02.04.1928
Neðri deild: 63. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 4057 í B-deild Alþingistíðinda. (3593)

77. mál, einkasala á síld

Magnús Guðmundsson:

Jeg held, að hv. þm. Ísaf. hafi ekki heyrt skýringar mínar á þeirri heimild, er verksmiðjan Ægir fjekk. Eins og tekið hefir verið fram, þá hafði verksmiðjan áður ótakmarkaða heimild. Það olli því mikilli óánægju hjá verksmiðjunni, þegar heimild þessi var takmörkuð af mjer. Var vísað til norsku samninganna, þar sem talað er um vinsamlega skýringu þeim til handa á fiskiveiðalöggjöfinni. Því var haldið fram, að það væri óvinsamleg skýring á henni, þegar leyfið var þrengt frá því, sem áður hafði verið. Eftir þessu hefir hv. þm. Ísaf. ekki tekið. En ef hv. þm. hefði kynt sjer þau plögg um þetta, sem til eru í stjórnarráðinu, þá hefði hann sjeð, hve mikið stapp varð um þetta mál og að ekki var látið undan fyr en utanríkismálaráðuneytið norska hafði beitt sjer fyrir þessu máli. Vildi þá fyrverandi stjórn ekki taka á sig þá ábyrgð, er leitt hefði af því, ef samningsrof hefðu verið talin af okkar hálfu gagnvart Norðmönnum.