd selur síldina og getur tekið í sínar vörslur það fje, sem þarf fyrir tunnur og salt. En jeg spyr:

Hvernig fer í ári eins og seinasta ári? Jeg hefi fyrir satt, að alment tap hafi verið á saltaðri síld. Jeg efast um, að það mundi verða nægilegt fje til þess að borga ríkissjóði og einkasölu út það, sem búið er að leggja út fyrir salti og tunnum.

Mjer sýnist það að öllu liggja í hlutarins eðli, að við eigum áreiðanlega ekki hjer á hinu háa Alþingi að fara nú að yfirgefa þann trygga grundvöll, sem á að standa undir sjálfum ríkissjóðnum. Það er nú búið að taka ábyrgð á fje, sem lagt er smábátaútgerð á Ísafirði, — nú á að leggja alt að miljón króna í síldarverksmiðju á Siglufirði, þó að vitað sje, að slík stofnun sje áhættufyrirtæki og þurfi ekki einungis stofnfje, heldur líka rekstrarfje, — og skal jeg sýna fram á hvorttveggja, þegar það mál verður til umræðu. Mjer sýnist þess vegna, að nú sje farið að ganga nokkuð djarft að ríkissjóðnum, — farið að víkka hans verksvið fullmikið. Hingað til hafa menn með rjettu hræðst hallana. En enginn getur sagt, hvar þetta muni enda, þegar ríkissjóður er kominn inn á þennan hættulegasta atvinnuveg, sem til er í landinu.

Því er mjög haldið á lofti, að einkasalan sje nauðsynleg til þess að takmarka síld á markaðinn og tryggja með því sæmilegt verð. Jeg hefi þegar bent greinilega á það, að það mætti framleiða svo mikið fyrir utan línuna, sem markaðurinn frekast þyldi án þess að verða ofboðið. Og þá kemur það atriði til greina, þegar einkasalan á að ákveða, hve mikið skuli salta, að það er ekki víst, að menn fylgist nákvæmlega með því, hvað veitt er fyrir utan línuna. Einkasalan getur því vaðið þar í villu og svíma.

Jeg hefi nú gert þessar stuttu athugasemdir til þess að frelsa mína samvisku í þessu máli. Jeg greiddi atkv. móti einkasölunni 1926, og jeg mun greiða atkv. móti enn stærri einkasölu, sem hjer er á ferð. Það mun seinna sýna sig, ef á að halda langt inn á þá braut að fara með ríkissjóðinn inn í síldar-„spekulationir“, þá munu margir lofa guð fyrir það, að þeir greiddu rjett atkvæði í dag í þessu máli.