02.04.1928
Neðri deild: 63. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 4048 í B-deild Alþingistíðinda. (3592)

77. mál, einkasala á síld

Jóhann Jósefsson:

Hv. 2. þm. G.-K. hefir gert grein fyrir nokkrum af þeim brtt., sem minni hl. sjútvn. flytur á þskj. 654. En jeg skal nú gera lítilsháttar grein fyrir þeim till., sem hann nefndi ekki.

En áður vil jeg þó þakka hæstv. forsrh. fyrir svör þau, er hann gaf um daginn viðvíkjandi fyrirspurn minni um mótmæli gegn einkasölunni, sem stjórnarráðinu hefðu borist frá Svíaríki. Hann taldi þau ekki þess efnis, að ástæða væri til að taka tillit til þeirra. Mjer hefði fundist viðkunnanlegra, að sjútvn. hefði verið gefinn kostur á að kynna sjer þessi skjöl. Þótt álit hæstv. stjórnar sje að sjálfsögðu mikilsvert, þá hefði það varla spilt, að nefndin hefði fengið að sjá þau, því mál þetta er svo þýðingarmikið, að rjett hefði verið að leggja fyrir nefndina allar þær upplýsingar, sem unt var að veita.

Hv. þm. Ísaf. sagði á einum stað í ræðu sinni, að er fiskveiðalöggjöfin var sett, hafi því mjög verið hampað, að Norðmenn mundu setja hjer upp flotstöðvar og reyna að stunda veiðina með þeim, þegar þeir hrektust úr landi. Hv. þm. sagði, að reynslan hefði orðið alt önnur. — Jeg er hjer ekki á sama máli. Mjer virðist reynslan hafa sýnt, að flotstöðvarnar hafi verið starfandi síðan hjer við land. Norðmenn hafa sent hingað heilan flota stærri og smærri skipa og reynt svo að gera sjer aðstöðu sína bærilega. Hafa þeir fiskað í stór skip og gert sig okkur óháða með öllu. Jeg get því ekki fullyrt, að hjer hafi ekki verið settar upp flotstöðvar, heldur þvert á móti. Um hitt kunna að vera skiftar skoðanir, hvort Norðmenn hafi hjer lakari aðstöðu en við; það fer mjög eftir veðráttu.

Hv. 2. þm. G.-K. hefir gert grein fyrir höfuðbrtt. minni hl. — 1., 2. og 3. brtt. eru þar veigamestar. Við erum á þeirri skoðun, að rjett sje, að ríkisstjórnin skipi meiri hluta útflutningsnefndar, bæði vegna þess, að þá er meiri trygging fyrir því, að hæfir menn veljist í stöðurnar, og ekki síður vegna þess, að við teljum rjett, að sú stjórn, sem er þess valdandi, að fyrirkomulag þetta er tekið upp, haldi áfram að bera bróðurpartinn af ábyrgðinni, með því að velja meiri hluta útflutningsnefndar. Jeg get ekki neitað því, að jeg hefi heyrt, að stjórnin vilji ekki, að þetta vald sje sett í hennar hendur. Þrátt fyrir það er hún þegar — og flokkur hennar — með fylgi sínu við málið búin að taka á sig ábyrgðina, því að sá þingmeirihluti, sem er við völd, hlýtur að bera ábyrgð á því, hvernig frv. lítur út, þegar það fer út úr þinginu. Við, sem erum í minni hl., getum gert ýmsar brtt., en það er á valdi meiri hl. hvernig um þær fer. Þess vegna fer vel á því, að stjórnin taki eins mikinn þátt í skipun útflutningsnefndar og farið er fram á með brtt. á þskj. 654. Sumir hafa komið fram með þau andmæli, að ekki mætti gera svo lítið úr þinginu, að ætla því að geta ekki kosið nefndina. Það er misskilningur, að lítið sje gert úr þinginu. Vel getur það kosið nefndina, en það er mjög hætt við, að sú kosning verði meira eða minna pólitísk. Stjórnin finnur meira til ábyrgðar, og þess vegna er meiri trygging fyrir því, að valdir sjeu hinir færustu menn, án tillits til pólitískra skoðana, ef stjórninni er alveg sett í sjálfsvald, hverja hún velur. Enda mun stjórnin ávalt hafa það fyrir augum, að öll ábyrgðin hvílir á henni. En þegar ábyrgðin skiftist niður á þrjá eða fleiri þingflokka, er öðru máli að gegna.

Hv. þm. mintist á kosningu framkvæmdarstjórnarinnar. Jeg býst við að öllum finnist brtt. okkar minnihlutamanna um það atriði svo sanngjörn, að hún verði samþykt. Það er ef til vill þýðingarmesta atriðið í okkar brtt., að taka hið mikla vald af framkvæmdarstjórninni til þess að stöðva síldarsöltun. Hv. 2. þm. G.-K. hefir skýrt þetta nokkuð, en það mætti lengi um það tala til þess að útskýra fyllilega, hvað það er afskaplega þýðingarmikið atriði, að framkvæmdarstjórnin hafi vald til þess að banna mönnum að halda áfram að salta, þó að hún hafi áður leyft sömu mönnum að salta ákveðinn tunnufjölda. Það er alment viðurkent, að sjálfsagt sje, að stjórn einkasölunnar hlutist til um, hvenær byrjað sje að salta. Og jeg held, að flestir kannist við, að af tvennu illu sje verra, að byrjað sje of fljótt en of seint. Jeg held því, að ekkert sje við því að segja, þó að það ákvæði haldist, að útflutningsnefnd ráði, hvenær byrjað er á söltun. Sama íhlutunarvald hefir líka þann rjett, sem 7. gr. fjallar um, að taka á móti tilkynningum þeirra, sem ætla sjer að salta síld, og hlutast til um það, hvað hver um sig megi verka af síld til útflutnings. Þetta höfum við minnihlutamenn verið að reyna að lagfæra þannig, að íhlutunarvaldið komi sem rjettast niður. Þarna er full heimild fyrir stjórnina til þess að ráða, hvað Pjetur eða Páll fær að salta, og þegar það er athugað, sýnist lítil ástæða til þess, að sama stjórn megi aftur síðar meir — og það jafnvel að fyrirvaralausu — stöðva söltunina og þar með veiðina. Jeg er hræddur um, að mörgum finnist íhlutunin ganga fulllangt, þó að látið sje sitja við tvö hin fyrri stig, að stjórnin ráði því, hvenær byrjað sje að salta og hve mikið sje saltað.

Ef ætti að leita að ástæðum fyrir því, að stöðva mætti söltun, þegar nýbyrjaður er veiðitími, eins og til stóð í fyrra í kringum 6. ágúst, þegar mikill fjöldi báta var ekki búinn að fá nema þriðjung veiðinnar, býst jeg við, að svarið verði almennast það, að hætta sje á, að markaðurinn yfirfyllist. En þetta er stundum álitið án þess ástæða sje til. Nú kann ýmsum að þykja ástæða til að ætla, að leyfi til söltunar yrðu veitt svo ríflega, að markaðurinn þyldi það ekki. En jeg geri ráð fyrir, að það verði talið hyggilegast að gefa veiðileyfin frílega, af því að jeg veit, að með síldveiðarnar eins og annan veiðiskap er það svo, að kóngur vill sigla, en byr hlýtur að ráða. Þó að jeg og aðrir menn ætluðum að salta svo og svo mörg þúsund tunnur af síld, er ekki víst, að úr því geti orðið. Þess vegna er nauðsynlegt og rjett að leyfa að veiða freklega það, sem markaðurinn undir venjulegum kringumstæðum þolir. Þó að menn kvarti um hættu af of mikilli söltun, er betra að salta ríflega en of lítið, einkum ef tekið er tillit til þess, að Íslendingar eru að reyna að koma síld sinni á markaðinn í Rússlandi. En þessi stöðvunarhætta gerir það að verkum, að atvinnureksturinn verður ótryggur, og getur jafnvel farið svo, að menn þori ekki að fara norður. En þó að svo fari ekki, eiga menn þetta altaf á hættu, og það getur orðið til þess, að menn keppist við að salta framan af veiðitímanum meira en góðu hófi gegnir, og jafnvel svo, að vöruvöndun yrði ekki eins góð og skyldi. Með bannið yfirvofandi mundu allir keppast við að salta sem mest framan af veiðitímanum. Nú er það vitanlegt, að gæði síldarinnar eru miklum mun lakari fyrri hluta veiðitímans en síðari hlutann, svo að ekki er æskilegt að ýta undir of mikla söltun mjög snemma. Það gæti líka orðið til þess, að menn notuðu ljelegri vöru til söltunar en annars mundi vera, ef þeir þyrftu engan kvíðboga að bera fyrir því, að þeim yrði bannað að salta. Jeg vil endurtaka það, sem hv. 2. þm. G.-K. sagði, að möguleiki væri til þess, að harðdræg og eigingjörn framkvæmdarstjórn hjeldi á hlutunum, sem sjálf hefði hagsmuna að gæta af stöðvun söltunar og hegðaði sjer eftir því. Það væri að vísu hægt að setja í lög, að menn mættu ekki hafa á hendi síldarsöltun, en þeir menn, sem mest tala um hina svokölluðu leppa, ættu best að sjá, að það hefir ekki mikla þýðingu, þó að framkvæmdarstjórunum sje bannað þetta að nafninu til. Þeir gætu hæglega haft leppa.

Jeg skal taka það fram, að ákvæði frv. eru — eins og oft á sjer stað um þessháttar hluti — sannarlega nógu mörg í þá átt að draga úr mönnum móð og hefta framleiðsluna og gera hana óaðgengilegri, þó að því sje ekki bætt við, að stöðva menn mitt í atvinnurekstrinum, þegar þeir hafa fengið leyfi til að salta vissan tunnufjölda. Það verður nauðsynlegt í þessu sem öðru — ekki síst einkasölu — að fylgja þeirri reglu, að hið nýja skipulag grípi sem minst inn í einstaklingslífið og verði ekki tilfinnanlegur fjötur á einstaklingunum. Einkasalan þarf að laga sig eftir eðlilegum atvikum, eins og um frjálsa samkepni væri að ræða.

Við minnihlutamenn höfum gert brtt. við 4. gr. 3. Þar stendur svo: — „Skal miða greiðslur við meðalverð allrar síldar af sömu tegund og gæðum“. — Þetta þótti okkur ekki nógu skýrt. Það gæti svo farið, að menn hjeldu, að hjer væri átt við meðalverð þeirrar sendingar, sem afskipað væri í hvert skifti. Við viljum því miða við hið árlega meðalverð.

Við höfum einnig gert brtt. við 5. gr. a. 5. gr. fjallar um heimild handa framkvæmdarstjórninni til þess að taka lán út á síldina, jafnótt og hún er fullverkuð til útflutnings, og skifta því í rjettum hlutföllum milli síldareigenda, eftir vörumagni. En okkur virðist, að fleira eigi að koma til greina en vörumagn. Vörugæði verða líka að koma til greina. Við höfum því viljað setja í staðinn fyrir „vörumagni“: magni og gæðum þeirrar síldar.

6. gr. frv. er hin margumtalaða heimild um, að til einkasölunnar megi taka til afnota bryggjur eða land, er einstakir menn ráða yfir. Þetta á að gerast af ríkisvaldinu, eftir tillögum einkasölunnar. Það hefir aldrei verið skýrt fyllilega hjer í hv. deild, hvaða nauðsyn beri til að hafa í lögum svo stranga heimild. Það er augljóst, að bryggjueigendur og menn, sem hafa trygt sjer afnot af bryggjum, verða að ganga út í atvinnureksturinn í þeirri von, að þeir geti notað bryggjurnar, en þessi heimild hangir yfir höfði þeim og þeir eiga á hættu, að bryggjurnar verði teknar, að því er virðist fyrirvaralaust. Minni hl. nefndarinnar vill því fella þessa heimild alveg niður.

Við viljum gera fjórar breytingar við 7. gr. Sú grein fjallar um vald framkvæmdarstjórnarinnar til að úthluta mönnum leyfi til að salta síld og „kontrollera“, hvað hver framleiðandi megi salta. Menn eiga ekki að geta sagt út í bláinn, að svona mikið ætli þeir að salta, án þess að þeir hafi fært nokkrar líkur til þess, að þeir geti framkvæmt þetta. Minni hl. vill því, að umsækjandi tilgreini nöfn og tölu þeirra báta, er hann hygst að nota til veiðanna. Við álítum sjálfsagt að reyna að tryggja svo sem hægt er, að ekki komi einhver og einhver braskari og fái leyfi og geti þannig bolað þeim burtu, sem verðugri væru. Þetta er því nokkurskonar varnagli við því, að menn safni að sjer leyfum út í bláinn, án þess að þeir hafi gert nokkrar ráðstafanir til þess að geta aflað síldarinnar. Afleiðingar af þessu eru hinir liðir brtt. Við gerum ráð fyrir, að nefndin megi takmarka leyfi þau, er hún veitir, við skipafjölda, ef hún sjer fram á, að framleiðslan muni verða of mikil. Hinsvegar ætlumst við til, að reknetabátar megi salta meira hlutfallslega en herpinótaskip. Ástæðan til þess er sú sama og fram kom í brtt. hv. þm. Ísaf. C-liður brtt. er þess efnis, að framkvæmdarstjórn — einkasölunnar megi, ef henni finst við þurfa, takmarka fyrirfram söltun hvers einstaklings, og skuli hún þá hafa til hliðsjónar aðstöðu framleiðandans til framleiðslunnar, svo sem skipakost og bryggju, framleiðslumagn hans undanfarin ár, vöruvöndun og skilsemi. Það hefir mikla þýðingu í þessum atvinnurekstri, eins og öllum öðrum atvinnurekstri, að menn temji sjer vöruvöndun og skilsemi. Minni hl. hefir því viljað láta taka tillit til þess, ásamt því, hvernig umsækjandi hefir að öðru leyti rekið atvinnureksturinn á undanförnum tíma.

Síðasti liður brtt. er um það, að síðasta málsgrein 7. gr. falli burt. Það er bein afleiðing af því, að framkvæmdarstjórnin geti ekki stöðvað söltun.

Við 8. gr. viljum við gera þá breytingu, að hinir fyrirhuguðu sjóðir, varasjóður og markaðsleitarsjóður, skuli fá ½% af andvirði seldrar síldar, í stað þess að í frv. stendur ¼%. Okkur virtist, að meðal annara galla á frv. — sem aldrei verða upp rættir með öllu — væri sá sjerlega áberandi, einkum þegar borið er saman við heimildarlögin frá 1926, hve lítil áhersla er lögð á það, að leita nýrra markaða. Það er ekki hægt að sjá á frv., að neitt eigi að ganga til þess, nema markaðsleitarsjóður, sem fær ¼% af andvirði seldrar síldar. Þetta þótti okkur minnihlutamönnum alt of lítið, því að það er mjög mikilsvert atriði í sambandi við síldveiðar, að ekki verði látið undir höfuð leggjast að gera það, sem hægt er, til að afla nýrra markaða.

Lokabrtt. minni hl. er sú, að lögin öðlist gildi 1. jan. 1929; með öðrum orðum, að lögin komi ekki til framkvæmda fyr en næsta ár. Sú breyting er í samræmi við það, sem áður hefir verið haldið fram og mikill meiri hluti síldarútvegsmanna um alt land hefir látið opinberlega í ljós. Sú skoðun grípur um sig, að það sje of mikil áhætta að demba einkasölunni á í sumar, áður en hugmyndin um síldarbræðslustöð kemst í framkvæmd. Því höfum við lagt til, að lögin öðlist ekki gildi fyr en næsta ár. Það er til þess að taka allan ugg frá útvegsmönnum í þessu efni, sem er svo rótgróinn, að bátar, sem stunduðu reknetaveiðar síðastliðið sumar, munu ekki treystast norður til síldveiða að öðrum kosti í sumar komandi.

Jeg ætla ekki að fara út í brtt. einstakra manna fyr en síðar, ef tækifæri gefst.