02.04.1928
Neðri deild: 63. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 4071 í B-deild Alþingistíðinda. (3596)

77. mál, einkasala á síld

Gunnar Sigurðsson:

* Jeg á hjer tvær brtt., aðra á þskj. 655, sem fer í þá átt, að þrír af þessum nefndarmönnum, sem fyrirhugað er í frv., að skuli kosnir til þriggja ára, skuli kosn-ir til eins árs. Jeg vænti þess, að hv. deildarmenn geti fallist á þessa brtt., því að fyrir mjer er hún alveg sjálfsögð. Jeg veit, að engum manni dettur í hug að ráða sjer formann til þriggja ára í senn, sjerstaklega ef um slíka óvissu er að ræða sem hjer. Jeg þykist ekki þurfa að rökstyðja þetta frekar, en það skal tekið fram, að jeg hefi flutt þetta sem brtt. við brtt. hv. minni hl. á þskj. 654, en þar sem komið getur fyrir, að þær falli, þá hefi jeg flutt aðra brtt. á þskj. 677, og er þessi brtt. þar komin inn í 2. gr.

Þá er önnur breyting, sem jeg fer fram á, sem sje sú, að í stað þess, að annar nefndarmannanna sje kosinn af Útgerðarmannafjelagi Siglufjarðar og Útgerðarmannafjelagi Akureyrar, þá sje sá maðurinn kosinn af öllum útgerðarmönnum, hvort sem þeir eru á Norðurlandi eða Suðurlandi, sem síldveiði hafa stundað árið áður en kosning fer fram. Þetta er sjálfsagt frá mínu sjónarmiði, vegna þess að mestur hluti síldarútgerðarmanna er annarsstaðar að af landinu en frá þessum tveim stöðum. Það mun láta nærri, sem mjer hefir verið sagt af sjerfróðum manni, að frá þessum stöðum sje aðeins 1/6 hluti af gufuskipum, sem síldveiði stunda, og 2/5 af öllum mótorbátum; hitt er af Suðurlandi, svo að það er að mínu áliti sjálfsögð sanngirniskrafa, að þessu sje svo hagað sem jeg hefi lagt til.

Þá er ein smávegis breyting. Það hafði fallið úr í prentuninni setningin: „í fyrsta sinn á Alþingi 1928“, og er þeirri setningu bætt inn í brtt. þar, sem hún er prentuð upp.

En breytingin, sem jeg ætlaði að minnast á, er það, að í staðinn fyrir að nefndin á að hafa aðsetur sitt fyrir norðan frá miðjum júní, þá verður það eftir minni till. frá 1. júlí. Sjerfróðir menn hafa sagt mjer, að þetta væri nógu langur fyrirvari, þar sem síldarsöltun byrjar ekki fyr en 25. júlí. En ef þetta væri of stuttur tími, þá er innan handar fyrir mennina að koma fyr.

Þá hefi jeg tekið upp brtt. við uppprentun till., um að kosningin skuli fara fram eftir reglum, sem atvinnumálaráðuneytið setur. Tel jeg það eiga heima í þessari grein, og tel jeg þetta ákvæði vera til bóta, og mun jeg svo ekki ræða málið frekar í heild sinni; aðeins skal jeg taka það fram, að það er sjerstaklega eitt í brtt. hv. þm. Borgf., sem flestar eru til bóta og sem jeg legg mikla áherslu á, sem sje það, að leggja ¾% í varasjóð til markaðsleita. Það er nú svo, að jeg er viss um það, að Íslendingar hafa ekki á undanförnum árum athugað það nógu rækilega að leita nýrra markaða og leggja meira til þess af hvaða afurðum landsins sem er, en þeir menn, sem unnið hafa að því starfi, eiga miklar þakkir skildar fyrir það, því að það er þarft verk að vekja at- hygli annara þjóða á okkar góðu vörum, sem lítið eru þektar, og þá sjerstaklega síldin. Jeg talaði einu inni við Skota, sem þekti vel síldina okkar, og sagði hann, að hún myndi, þegar tímar líða, verða heimsvara, vegna þess hve feit hún væri. Jeg vona því, að þessi brtt. hv. þm. Borgf. verði samþykt.

*Ræðuhandr. óyfirlesið.