26.03.1928
Neðri deild: 57. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 3996 í B-deild Alþingistíðinda. (3575)

77. mál, einkasala á síld

Sigurður Eggerz:

Mig langar til að slá því föstu, að þeim aðalatriðum, sem jeg hefi haldið fram í málinu, hefir ekki verið hnekt. Jeg býst við, að einkasalan hafi þau áhrif, að þeim fjölgi, sem veiða fyrir utan línuna, þegar þeim verður ljóst, að hjer á að takmarka veiðina innan línunnar. Einkasalan sýnist því einmitt að þessu leyti vera í þágu útlendinga. Jeg vil geta þess, að svo framarlega, sem salan til Rússlands, 100 þús. tunnur frá Noregi og 25 þús. tunnur frá Íslandi, hefði farið fram fyr á árinu, þá hefði það lagað markaðinn. Þetta sýnir, að aðallausnin á þessu máli er að fá sem stærsta markaði fyrir síldina.

Jeg vil, út af athugasemd hv. 4. þm. Reykv. við tölur mínar, geta þess, að Norðmenn hafa veitt um 185 þús. tunnur fyrir utan línuna, en jeg sagði 190 þús. tunnur. Mismunurinn er svo lítill, að enginn ágreiningur getur orðið á milli okkar út af þessu. Aftur á móti að því er veiðina fyrir innan línuna snertir, þá var hún um 160 þús. tunnur, en þá er ekki talin Austfjarðasíld, um 20 þús. tunnur, og kryddsíldin. Jeg þykist því hafa sýnt, að samræmi er á milli þeirra talna, sem jeg tilfærði, og talna hv. 4. þm. Reykv.

Háttv. þm. Borgf. tók það fram, að þetta frumvarp gæti ekki orðið til að binda ríkissjóði fjárhagslegan bagga. Jeg fullyrti það ekki, en hins- egar sagði jeg, að ef einkasalan ætti ekki að verða þrándur í götu fyrir smærri atvinnurekendunum, yrði ríkissjóður að sjá einokuninni fyrir fje til rekstrarláns. En þá erum vjer mitt inni í áhættunni. Þetta gægðist fram hjá hv. 1. þm. S.-M, og sýnir, að sá glöggi maður hefir sjeð, að útgerðin þarf fje til umráða. Hvernig ætli fari fyrir hinum 100 reknetaveiðurum, ef þeim er ekki veitt fje til starfrækslu sinnar? Afleiðingin er sú, að síldarverslunin innanlands kemst á fáar hendur og þeir, sem fje hafa innanlands, ráða verðinu á síldinni; smærri framleiðendurnir verða háðir innlendum einokunarhring, sem myndaður yrði. Ef smærri framleiðendurnir fá ekkert fje, eru þeir settir út úr spilinu, og því er jeg hissa á því, að 4. þm. Reykv. skuli vera svo glaður yfir einkasölunni. Hann sagði við mig áður en fundur byrjaði — jeg veit, að hann tekur mjer það ekki illa upp —, að hjer væru eintómar einkasölur, og jeg hefi sjaldan sjeð eins hreina pólitíska gleði skína út úr þingmannsandliti. Jeg er samt hræddur um, að hann sjái, þegar hann fer að skoða þetta betur ofan í kjölinn, að það eru smærri framleiðendurnir, sem verða illa úti, ef þeir fá ekki fje. Og jeg býst við því, að þá verði farið að smeygja hendinni til ríkissjóðs. Og jeg býst við því, að krafan komi hörðust frá þeim hv. þm., sem sitja mjer til vinstri handar, krafan um það að láta smærri framleiðendurna fá fje úr ríkissjóði. Jeg sje, að hv. þm. Ísaf. brosir með miklum skilningi. — Þá sýnist mjer ástæða til að athuga, hvaða áhrif það mundi hafa á sölumöguleikana á síldinni, að einkasalan kæmist á. Ætli kaupendurnir erlendu mundu ekki reyna að halda verðinu niðri þangað til einokunin væri búin að selja? Og fái einokunin ekkert rekstrarfje, þá verður hún að selja. Í þessu sambandi má minnast á söluna á kjötinu seinast. Verðið fór mjög langt niður meðan á sölunni stóð, en hækkaði strax á eftir. Hjer mun þó ekki því um að kenna, að ekki hafi verið færir menn, sem sáu um söluna. En þetta sýnir, hvað erfiðleikarnir geta stundum orðið miklir.

Nú stendur svo í 6. gr. frv. (með leyfi hæstv. forseta): „Nú er nauðsynlegt, vegna einkasölunnar eða verkunar á síld til útflutnings, að tryggja einkasölunni afnot af bryggjum eða landi, er einstakir menn eiga eða ráða yfir, og getur ríkisstjórnin látið taka það til afnota, eftir tillögum einkasölunnar, fyrir leigu, er dómkvaddir menn meta.

Jeg veit ekki, hvað þetta á að þýða. Hvort einkasalan undir vissum kringumstæðum á að taka að sjer söltun síldarinnar. Eða til hvers á að nota bryggju? Þetta er athugasemd, sem jeg vildi einungis skjóta fram.

Það er ekki ástæða til fyrir mig að fara fleiri orðum um málið. En eitt verð jeg þó að segja. Hvernig sem niðurstaðan verður hjer í þessari hv. deild, þá er það eitt, sem gleður mig, og það er það, að ekki hefir nokkrum hv. þm. tekist að sýna fram á nauðsyn þess að draga þessa vörutegund frá grundvelli frjálsrar verslunar. En aftur á móti hefir andstæðingum einkasölunnar tekist að sýna fram á, með ómótmælanlegum rökum, að ómögulegt verður fyrir einkasöluna að ráða við markaðinn, þegar svo mikið veiðist utan línunnar, að það eitt nægir markaðinum. Þessu hefir engum tekist að mótmæla.

Jeg hefi átt tal um þetta við einn mjög ákveðinn meðmælanda einkasölunnar, og var hann mjer sammála um þetta. Hv. 2. þm. G.-K. segir einnig, að þetta sje rjett. Og jeg met mikils, hvað fagmaður eins og hann segir um þetta efni. En hvað er þá orðið úr öllu einokunarhjalinu, ef ekki tekst að ráða bót á því, sem var höfuðmark einkasölunnar? Þá er að óþörfu verið að draga ríkissjóðinn inn í áhættuna. Þá er að óþörfu verið að koma því fyrirkomulagi á verslunina, sem eykur þeim smærri atvinnurekendum, þeim efnaminni örðugleika, því einkasalan er rothögg á hina smærri framleiðendur. Hún er einungis fyrir þá efnamestu.

Auk þess, sem sýnt hefir verið fram á, að ekkert er unnið á með einkasölunni, er hún miður heppileg til þess að vekja eftirtekt á landinu út á við. Hún verður síst til þess að vekja samhug annara þjóða, sem versla við landið. Því þess verður að gæta, að þótt einkasöluhugmyndin sje rík hjer á landi, þá er öðru máli að gegna erlendis. Einkasalan er barnasjúkdómur, sem við erum ekki ennþá komnir yfir, barnasjúkdómur, sem við þjáumst af mismunandi á ýmsum tímum.

Ef einkasalan verður nú samþykt á síld, þá má búast við því, að brátt komi einkasalan á fiskinum á eftir. Ýmsir eru nú óánægðir með fisksöluna og ýmsir segja, og það með rjettu, að á ýmsum tíma komi of mikið af fiski á markaðinn. En það fullyrði jeg, að óhugur mundi grípa menn alment, ef við slíku mætti búast. Áhættan alt of mikil, að trúa einokuninni fyrir höfuðframleiðslu landsins.

Því miður er ekki hægt að neita því, að þessi síldareinokunarhugmynd stafar frá framleiðendum sjálfum, frá 1926. Einokunin nú er bein framlenging af síldarsamlaginu 1926.

Eitt er jeg viss um. Hvernig sem háttv. þingbændur líta á þetta mál, þá er jeg svo kunnugur hinni íslensku bændastjett, að jeg veit, að henni líst ekki á, ef nú á að fara að draga ríkissjóðinn inn í síldarhringinn. Það vekur andúð um land alt, að nú á að fara að verja á 4. hundrað þúsund kr. til smáútgerðar á Ísafirði, 1 milj. kr. til síldarverksmiðju á Siglufirði o. s. frv. Það er ekki verið að ræða hjer um síldarverksmiðjuna, en jeg nefni þetta aðeins til að bregða upp heildarmynd af þessari óhæfu.

Jeg heyrði, að hv. þm. Ísaf. barði í borðið. Það er eðlilegt, að mörg högg komi í borðið, þegar einokunardraugurinn er á ferðinni.