02.04.1928
Neðri deild: 63. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 4078 í B-deild Alþingistíðinda. (3598)

77. mál, einkasala á síld

Ásgeir Ásgeirsson:

Hv. 1. þm. S.-M. andmælti brtt. minni á þskj. 616, um það að fella í burtu matsákvæðin úr einkasölufrv. Jeg er þess fullviss, að það er ekki rjett að taka nú matið úr höndum ríkisvaldsins; kjöt-, ullar- og fiskmat er nú í höndum ríkisvaldsins, og matið er stimpill ríkisins á hinni útfluttu vöru. Jeg sje ekki neinar líkur til þess, að einkasalan ætti að geta framkvæmt þetta mat betur en ríkisvaldið, og jeg sje ekki betur en að einkasalan geti fengið öllum sínum skynsamlegu óskum um breytingar á matslögunum framgengt hjá ríkismatinu.

Nú liggur fyrir hv. Ed. frv. um síldarmat, sem er vel undirbúið og hefði átt að halda áfram gegnum þingið að þessu sinni, enda er ekki útilokað, að svo geti orðið, enda þótt nú sje áliðið þingtímans. En hvort sem það verður eða ekki, þarf ekki að efa, að þing og stjórn verði fús til að herða á matinu eftir óskum þeirra, sem eru kunnugastir atvinnuveginum.

Hitt er aðalatriðið, að yfirmatsmennirnir sjeu hjer eftir sem hingað til skipaðir af ríkisstjórninni í fastar stöður, en ekki hringlað með þá til og frá, eftir því hverjir skipa stjórn einkasölunnar. Það er alveg óþarfur ótti, að ef mín till. verður samþykt, þá sje matið með öllu tekið úr höndum einkasölunnar og lagt undir yfirmatsmennina, því að jeg fjelst á í samráði við hv. flm., að einkasalan eða framkvæmdarstjórar hennar skuli skipa umboðsmenn í verstöðvum, þar sem þurfa þykir. Jeg þykist vita, að svo mikið samstarf muni verða milli forstöðumanna einkasölunnar og yfirmatsmanna, að ýmist verði umboðsmenn þessir gerðir að undirmatsmönnum eða undirmatsmenn verði valdir sem umboðsmenn einkasölunnar. Mín till. miðar að því að halda því fyrirkomulagi um yfirmatsmenn, sem nú er, en ekki matsreglunum. Má auðvitað alveg eins ráða bót á matsreglunum, þótt ríkisvaldið ráði yfir matinu. Jeg álít, að fullsnemt sje að afnema afskifti ríkisvaldsins af þessum málum þegar og tel rjettara, að einkasalan fái að reyna sig í nokkur ár fyrst. Hinu skal jeg ekki halda fram, að ekki geti verið rjett að fá einkasölunni matið í hendur síðar, þegar festa er komin á hana, en þó tel jeg heppilegra, að ríkisstjórnin skipi jafnan yfirmatsmennina, en einkasalan sje hinsvegar látin greiða kostnaðinn við matið. Brtt. mín á þskj. 616 fer fram á, að núgildandi skipun um yfirmatsmenn haldist. Óska jeg, að brtt. verði borin upp í einu lagi.