26.03.1928
Neðri deild: 57. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 4000 í B-deild Alþingistíðinda. (3576)

77. mál, einkasala á síld

Frsm. minni hl. (Ólafur Thors):

Jeg þarf ekki að svara þeim mönnum, sem talað hafa alment um galla einkasölu, og ekki heldur þeim mönnum, sem talað hafa um lýtin á þessu frv., því jeg hefi lagt til, að það verði felt. En nái till. minni hl. fram að ganga, geri jeg ráð fyrir, að tilefni gefist til að ræða alment um einkasölu, áður en framkvæmdar verða takmarkanir á frjálsri síldarverslun.

Fyrst ætla jeg að segja örfá orð til hv. þm. Dal. Hann benti á — jeg tala hjer aðeins um ræðu hans að því leyti, sem hún snertir lögin frá 1926, en þeim er minni hl. fylgjandi —, að ef einkasala yrði tekin upp, þá mundu framleiðendur verða fjevana. Jeg get aðhylst þetta að nokkru leyti, en vil þó spyrja, hvaða fjármagn það sje, sem dregst burtu frá atvinnuveginum við það, að einkasölu er komið á stofn. Það veltufje, sem dregst úr umferð, er það fje, sem útlendingar hafa lagt leppum sínum. Nú vilja allir ryðja leppunum úr vegi og takmarka framleiðsluna, svo voði hljótist ekki af of mikilli veiði. Þetta tvent fer saman, ef salan verður skipulagsbundin. Háttv. þm. notaði tækifærið til að tala um einkasölu alment, en að því leyti, sem hann setti það í samband við lögin frá 1926, mun honum tæpast hafa verið full alvara. Við, sem unnum frjálsri verslun, megum gjalda varhuga við að fylgja henni svo fast fram, að skaði hljótist af og gera aldrei undantekningu frá reglunni. Það er aðeins til að gefa þeim byr undir báða vængi, sem vilja hefta aðeins til þess að hefta. Um áhættu ríkissjóðs skal jeg ekki fjölyrða; samkvæmt lögunum 1926 og frv. er ekki um neina fjárhættu að ræða fyrir ríkissjóð. Hann ber ekki ábyrgð á tapi einkasölunnar, ef mistök verða. Það verður að deilast á þá, sem hlut eiga að máli. Hitt skal jeg játa, að hvorki lögin frá 1926 nje frv. er einhlítt til að tryggja höfuðtilganginn, að gera atvinnuveginn áhættulausan með því að takmarka framleiðsluna. Því það stendur ekki í okkar valdi að hindra veiðiskap útlendinga fyrir utan línuna. En samkvæmt lögunum frá 1926 eru meiri líkur til, að atvinnuvegurinn verði nokkurnveginn sæmilega tryggur.

Þó jeg hafi gerst til þess að skýra skoðun mína á þessu í sambandi við ræðu hv. þm. Dal., þá skal jeg þó ekki fara alment út í hana, þótt sumt af því, sem hann sagði, gæti gefið tilefni til andsvara. Báðir leggjum við áherslu á, að frjáls verslun sje betri en einkasala, en það, sem skilur okkur, er, að jeg lít svo á, að hjer hagi svo til, að nauðsyn sje á einhverjum afskiftum ríkisvaldsins.

Hv. þm. Borgf. þarf jeg ekki að svara nema örfáum orðum. Hann benti á, að samkvæmt frv. fjelli síldarmatið niður. Jeg skal játa það, að ef frv. verður lögfest, þá er nauðsynleg breyting á þessu. En minni hl. hefir ekki flutt brtt. við frv., því hann leggur til, að það verði felt. En ef sýnt er eftir þessa umr., að frv. nái fram að ganga, þá munum við og ýmsir aðrir flytja brtt. til að lagfæra það, því þess er mikil þörf. Jeg hefi bent á það áður, að samkvæmt lögunum frá 1926 er betur sjeð fyrir markaðsleitum en samkvæmt frv. Er það höfuðatriði, að vel sje unnið að öflun nýrra markaða.

Þá skal jeg víkja að ræðu háttv. frsm. meiri hl. Hann benti á, að sjútvn. væri sammála í því að telja núverandi fyrirkomulagi síldarverslunarinnar vera ábótavant. Þar af vildi hann draga þá ályktun, að ekki væri til bót á þeim meinum, önnur en einkasala. Þetta eru engin rök. Minni hl. játar, að nauður reki til að skipulagsbinda atvinnureksturinn. Sú leið, sem hann leggur til, að farin verði, er betri en till. meiri hl. Við viljum, að atvinnurekendur fari sjálfir með mál sín, svo sem auðið er. Eins og jeg gat um áðan, skilur það á milli, að meiri hl. leggur til, að stjórn fyrirtækisins sje skipuð á annan hátt en við óskum. Hann vill fela Alþingi að kjósa þrjá menn í útflutningsnefnd. Það er í alla staði mjög óeðlileg leið, óheppileg og órjettlát. Við aðhyllumst, að ráðherra skipi stjórnina um ákveðið árabil, þangað til þeir menn eru flæmdir burt, sem í raun og veru eru ekki sjálfstæðir atvinnurekendur, heldur aðeins verkfæri í höndum erlendra manna. En þegar þeir hafa heltst úr lestinni, þá eiga atvinnurekendur sjálfir að taka stjórnina í sínar hendur. Þótt við í þessu máli teljum rjett að rjúfa lögmál frjálsrar verslunar, þá viljum við ekki fara lengra en við erum til neyddir, en meiri hl. fer lengra, og það að óþörfu.

Hv. frsm. meiri hl. gat um skýrslu þá, sem prentuð er aftan við nál. okkar og sýnir, að yfir 3/4 hlutar síldarinnar er veiddur á skip, sem skrásett eru utan Norðurlands. Taldi hann hana óáreiðanlega og nefndi það til dæmis, að skýrslan greindi aðeins 3 austfirsk herpinótaskip, sem veiðar hafi stundað, en þau hafi verið 4. Þetta er að vísu ekki stórvægileg villa, en þó einungis til frekari rökstuðnings þeirri ályktun minni, að þar sem svo mikill hluti skipanna sje eign manna, búsettra utan Norðurlands, þá sje ekkert rjettlæti í því að láta norðlenska útgerðarmenn eina ráða valinu á stjórnarnefndarmanni, en meina öðrum útgerðarmönnum afskifti af valinu. Hv. frsm. sagði, að þetta skifti ekki máli og að ef taka ætti afleiðingunum af þessu, væri sjálfsagt og rjett að hafa aðsetur einkasölunnar í Reykjavík eða einhversstaðar sunnanlands. Hjer er ruglað saman tvennu óskyldu. Það er eðlilegt, að miðstöð einkasölunnar sje norðanlands, af því þaðan er veiðin stunduð. En hitt fæ jeg ekki skilið, hvað er því til fyrirstöðu, að þeir, sem framleiðslutækin eiga, megi taka þátt í stjórnarkosningu, þótt þeir eigi heima utan Norðurlands.

Hv. frsm. meiri hl. sagði, að margir útgerðarmenn styddu þetta frv. og tækju það fram yfir lögin frá 1926. En þeir hefðu ekki bundist svo öflugum fjelagsskap sem andmælendur frv., en komið einn og einn til nefndarinnar og látið óskir sínar í ljós. Nú vil jeg leyfa mjer að spyrja: Hvaða nefndarmönnum hafa þessir menn skýrt frá skoðun sinni? Hve margir eru þessir menn? Hvers vegna koma þeir ekki opinberlega fram? Jeg skal ekki vera að fara með neinar dylgjur, en sú er mín skoðun, að flestir útgerðarmenn voni það, að frv. þetta verði að velli lagt og lögin frá 1926 komi til framkvæmda, aðrir en þeir, sem hafa útlit fyrir að fá einhver bein, ef einkasalan verður tekin upp. (ÁÁ: Einhver ráð). Já, einhver ráð, segir hv. sessunautur minn. Það getur vel verið, að rjettara sje að orða það svo, að þeir sækist eftir ráðum, en ekki beinum.

Hv. þm. vildi leiða líkur að því, að ekki væri að marka mótmæli þau, sem komið hefðu fram gegn frv. Til rökstuðnings gat hann um það, að á fundi útgerðarmanna hjer syðra hefði atkvæðafjöldi hvers einstaklings verið miðaður við það, hvað hann hafði umboð fyrir mörg skip. Mjer þætti gaman að fá að heyra, hvaða hætti ætti að fylgja um atkvæðamagn, svo að rjettlátt væri. Jeg sje ekki, að það sje órjettlátt, að atkvæði manna sjeu nokkuð í hlutfalli við það, hverra hagsmuna hver um sig hefir að gæta.

Um brtt. hv. meiri hl., sem hnígur að því að bæta úr fjárþörf framleiðenda, hafði minni hl. farið þeim orðum, að álykta mátti, eins og hv. þm. gerði, að minni hl. væri að skopast að tillögunni. Hv. þm. skildi þetta alveg rjett. Minni hl. telur tillöguna mjög skoplega. Hún fer í þá átt, að framkvæmdarstjórninni sje meðal annars heimilt að liðsinna viðskiftamönnum einkasölunnar um útvegun á tunnum og salti til verkunar síldinni, ef þessu fylgir engin áhætta fyrir einkasöluna. Við minnihlutamenn bentum á, að þeir, sem eru ekki einfærir um að afla vörunnar, geta venjulega ekki sett nægilega tryggingu fyrir andvirði hennar, og er því ástæða til að ætla um þá, að þessu fylgi nokkur áhætta. Heimildin nær því aðeins til þeirra, sem ekki þurfa hennar með. Hv. þm. sagði, að þetta væru að vísu rök, en ekki tæmandi rök. Hann átti við það, að stjórn einkasölunnar gæti orðið ráðvöndum en fjelitlum mönnum að liði. Einnig þetta er vanhugsað. Fyrst og fremst er það yfirleitt svo, að þær fáu verksmiðjur, sem hingað selja tunnur og salt, hafa áreiðanlega þekkingu á högum þeirra manna, sem af þeim kaupa, en ef þeim þætti þar eitthvað ábótavant, mundu þeir ekki leita til stjórnarinnar um upplýsingar, heldur til annara aðilja, sem hlutdrægnislaust fást við að gefa slíkar upplýsingar, svo að hvernig sem á þetta er litið, er tillagan markleysa ein.

Jeg hafði mælst til þess við hv . frsm., að hann fylgdi nú minni hl. að málum og tæki upp sitt fyrra fósturbarn frá 1926 og hlutaðist til um, að þetta frv. yrði felt, en upp tekin lögin frá 1926. Hv. þm. svaraði, að hann hefði stutt að samþykt laganna 1926 af því, að þá hefði ekki verið um annað betra að ræða. En jeg man ekki betur en að á þinginu 1926 lægi einmitt fyrir annað frv. frá hálfbróður hv. þm., ef svo mætti að orði kveða, hv. 5. landsk. Það frv. gekk lengra en frv. okkar íhaldsmanna. Hv. þm. lagðist þó á sveif með okkur, svo að hann er í fullu samræmi við sjálfan sig, ef hann er enn á móti þessu frv., en heldur trygð við sitt gamla fósturbarn.

Jeg heyrði hv. þm. færa fram þau rök gegn lögunum frá 1926, að eftir þeim rjeði það atkvæðamagni um stjórn samlagsins, hve mikla síld hlutaðeigandi hefði saltað undanfarin ár. Þetta er alveg rjettlátt, en jeg vil þó benda hv. þm. á, að þessu eru settar miklar hömlur. Eitt atkvæði átti að koma fyrir hverjar 200 tunnur af saltaðri síld, en atkvæðamagn einstaklingsins mátti ekki fara fram úr 25 atkvæðum. Sá, sem saltar meira en 5000 tunnur af síld, nýtur því ekki atkvæðamagns fram yfir 25 atkvæði. Ef hv. þm. hefir mismint eitthvað um þetta, vænti jeg þess, að að fengnum rjettum upplýsingum, verði hann enn til þess að leggjast á sveif með okkur.

Þá þarf jeg að svara hv. 4. þm. Reykv. Hann sagði, að það væri harla undarlegt, að verið væri að amast við því, að verkalýðurinn fengi að útnefna mann í stjórn fyrirtækisins til jafns við þá, sem framleiðslutækin eiga. Rök hans voru þau, að verkalýðurinn ætti svo mikið undir því, að atvinnureksturinn færi vel úr hendi. Það er alveg rjett. Verkalýðurinn á mikið undir því, eins og mjög margir aðrir. En jeg vil beina athygli hv. þdm. að þessum rökum. Þetta er grundvallarstefna jafnaðarmanna. Ef hún er rjett, þá er það líka rjett, að verkalýðurinn taki þátt í stjórn allra framleiðslutækja, og þá til dæmis í stjórn bændaverslunarinnar, Sambandi íslenskra samvinnufjelaga. Þar á verkalýðurinn mikilla hagsmuna að gæta. En það er þetta, sem nú liggur fyrir hv. deild að svara í fyrsta sinn. Ef hún stígur þetta. fyrsta spor, verður hún að stíga annað og þriðja sporið og ótal mörg fleiri. Hv. þm. sagði, að þessi stefna væri mjög að ryðja sjer til rúms annarsstaðar. Það kann að vera, að henni hafi aukist fylgi, en jeg veit ekki til, að hún hafi nokkursstaðar verið upp tekin. Um þessar mundir situr nefnd á rökstólum með Bretum, en mjer skilst, að aðaltilgangur hennar sje að koma í veg fyrir kaupdeilur með því að verkamenn hafi sjálfir náin kynni af afkomu atvinnuveganna. Jeg vænti, að við sjeum sammála um, að þó að þetta megi verða í iðnaði, þar sem afkoman er jöfn frá ári til árs, þá er alt öðru máli að gegna um síldveiðar, þar sem alt er á huldu og afkoman afarmisjöfn frá ári til árs.

Hv. þm. sagði, að sjer þætti það gegna furðu, að við minnihlutamenn gætum aðhylst þá ráðstöfun, að Alþingi skipaði nefnd, sem færi með æðstu stjórn Landsbankans, en vildum hinsvegar ekki, að Alþingi skipaði stjórn þessa fyrirtækis. Jeg hefi aldrei sagt, að það væri ótækt, en jeg hefi bent á, að sú leið væri betri, að ráðherra skipi stjórnina til bráðabirgða, en seinna taki framleiðendur við. Jeg þykist ekki þurfa að ræða mikið um það, að jeg tel heppilegast, að sjálfir atvinnurekendur fari með stjórn sinna mála. En ef jeg á að velja um það tvent, hvort ráðherra eða Alþingi skipi stjórnina, kýs jeg, að ráðherra geri það, því að þá hefi jeg einhvern ábyrgan aðilja að halda mjer að, ef illa fer.

Ef Alþingi skipar stjórnina, er ábyrgð hvers einstaklings mjög lítil, en það er einmitt ábyrgðin, sem er aðaltryggingin fyrir því, að framkvæmdarstjórnin sje valin með hæfilegri hliðsjón af hæfileikunum. Um þetta greinir okkur á.

Hv. þm. vildi rökstyðja, að það væri ofureðlilegt, að Norðlendingar færu með stjórn þessara mála, en ekki Sunnlendingar. Þó að Sunnlendingar ættu mikið í húfi, væri hitt samt staðreynd, að þetta væri eini atvinnurekstur Norðlendinga, en aðeins nokkurskonar aukageta fyrir Sunnlendinga. Þetta er alveg rangt. Margir Sunnlendingar stunda enga aðra atvinnu frekar en Norðlendingar. Hv. þm. vildi rökstyðja það, að samkvæmt lögunum frá 1926 yrðu hinir svokölluðu leppar valdamestir í stjórn samlagsins, þar eð þeir hefðu mjög mikið magn síldar, og þess vegna mikið atkvæðamagn. Jeg hefi þegar sagt frá takmörkun atkvæðamagnsins. Auk þess hefi jeg skýrt frá því, að gerð var sjerstök ráðstöfun til þess að bægja burtu leppunum. En nú verð jeg víst að koma fram með skýringu, sem jeg er ekki viss um, að sje hv. dm. kunn.

Eins og til hagar nú, er það venja, að erlendir síldarkaupmenn, það er að segja síldarinnflytjendur, fela íslenskum manni að salta ákveðinn tunnufjölda af síld, en áhættuna bera hinir erlendu menn. Nú er það vitanlegt, að langmesta áhætta þeirra, er salta síld, er sú, að þeir geti ekki selt hana. Erlendir kaupmenn geta haft þá aðdrætti, að þeir fái fullnægt kröfum síldarneytenda, og svo er það hlutskifti okkar Íslendinga að bíða með sölu okkar, þar til reynslan sýnir, hvort hinir erlendu kaupmenn hafa birgt sig nóg upp. Verði atvinnureksturinn skipulagsbundinn, hefir hinn erlendi maður í raun og veru tekið fullan þátt í þessari verstu áhættu. Jeg skal taka dæmi. Sænskur síldarkaupmaður þarf árlega 10 þús. tunnur af síld. Hann fær innlendan mann til að salta hana og úthlutar henni allri til viðskiftavina sinna, þó að framleiðslan hjer sje 50% umfram þarfirnar og mjög mikið af íslensku síldinni verði óseljanlegt. Þeir, sem verða fyrir barðinu á þessu, eru innlendir menn, sem reka þennan atvinnurekstur fyrir eiginn reikning. Ef atvinnureksturinn er skipulagsbundinn, getur Svíinn fengið 10 þús. tunnur, og jafnvel þær, sem umboðsmaður hans saltar. En umboðsmaðurinn fær ekki fult andvirði síldarinnar, heldur fær hann það í hlutfalli við aðra atvinnurekendur og tekur því þátt í aðaláhættunni og ber hallann af henni til jafns við Íslendinga. Aðalatriðið er því það, að með því að skipulagsbinda atvinnuveginn meinum við Svíanum að vísu ekki að reka hann með leppum, en neyðum þá til þess að taka þátt í hinni verstu áhættu. Af þessum ástæðum höfum við útgerðarmenn með miklum líkum ályktað sem svo, að Svíinn óski ekki lengur eftir leppum, og við höfum þótst vissir um öryggi þessa atvinnufyrirtækis og að við gætum tekið við stjórn samlagsins innan fárra ára.

Mjer heyrðist hv. þm. segja, að ekki væri óhætt, að ríkið tæki að sjer einkasölu á síld, nema það hefði jafnframt bræðslustöð. Úr þessu vildi hann bæta með því að taka bræðslustöð á leigu. Þetta er einmitt sú skoðun, sem minni hl. hefir í áliti sínu viljað aðhyllast. Jeg vil biðja hv. þm. um að haga atkvæði sínu eftir þessari skoðun. Nú er ómögulegt að vita, hvort nokkur verksmiðja fæst. Ein hefir að vísu boðist, en ekkert er komið í ljós um skilmálana, hvort þeir verða yfirleitt svo, að hægt sje að ganga að þeim. Mjer finst, að hv. þm. ætti því að leggjast á sveif með minni hl. um þetta. (SÁÓ: Hv. þm. fer ekki rjett með mín ummæli). Hv. þm. segir, að ekki sje rjett hermt, þegar hann er búinn að sjá afleiðingarnar af því, sem hann sagði.

Jeg hafði gaman af að heyra hv. þm. lýsa yfir því, að yfirleitt væri ekkert að marka yfirlýsingar og mótmæli eins og hjer hafa komið fram. Hann hefir þó ekki lagt lítið upp úr slíku, þegar það mátti verða honum sjálfum í hag, samanber vökulögin sælu.

Að endingu vil jeg aðeins segja það, að þó að jeg ætti þátt í lögunum frá 1926, var mjer það ljóst, að þau áttu ekki vinsældum að fagna af öllum, sem áttu við þau að búa. En mjer hefir orðið annað ljóst í sambandi við einkasöluna, nefnilega það, að nú hefir samlagið fengið byr undir báða vængi. Það er varla nokkur framleiðandi, sem kveður upp neikvæðan dóm um samlagið, af því að þeir telja þetta frv. slíka ófreskju, að þeir vilja ekki við það una.