02.04.1928
Neðri deild: 63. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 4061 í B-deild Alþingistíðinda. (3595)

77. mál, einkasala á síld

Pjetur Ottesen:

Við 2. umr. talaði jeg nokkuð alment um þessi síldarmál, sem nú liggja fyrir þinginu. Jeg gerði þá grein fyrir því, að þótt jeg væri fylgjandi frjálsri verslun yfirleitt, þá mundi jeg geta fallist á að gera tilraun í þá átt, sem hjer er farið fram á. Þó því aðeins, að gerðar væru á frv. þær breytingar, sem jeg taldi óhjákvæmilegar. Jeg skal þá minnast á brtt. þær, sem jeg hefi leyft mjer að bera fram, og um leið brtt. frá hv. minni hl. sjútvn.

Fyrsta brtt. mín er við 2. gr., og skal jeg um leið og jeg tala um þessa till. geta um brtt. minni hl. sjútvn. við sömu grein. Þessar till. lúta báðar að því að breyta kjörinu í stjórn þessa fyrirtækis.

Í stað þess, að eftir frv. eins og það nú er er ætlast til þess, að þingið kjósi 3 menn í útflutningsnefndina, leggur minni hl. til, að atvmrh. skipi þá, og í stað þess, að hinir tveir sjeu kosnir af Verkalýðssambandi Norðurlands og útgerðarmönnum nyrðra, sjeu þeir valdir af útvegsmönnum um land alt. Með þessu fyrirkomulagi er þó alls ekki útilokað, að kosning eða skipun útflutningsnefndarinnar verði pólitísk. En hinsvegar má halda því fram, að ef stjórnin útnefndi mennina, þá bæri hún líka ábyrgðina og væri ein um þá hitu.

Eftir því, sem jeg hefi komist næst, tel jeg öldungis vonlaust um, að hægt sje að koma fram slíkri breytingu á skipun nefndarinnar sem hjer er um að ræða. Jeg er þess fullviss, að hinn ráðandi þingmeirihluti gengur ekki inn á hana. Þess vegna hefi jeg talið öldungis vonlaust um að bera fram brtt., sem gengju í þá átt að útiloka það, að valið á mönnum í stjórnina yrði pólitískt. Þess vegna hefi jeg ekki gengið lengra í mínum tillögum um þetta en að koma fram breytingu á þátttöku síldarútvegsmanna í vali á einum manni í stjórnina. Jeg sje nú ekki betur en að þetta sje sjálfsagður hlutur, svo framarlega sem þingið vill veita útvegsmönnum íhlutun um þetta, að tekið sje jafnt tillit til þeirra allra. Jeg hefi því borið fram brtt. í þá átt, að þetta sje ekki bundið við Norðurland eingöngu, heldur sje maðurinn kosinn af útvegsmönnum af öllu landi.

Þá hefi jeg leyft mjer að bera fram brtt. við 4. gr., um að aftan við 2. málslið bætist: alt samkvæmt þar að lútandi reglugerð, sbr. 14. gr., um síldarmat.

Jeg mintist á það við 2. umr., að mjer þótti ekki koma nógu skýrt fram sambandið milli þessara ákvæða og ákvæða 14. gr. um reglugerð um þetta. Skal jeg gera nánari grein fyrir þessu síðar.

Þá er 3. brtt., við 4. gr. 4. lið, um að heimila framkvæmdarstjórum einkasölunnar að gera ráðstafanir um nýjar aðferðir í verkun og opnun nýrra markaða. Það kemur ekki nógu skýrt fram í frv., hvort stjórn einkasölunnar hefir ótakmarkaða heimild í þessu efni eða væri bundin við ákvæðin um það að mega ekki verja nema af andvirði síldarinnar. Þar sem mjer hefir skilist, að nefndin ætti að vera bundin við 8. gr. um þetta, og vil jeg því bæta við: sbr. 8. gr.

Þá er næst 4. brtt. mín, við 6. gr. — Það hefir verið drepið á það bæði af hv. 2. þm. Eyf. við 2. umr. og mjer, að hætt gæti verið við, að ákvæðum þessarar greinar yrði beitt nokkuð harkalega, þar sem heimilað er að taka á leigu bryggjur án þess að samkomulag fáist við aðilja. Jeg hefi áður bent á, að þetta getur komið sjer illa, einkum þegar svo stendur á, að menn hafa þegar gert ráðstafanir í sambandi við væntanlegan atvinnurekstur. Hinsvegar skilst mjer, að ekki sje full ástæða til að gera ráð fyrir þessu, að einkasalan þurfi að taka á leigu bryggjur til að verka síldina. Slíkt liggur utan við hennar verksvið. Jeg álít því nóg, að einkasölunni sje heimilað að gera samninga um þetta til eins árs í senn.

Þá er 5. brtt., við 8. gr. Hún gengur í þá átt að hækka um helming tillagið til markaösleita. Eftir frv. má ekki verja nema ½%, sem skiftist jafnt milli varasjóðs og markaðsleitarsjóðs. Mjer þykir þetta of lítið, og hefi jeg því borið fram þessa brtt. um, að til varasjóðs renni 1/4%, en til markaðsleitarsjóðs ¾%. Eftir áætlun skilst mjer, að þetta 1% getið numið um 60 þús. kr., og verður þá eftir minni till. hlutur varasjóðs 15 þús., en markaðsleitarsjóðs 45 þús. krónur, og fyrir það fje finst mjer, að mætti vinna allmikið að útvegun nýrra markaða. Mjer finst líka, að ekki megi ganga framhjá að leggja áherslu á þetta, með því að það hefir verið talinn einn höfuðkostur þessa fyrirkomulags, að með því ættu að fást betri tök á þessu.

Þá er 6. brtt. mín, við 11. gr., um að fyrir orðin „eftir 8. gr.“ komi: sbr. 4, gr. 3.–8. gr, á aðeins við það fje, sem lagt er í sjóð, en þar eru engin ákvæði um að greiða kostnað við starfrækslu einkasölunnar. Hinsvegar er í 4. grein talað um þetta, og tel jeg sjálfsagt að setja 11. gr. í samband við þau ákvæði.

Það virðast nú allar líkur til, að þetta frv. verði samþ. og komi til framkvæmda, og finst mjer þá rjett að reyna um leið að koma fram endurbótum á síldarmatinu. Jeg mintist á það áðan í sambandi við 2. brtt. mína á þskj. 657, að mjer finst það ekki koma nógu skýrt fram í frv., að sjeð sje fyrir tryggu mati. Þess vegna hefi jeg nú flutt brtt. um, að atvinnumálaráðuneytið setji reglugerð um matið, eftir till. framkvæmdarstjórnar, og sje hún samþ. af útflutningsnefnd.

Jeg hefi nú aflað mjer nokkurra upplýsinga um það, hvaða þýðingu það mundi hafa, að matinu væri breytt, og vildi jeg um leið og jeg skýri frá þeim gjarnan gefa deildinni svolitla hugmynd um, hvernig þetta gengur fyrir sig nú í raun og veru.

Þegar skip kemur að landi, fara matsmenn um borð og taka á nokkrum efstu síldunum og ákveða, hvort farmurinn sje söltunarfær eða ekki. Síðan er síldinni ekið upp á söltunarstaðinn og þar er hún „kverkuð“ og söltuð. Það fer svo eftir atvikum, hve hve lengi hún er geymd, þangað til hún er flutt út, og vill þá oft verða nokkur misbrestur á, að henni sje vel við haldið. Þegar svo síldin kemur á markaðsstaðinn, verður að vonum nokkuð misbrestasamt um útlit hennar. Það má eftir þessu gera ráð fyrir, að það geti valdið miklu um sölu síldarinnar á erlendum markaði, að þessa sje vel gætt, að matið sje í góðu lagi.

En aðal-aðfinslan í markaðslöndunum er þó miklu frekar önnur en þessi. Einkum þær, að síldin sje of mögur fyrir markaðinn og að stór og smá síld sje í sömu tunnum, auk þess að hún sje misjöfn að gæðum að öðru leyti. Svíar vilja helst feita og stóra síld; sjerstaklega kvarta þeir undan því, að síldin sje misjafnlega stór í tunnunum. Það eru þó til hjeruð í Svíþjóð, sem ekki leggja mikla áherslu á að fá stóra síld, ef þeir fá smáa, og er það meðfram vegna verðsins. En yfirleitt eru þær kröfur gerðar, að síldin sje stór og feit. Nú er að athuga í sambandi við þetta, hvort ekki sjesjálfsagt að bæta úr þessum ágöllum á síldarmatinu í samræmi við kröfur kaupenda, eins og gert er við kjöt og saltfisk. En það verður ekki gert nema með því að flokka Síldina til söltunar, því að þegar síldin er seld til stórkaupmanna, þá hafa þeir enga hugmynd um, hvernig hún er, fyr en farið er að selja hana aftur, og skýrast kemur það í ljós, þegar til smásalanna kemur og hún er seld í stykkjatali. En jafnvel smásalarnir renna blint í sjóinn um það, hvernig vöru er um að ræða. Með því að gefa yfirlit yfir það, hve smásalaálagning er gífurleg í Svíþjóð, er best hægt að sjá, hvaða augum er litið á flokkun og gæði síldarinnar. Mjer er sagt, að vanaleg smásalaálagning í Svíþjóð sje 40–60%, og er það gífurlega mikil álagning á matvöru. Þetta á rót sína að rekja til þess, hve litla tryggingu smákaupmenn hafa fyrir gæðum síldar innar, er þeir kaupa hana, og hve áhætta þeirra er þar af leiðandi mikil. Í þeirri síld, sem stórkaupmenn selja þeim sem góða og gilda vöru, fá þeir einnig úrgangssíld, og hana verða þeir auðvitað að selja miklu lægra verði, og þess vegna verða þeir að leggja á síldina í samræmi við það, hve litla tryggingu þeir hafa fyrir gæðum. Og eftir þeim upplýsingum, sem jeg hefi fengið, þá nemur þetta um 20–30% af verði síldarinnar, og þegar miðað er við útflutningsverð síldar, sem er 4–6 miljón krónur, þá má sjá, að hjer er ekki um neina smámuni að ræða. Þetta fyrirkomulag á matinu, sem nú er, virðist því ekki vera nein trygging fyrir gæðum. Það mætti líkja núverandi ástandi síldarmatsins við það, að saltfiskurinn væri seldur til Spánar eins og hann kemur fyrir úr skipinu, án þess að flokka hann nokkuð, og er hætt við, að verðið mundi þá falla mikið, vegna þess að engin trygging væri þá fyrir gæðum. Skotar hafa allra þjóða lengst fengist við síldarverslun, og þeir hafa náð svo mikilli festu í síldarmat sitt, að þeir hafa ákveðið merki fyrir hvern flokk, og geta kaupendur altaf verið vissir um, að þeir fái þá vöru, sem merkið sýnir. Þetta er það mark, sem menn verða að keppa að, því að það, að örugglega sje gengið frá síldarmatinu, á ekki lítinn þátt í því að tryggja verð síldarinnar. Enda eru ekki líkt því eins miklar sveiflur á verði skosku síldarinnar og á sjer stað um þá íslensku. Það er ekki hægt að sjá, að hjer sje gert nokkuð til þess að kynna síldarmatsmönnum kröfur neytenda, eins og gert hefir verið með fiskimatsmenn, þótt í litlum mæli sje. Þeir hafa þó átt kost á að fara til markaðslandanna, en engu slíku er til að dreifa um síldarmatsmenn.

Það má segja, að það verði erfitt í framkvæmdinni að koma slíkri flokkun á. En þegar að því er gætt, að hjer er verið að koma orði á gæði þessarar vöru, þá er það miklu meira virði en að veiða mikið, því að hin mikla veiði hefir oft orðið okkur hrein hermdargjöf, þar sem tjónið hefir oft orðið því meira, því meira sem veiðst hefir. Þetta er herfilegt ástand, og hygg jeg, að best verði komið í veg fyrir það framvegis með því að tryggja það, að markaðurinn verði ekki offyltur og með því að koma betra mati á en nú er. Og ef búast má við nokkrum árangri af þeim tilraunum, sem hjer á að gera, þá held jeg, að hann náist helst á þennan hátt.

Jeg held, að úr því að þingið ætlar ekki að afgreiða það frv. um síldarmat, sem lagt var hjer fram í þingbyrjun, þá sje rjett að samþykkja þétta frv. Og það verður að leggja megináherslu á að flokka síldina eftir stærð og gæðum, en þau fara fyrst og fremst eftir fitu síldarinnar.

Nú er borin fram brtt. frá minni hl. sjútvn., sem fer í þá átt að kippa úr frv. ákvæðinu um, að heimilt sje að stöðva söltun, þegar sýnt er, að markaðurinn taki ekki við meiri síld, svo að ekki hljótist verðfall af. Það eru vitanlega fleiri ákvæði í frv., sem miða að því að takmarka söltun. Fyrst og fremst það, að ekki má byrja að salta fyr en á ákveðnum tíma, og í öðru lagi, að framkvæmdarstjórn má ákveða, hve mikið má salta. Það hefir raunar verið talað um það líka að leggja til grundvallar, hve mikið megi salta af hverju skipi. En mjer skilst, að það sje alls ekki full trygging fyrir því, að markaðinum sje ekki ofboðið, því að þótt menn viti nokkuð um það, hve markaðurinn í Svíþjóð þolir mikið án þess að verðfall hljótist af, þá er annað atriði, sem kemur til greina, og það er samkepni Norðmanna á þessum markaði. Það er nauðsynlegt fyrir okkur að fylgjast með því, hvernig Norðmönnum gengur að fiska fyrir utan landhelgina, og verðum við að haga okkar síldveiðum nokkuð eftir því. Ef þeim gengur vel, þá verðum við að draga úr okkar söltun, en ef þeim gengur illa, þá getum við saltað því meira. Því verður að vera hægt að draga úr söltuninni, en það verður ekki hægt á annan hátt en þann, að framkvæmdarstjórnin skerist í leikinn, en hinsvegar getur stundum verið fullkomlega heppilegt að auka söltunina nokkuð. Og þegar tillit er tekið til þess, að ofsöltun hefir oft verið höfuðástæðan til þess mikla tjóns, sem við höfum beðið, þá virðist mikið dregið úr tilgangi þessa frv., ef stöðvunarheimildin er feld úr því. Það var viðurkent 1926, að nauðsynlegt væri að takmarka síldarsöltunina, og jeg býst við, að það frv. hefði ekki náð fram að ganga, ef slíkt ákvæði hefði ekki verið í því; en síðan er aðstaðan alveg óbreytt. En þó að ef til vill hafi ekki verið nógu tryggilega frá þessu ákvæði gengið í því frv., þá er það vitanlegt, að það frv. náði alls ekki yfir öll þau vandkvæði, sem eru á þessu máli.

Minni hl. sjútvn. hefir annars fært fram ýmisleg rök fyrir því að kippa þessu stöðvunarákvæði burt úr frv. Meðal annars var því haldið fram, að ákvæðið væri varhugavert í sambandi við það, að framkvæmdarstjórarnir mættu sjálfir hafa síldarsöltun með höndum, og væri því mjög mikil freisting fyrir þá að ná mjög mikilli síld á sínar hendur, takmarka síðan söltunina og gera sjer þetta þannig að auðsuppsprettu. Hv. 2. þm. G.-K. sagði meira að segja, að það væri í lófa lagið að auðgast á þessu um nokkur hundruð þúsund krónur. Jeg skal ekki segja um það, hvort þetta er hugsanlegur möguleiki, en það er vitanlegt, að þegar þessir menn verða valdir, þá verður að gera það með það fyrir augum, að þeir vinni að heill allra þeirra, sem hlut eiga að máli, bæði útgerðarmanna og síldarsölumanna. Jeg vil því ekki gera ráð fyrir því fyrirfram, að þeir notuðu sjer aðstöðu sína þannig. En hinsvegar virðast mjer svo miklir hagsmunir fyrir heildina á bak við það, að þeir hafi þessa heimild, að ekki sje gerlegt að skerða hana. Mjer finst það líka liggja á bak við hjá hv. minni hl. sjútvn., að minsta kosti kom það nokkuð skýrt fram hjá hv. þm. Vestm., að honum er töluvert á móti skapi að setja takmarkanir á síldarsöluna. Mjer virtist honum vaxa meira í augum þær hömlur, sem settar eru á einstaklinginn, heldur en það tjón, sem hagsmunir fjöldans kunna að bíða við það, að engar takmarkanir verði settar. En jeg verð að líta frekar á heill þjóðarheildarinnar en þótt einhver einstaklingur yrði fyrir hömlum.

Hv. þm. Vestm. sagði, að af tvennu illu væri betra að salta of mikið en að takmarka rjett einstaklingsins. En hjer verður að athuga, að þegar búið er að salta nóg við hæfi markaðsins, þá getur jafnvel lítil viðbót orðið til þess að lækka verðið fyrir öllum, og er mjer fyllilega ljóst, hvílík hætta getur stafað af því.

Hv. þm. Vestm. sagði, að allar slíkar ráðstafanir drægju móð úr mönnum. Jeg fyrir mitt leyti held, að það sje ekki heppilegt, að það opinbera setji hömlur á athafnafrelsi manna, en í þessu sambandi sje jeg enga hættu við það, að nokkuð sje slegið á þann mikla ákafa, sem menn virðast hafa til þess að salta síld, og getur stórspilt verðinu og orðið öllum til tjóns.

Þá hefir minni hl. sjútvn. borið fram brtt. þess efnis, að einkasalan komi ekki til framkvæmda fyr en á árinu 1929, þannig, að engin einkasala verði á þessu sumri, og bera þeir því við, að hún muni ekki ná tilgangi sínum fyr en verksmiðja komist upp. En jeg vil benda þessum hv. þm., sem studdu síldarsamlagslögin frá 1926, á það, að þá lágu ekki fyrir neinar tillögur um verksmiðjur í sambandi við síldarsöluna, svo að engin breyting hefir að þessu leyti orðið síðan 1926. Mjer virðist því þessi ástæða þeirra mjög ljett á metunum.

Að lokuð get jeg lýst yfir því, að ef þær breytingar verða samþ., sem jeg tel nauðsynlegt að gera á frv., þá mun jeg greiða atkvæði með því út úr deildinni, og er það algerlega í samræmi við afstöðu mína til laganna frá 1926, eftir að inn í þau var sett ákvæði um það, að takmarka mætti síldarsöltun.

Munurinn á þessu er í sjálfu sjer enginn annar en sá, að stjórnin er öðruvísi skipuð samkvæmt þessu frv., en bæði lögin frá 1926 og þetta frv. stefna annars að nákvæmlega sama marki. En aðalmunurinn er sá, að það hefir enginn árangur orðið af lagasetningunni frá 1926, því að hún hefir aldrei komist til framkvæmda; en ef þetta frv. verður samþykt, þá kemst það vitanlega til framkvæmda á þeim tíma, sem þau ákvæði frv. mæla fyrir um.