02.04.1928
Neðri deild: 63. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 4092 í B-deild Alþingistíðinda. (3602)

77. mál, einkasala á síld

Frsm. meiri hl. Sveinn Ólafsson):

*

Jeg mun nú reyna að haga svo orðum mínum, að þau verði ekki til þess að flæma hv. þdm. úr sætum sínum. Mun jeg því sleppa því að svara þeim hnútum, er mjer hafa verið sendar frá því er umr. þessi hófst, því þær skifta hvort sem er ekki miklu máli, og halda mjer við aðalefni þessa máls.

Tveggja atriða hefir mjer þótt gæta mest í umr. um þetta mál, fyrst við 2. umr. og svo aftur nú við 3. umr. Annað var óttinn við það að styggja Svía og eiga svo á hættu, að markaðinum í Svíþjóð yrði lokað. T. d. talaði hv. þm. Dal. mjög um þetta, og það ekki aðeins einu sinni, heldur jafnvel þrisvar, eins og hann komst sjálfur svo heppilega að orði áðan. Hann sagði, að mjög mikil hætta væri á því, að síldarhringurinn sænski mundi halda verðinu niðri þar til einkasalan hefði selt alla síldina, en þá mundi verðið stíga. En hvernig ætla þeir að halda verðinu niðri? Það geta þeir ekki gert nema með því að bjóða hana út með lágu verði. Mjer finst því svona viðbárur þess eðlis, að ómögulegt sje að taka tillit til þeirra. Annars er þessi ótti við Svíana hinn mesti misskilningur og bábilja, því hjer hefir þegar verið lögfest skipulag á þessu í 2 ár. Og ef þeir hefðu á einhvern hátt ætlað að láta reiði sína bitna á okkur, þá hefði það átt að koma strax í ljós. Það, sem nú er um að ræða, er ekki annað en það, að verið er að breyta fyrirkomulaginu á því skipulagi, er tekið var fyrir árum.

Hitt atriðið, sem fyrst og fremst var lögð áhersla á, var það, að markaðurinn mundi offyllast vegna veiða útlendra manna. Jeg mintist á þetta fyr í dag og benti á, að þessi hætta er minni en menn halda. Verndin fyrir okkur liggur í áhættu útlendinganna, sem þurfa að sækja svo langa leið, og eiga það svo undir stopulli veðráttu, hvort þeir geta verkað afla sinn, ef mikið berst að. Allir sjá, hverjum erfiðleikum það er bundið að taka á móti mikilli síld á hafi úti og verka hana á skipum, þar sem aðeins eru fáir menn. Það kemur oft fyrir, að nauðsynlegt er að magadraga síldina eða kverka, svo að hún geti orðið boðleg vara. En það verður ekki gert í snatri, nema margt fólk sje tiltækt. — Þetta, og þó einkum veðráttan, veldur því, að útlendingar munu trauðla sækja fast að auka flota sinn hjer við land, einkum ef þeir eiga ekki kost á að selja ótakmarkað í bræðslu. En það er á valdi stjórnarinnar, hve víðtækar heimildir eru gefnar í því efni.

Það er að vísu freistandi að minnast á sitthvað, sem fram hefir komið í meðferð málsins, en jeg verð að neita mjer um það. Jeg hafði eiginlega hugsað mjer að falla frá orðinu eins og við 2. umr., svo að atkvgr. gæti orðið fyr. Þó hefi jeg leyft mjer að segja þessi fáu orð, og sem frsm. verð jeg líklega jafnframt að minnast á fáeinar brtt., sem komu svo seint fram, að jeg gat eigi talað um þær í dag í framsöguræðu minni. — Þá var að vísu fram komin brtt. frá hv. 2. þm. Rang., en jeg hafði varla haft færi á að lesa hana. Síðan hefi jeg athugað hana og sje mjer ekki fært að mæla með henni, þótt hún feli í sjer eina hagfelda umbót. En að öðru leyti tel jeg hana ekki heppilega. Það eina, sem jeg tel til bóta, er að færa upphaf starfstíma nefndarinnar frá miðjum júní til 1. júlí. Að jafnaði gengur ekki útflutningshæf síld að landinu fyr en um mánaðamótin júní júlí. Því hefst hið reglulega starf nefndarinnar ekki fyr.

Brtt. á þskj. 671, frá hv. þm. Ísaf., var ekki fram komin, er jeg talaði í dag. Jeg get fallist á hana, enda þótt hún geri litla og óverulega breytingu á 7. gr. frv. Í henni felst vilyrði, sem gæti orðið reknetabátum að liði, en bindur þó ekki framkvæmdarstjórnina verulega.

Síðasta brtt. er frá hv. 2. þm. Eyf. og er á þskj. 682. Virðist mjer hún að öllu meinlaus og verð að geta þess, að þegar hún lá hjer fyrir áður, mælti jeg fremur með henni. Ef framkvæmdarstjórarnir eru alveg lausir við að taka þátt í síldarsöltun eða útgerð, er minni ástæða til að óttast hlutdrægni af þeirra hálfu.

Jeg ætlaði að vera sem fáorðastur, en áður en jeg lýk máli mínu, verð jeg þó að víkja fáeinum orðum að hv. þm. V.-Ísf. og tillögum hans á þskj. 616. Hann heldur því fram, að nauðsynlegt sje, að síldarmatið eftir lögunum frá 1919 haldist jafnframt því mati, sem til er ætlast, að einkasalan framkvæmi eða annist um. Jeg fæ ekki betur sjeð en að þá sjeu tveir tígulkóngar komnir í spilin, og verður ilt að vita, hvar verksvið eins hættir og annars tekur við. Virðist mjer með öllu óþarft að hafa þessar tvær stofnanir. Er það sumpart vegna þess, að núverandi síldarmat hefir ekki notið álits eða trausts og verið að engu haft með útlendingum, svo sem hv. þm. Borgf. tók rjettilega fram. En sumpart er það vegna þess, að af þessu lögskipaða mati hlýst algerlega óþarfur kostnaður; veit jeg ekki betur en það kosti ríkið 12–14 þús. kr. á ári. Það er að vísu ekki há upphæð, en þó er eins gott að vera laus við að borga hana, ef hjá því verður komist að skaðlausu. Mjer skilst, að framkvæmdarstjórar einkasölunnar muni hafa sterkasta hvöt til að vanda vel matið. Þeir verða starfsmenn hennar, og það hlýtur að vera sjerstakt áhugamál þeirra og einkasölunnar, að vel takist bæði matið og salan á síldinni.

Skal jeg nú láta úttalað um þetta af minni hálfu. Vil jeg ekki tefja fyrir atkvgr. eða að þreyttir þingmenn fái að leggjast til svefns. Þó mun jeg enn þrauka, ef einhverjir finna ástæðu til að kveðja sjer hljóðs.

* Ræðuhandr. óyfirlesið