20.03.1928
Neðri deild: 52. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 4124 í B-deild Alþingistíðinda. (3615)

131. mál, dragnótaveiði í landhelgi

Benedikt Sveinsson:

Okkur flm. gafst eigi tækifæri á að ræða þetta frv. frá almennu sjónarmiði við 1. umr. Það kom fyrir seint að kveldi, og tókum við þann kostinn heldur að láta það fara umræðulaust til nefndar, frekar en að tefja framgang þess. Enda höfðum við tekið það stuttlega fram í greinargerð frv., hvað rak okkur til að bera það fram. Þar var þó farið mjög fljótt yfir sögu.

Jeg hefi nú nýlega lesið í dönskum blöðum ritgerðir frá sjónarmiði þeirra manna, er mest hugsa um fiskirækt eða fiskuppeldi, um það, hvað gæti rjettlætt, að smáþjóðirnar haldi uppi svo hörðum landhelgivörnum og með svo háum sektum, sem hjer á sjer stað. Það er fyrir þá sök, að stórþjóðirnar sjá og játa, að það er nauðsynlegt fyrir veiði þjóðanna, ekki smáþjóðanna einna, heldur allra þjóða, að í landhelgi sje sem bestur friður fyrir uppeldi og uppvöxt fiskjarins. Því að þegar hinn íslenski löggjafi bannar sínum eigin þegnum veiðar í landhelgi, hlýtur það að stuðla að auknu fiskimagni, sem verður til hagnaðar fyrir innlend sem erlend skip, er hafa frjálsar veiðar í hafinu. En þetta er ein hin stærsta röksemd fyrir því, að Íslendingar láti ekki ásannast, að það sje sjónhverfing ein og blekking, að þeir hafi friðað landhelgina. En það er til lítils að banna botnvörpuveiðar, ef leyfð eru í landhelgi önnur veiðitæki, sem teljast verða eins hættuleg. Það skiftir minstu máli, hvort fiskur er veiddur í landhelgi með digrum og tjörguðum hnútamöskvum botnvörpunnar eða með hinum mjúku og mildu dragnótum, sem hv. 3. þm. Reykv. fór um svo fögrum orðum.

Sumum kann að þykja nokkuð hart að orði kveðið í greinargerðinni, er við flm. segjum, að dragnótaveiði muni vera einhver hin allra skaðlegasta veiðiaðferð, og jafnvel verri en allar þær til samans, er tíðkast hafa hingað til. En með þessum orðum miðum við ekki við það eitt, hve margir fiskar eru drepnir, heldur jafnframt við það gagn og hagræði, sem á móti kemur. Ef við tækjum hið mýksta og ljettasta silki-„slör“ og færum að slæða með því kassana á klakstöðvunum á „Bjarmalandi“, og dræpum öll laxaseiðin fyrir Þórði í Svartárkoti og Þórði í Laugarnesi og Rokstað, þá fullyrði jeg, að þetta mjúka „net“ væri ólíkt skaðlegra en hin harðasta botnvarpa. Það mundi eyðileggja grundvöllinn til nýs kyns, án þess að nokkuð kæmi á móti. Þegar skip hv. 3. þm. Reykv. draga vörpuna á djúpmiðum, er að vísu mörgum þorskinum styttur aldur. En þar kemur þó gróði á móti, og ekki stór hætta á ferðum, ef ungþorskurinn fær að vaxa upp í friði.

Hinn siðferðislegi grundvöllur fyrir landhelgigæslu Íslendinga hverfur, ef þeim sjálfum og Dönum er leyft að læðast inn í landhelgina og drepa ungviðið, þótt með silkinetjum sje. Stórþjóðirnar eru ekki svo heimskar, að þær sjái ekki, að það kemur í einn stað niður, hverskonar vörpur eru notaðar við landhelgiveiðar, ef þær eru leyfðar á annað borð. Jafnmerkur útgerðarmaður og hv. 3. þm. Reykv. ætti og að skilja, að slík rányrkja hlýtur jafnan að verða skammgóður vermir.

Þá verður og alt vandasamara og óhægra um landhelgigæsluna, ef stór og smá skip mega vera þar inni að sumum dragvörpuveiðum, en ekki öðrum. Nokkur skip hafa jafnvel bæði botnvörpu og dragnót — það get jeg fært fullar sönnur á — og mega því bregða sjer inn fyrir landhelgilínu með annað veiðarfærið utanborðs, en ekki hitt. Hvernig eiga nú varðskipin að þekkja það sundur, hvort botnvörpungur er að veiðum með dragnót eða botnvörpu? Jeg veit að vísu, að sjá má mun á því, ef tækifæri er til að athuga hreyfingar skipsins lengi á skömmu færi. En jeg hygg, að það kynni að leika nokkuð á tveim tungum, meðan varla sjest nema reykurinn einn, og því gera landvörnina miklu erfiðari og tafsamari.

Hv. 3. þm. Reykv. beitti einna mest þeirri röksemd í málinu, að hann væri sá eini þm. hjer, sem hefði vit á þessu máli. Hann væri það „autoritet“ eða einfræðingur í þessari grein, sem öllum bæri að lúta. Þetta hefði ekki komið mjer eins undarlega fyrir, ef svo hefði ekki viljað til, að jeg hafði verið á fundi með honum áður, þar sem saman voru komnir ýmsir fróðir menn um þessa hluti, þar á meðal fiskifræðingurinn. Þetta var á aðalfundi Fiskifjelags Íslands. Formaður fjelagsins vildi fá afnumin lögin um dragnótaveiðar frá 1923. En hvernig fóru leikar? — Þeir fóru þannig, að enginn einasti fundarmaður var með till. formannsins, nema hinn brjóstgóði hv. 3. þm. Reykv., sem virtist mest fylgja formanninum af því, hve hann stóð einmana uppi.

Hv. þm. var á móti þessu frv. af þeirri almennu ástæðu, að hann kvaðst vera á móti öllum bönnum og taldi öll lögbönn bera vitni um skrælingjahátt. — Það kann nú stundum svo að fara, að mishepnast kunni einhver lagasetning, meðan fáfræði á sviði þeirrar lagasetningar er mikil, en þegar þekking vex, verða þau ákvæði úr gildi numin, sem voru á vanþekkingu rexst, og önnur haldkvæmari sett í þeirra stað. En það er ekki rjett að fordæma alla lagasetningu, þótt misbrestir verði á stundum. Hjelt jeg, að hv. 3. þm. Reykv., sem sjálfur er einn af lagasmiðunum hjer á Alþingi, ætti að geta skilið það. — En þar sem um þetta frv. er að ræða, þá er það reist á þekkingu, reynslu og viti, en ekki á neinum hleypidómum, eins og sumar þær samþyktir, sem nefndar hafa verið. Þar skilur milli feigs og ófeigs.

Hv. þm. sagði, að sjómannastjettin væri nokkuð hleypidómafull. Jeg skal ekki um það segja. Jeg hygg, að henni hafi mjög vaxið þekking síðasta mannsaldur. En óneitanlega virðist þó, sem nokkuð sitji eftir af þessum hleypidómum hjá hv. 3. þm. Reykv. Mjer fanst hann sanna það með ræðu sinni.

Jeg hafði hálfgaman af því, þegar hv. 3. þm. Reykv. var að veifa vísindunum og hæla fiskifræðingi landsins fyrir það, sem hann hefði skrifað um þetta mál. En á áðurnefndum fundi Fiskifjelagsins „heltu þeir sjer yfir“ fiskifræðinginn, hv. þm. og formaður Fiskifjelagsins, vegna skoðana hans á dragnótaveiðum. En hann sat við sinn keip. — Jeg vil ekki særa hv. þm. neitt, þó jeg skýri frá því, sem gerðist á þeim fundi um þetta mál, enda var það opinber fundur, sem öllum fjelagsmönnum var heimilt að sækja.

Hv. þm. ljet þar í ljós, að hann vissi ekki gerla, hverja skoðun fiskifræðingur kynni nú að hafa á þessu máli, en lýsti yfir því orðskviðalaust, að hann mundi fylgja fiskifræðinginum, ef hann væri ekki orðinn annarar skoðunar — vegna nýrra rannsókna og betri upplýsinga — en þeirrar, er fram kæmi í fiskibók hans! En hv. þm. var að dylgja um skoðanaskifti fiskifræðingsins, — hann mundi þurfa að skrifa „nýjan kapítula“ í fiskibókina, og því setti þm. þennan fyrirvara um fylgi sitt við kenningar hans. Fiskifræðingurinn var nú að vísu varfærinn í umsögn sinni á fundinum. En hann sagði þó, að hann hefði verið upphafsmaður að því, að lögin frá 1923 voru sett. Hann talaði ekki mikið um það, hvort veiðarfæri þessi væru skaðleg eða ekki. — Öll veiðarfæri eru að vissu leyti skaðleg. En hann benti á það, að Íslendingar væru ekki einir um þessa veiði; þar kæmu líka aðrir ríkari til greina. Og það atriði er alls ekki einskisvert eins og sakir standa. Jeg læt hjá líða að svara því, sem hv. þm. talaði um heimsku sjómannanna við Ísafjörð. Kvað hann þá hafa haldið, að fiskurinn mundi hræðast mótorskellina á djúpinu, og að sjómenn hafi verið jafnheimskir úti í Finnmörk á sama tíma. Slík röksemd getur ekki átt við þetta frv., því að hjer er ekki um hávaða og skelli að ræða, er hræði fiskinn, heldur veiðarfæri, sem fangar hann. Það kann að hafa verið heimskulegt hjá gömlu mönnunum hjer við Faxaflóa, þegar þeir álitu, að netin mundu hindra fiskigönguna, eða tefja fyrir henni. En það hrindir engan veginn þeirri staðreynd, að dragnætur banna göngu þeim fiski, sem í þeim lendir og drepinn er. (JÓl: Það er aldrei gert!). Það sagði hv. þm. þó áðan, því hann sagði, að fiskurinn kæmi lifandi í nótina, en ef honum er svo slept aftur lifandi, þá er dálítið torskilið, til hvers verið er að draga fyrir hann. Ef þetta væri almenna aðferðin við dragnætur, þá mætti segja, að þær væru ekki skaðleg veiðarfæri. En jeg þekki þessa aðeins eitt dæmi: Þegar Jón Sveinsson bæjarstjóri á Akureyri ljet Jótana hella fiskinum úr veiðarfærunum. Þeir voru farnir að draga nót inni á Akureyrarpolli. Þeir hjeldu því fram, að þeir hefðu sama rjett til að veiða þar sem Íslendingar, en bæjarstjóri benti þeim á, að Akureyrarhöfn væri alls ekki fiskimið. En hvort hv. 3. þm. Reykv. hellir úr öllum sínum dragnótum eða ekki, skal jeg ósagt láta. Orð hans benda þó helst til þess, þar sem hann segir, að fiskinum sje slept lifandi aftur.

Þá talaði sami hv. þm. um það, að lögin frá 1923 hefðu reynst haldlaus í þessu efni og vitnaði í Skagfirðinga, máli sínu til staðfestingar. Jeg hefi nú aldrei vitað þvílíka fáfræði hjá nokkrum löggjafa, að geta ekki greint milli tveggja alveg óskyldra laga. Önnur eru um dragnótaveiði í landhelgi, hin um hringnótaveiði fyrir síld. Þessum lagasmíðum er mjög ójafnt varið, enda sín um hvorar tegundir fiska. — Síldin er hraðfara fiskur, sem kemur upp í landhelgi snöggvast við og við. Var lítið vit í því að banna veiðina á síld þá fáu daga, sem hún gefur færi á sjer. — En með kolann er alt annað. Þetta spaka dýr liggur kyrt við botninn á sumu slóðum löngum tímum saman og má því gersópa honum upp með dragnótum þar sem hann elst upp og hefst við innfjarða.

Þá sagði hv. þm., að íhaldssömu mennirnir vildu „geyma“ kolann, en þeir yngri nota hann. Þessi ummæli eru gripin úr lausu lofti. Bæði ungir og gamlir bera skyn á það, að skaðlegt sje að uppræta ungviði á uppeldisstöðvunum með uppgripatækjum. Dragnótaveiðarnar nyrðra undanfarin ár hafi valdið því, að fram hafa komið margar kröfur um friðun samkvæmt heimild dragnótalaganna, en þær hafa ekki verið teknar til greina af stjórnarvöldunum, — líklega vegna ókunnugleika og svo andróðrar frá formönnum Fiskifjelagsins. — Jeg hefi fengið margendurteknar áskoranir úr mínu kjördæmi um að herða á lögunum. Þar hafa 4–5 skip legið inni í landhelgi við veiðar tímunum saman, flest útlend. Á Fiskifjelagsfundinum var því haldið fram, að Danir væru að hætta við þessar veiðar hjer. En daginn eftir kom símfregn um það, að Petersen í Esbjærg ætlaði að gera út hingað 8–10 skip til veiða. Sumum þessum skipum hefir verið haldið út til veiða áður hjer við land. Hafa sýslumenn sektað sum þeirra, því að skipshafnirnar hafa reynst nokkuð enskari en samrýmanlegt þyki íslenskum lögum. Nú verður væntanlega meir vandað til þjóðernisins.

Hv. þm. sagði, að Danir hefðu haft mikið gagn af þessari veiði og að þeir hefðu byrjað að stunda hana fyrir 70 árum, en ekki 50, eins og sagt hefði verið. En sú villa er þá höfð eftir því, sem „autoritet“ hv. þm. hjeldu fram á Fiskifjelagsfundinum í vetur. — Það verður því óvíst, hvort rjettara er, en skiftir oss litlu. En hv. þm. sagði, að hjer við land hefðu dragnótaveiðar verið stundaðar um 30 ár og ekki reynst arðvænlegar. Hvað er hv. þm. þá að lofsyngja þeim „framfaramönnum“, sem fyrstir reyndu þetta veiðarfæri, úr því að það hefir ekki reynst Íslendingum arðvænlegt, heldur til einbers tjóns? Það bætir ekkert fyrir dragnótunum, þótt Tryggvi Gunnarsson hvetti menn til að reyna þær, úr því að þær reyndust óarðvænar. Honum gat og missýnst sem öðrum. Það er alkunnugt, að sami maður stóð mjög á móti botnvörpuútgerðinni í fyrstu og tafði fyrir því máli um heilan áratug. Hefir landsmönnum þó orðið svo miklu meira gagn af botnvörpuveiðum en dragnótaveiðum, að ekki er saman að jafna. Um nytsemi botnvörpuveiðanna er ekki deilt, þótt rjett þyki að friða landhelgina fyrir þeim.

Þá talaði hv. þm. um, að það hefði verið álit danskra fiskifræðinga, að Íslendingar kynnu ekki að veiða kola, og í sambandi við það kom hann með þá kenningu, að svo mikið væri af kola í landhelginni, að horfði til vandræða. En þegar skarkað hefir verið um allar víkur og voga, þá er veiðin fljótlega þrotin. Þetta hefir verið gert í Englandi, og því er kolinn þar orðinn svo smár, að þeir veiða hann og flytja hann lifandi út í djúpið, sleppa honum þar og láta hann stækka. En vjer getum látið hann sjálfan um það að flytja sig út fyrir landhelgina og veitt hann þar í botnvörpur. Hv. þm. telur, að vjer fáum lítið af aflanum með því móti, en hann verður að gæta þess, að vjer fáum ekki meira en 1/20–1/30 hluta af því, sem aflað verður í landhelginni. Hitt munu Danir hirða, meðan nokkur skepna er til. Reynslan sýnir, að þeir, eða aðrir í þeirra nafni, hafa mestmegnis stundað hjer dragnótaveiðarnar í landhelgi og líklegt, að svo verði framvegis, þar sem þeim er sú veiðiaðferð tamari en Íslendingum. En jeg get vel skilið það, að hinn þrautreyndi útgerðarmaður, háttv. 3. þm. Reykv., kunni því vel, að frændur vorir Danir hafist við inni á fjarðarbotnum í blíðunni, en Íslendingar, afkomendur hinna fornu víkinga, sjeu á Halanum innan um hafísa eða stórsjói, og dorgi þar, ef takast mætti að slíta upp einhverja brönduna, er sloppið hefði gegnum möskva hinna silkimjúku og voðfeldu veiðivjela Dana við landsteina vora. Þá talaði hv. þm. um það, að fyrst þegar farið var að veiða kolann, þá hefði hann eingöngu verið veiddur hjer til matar, en nú væri hann útflutningsvara, sem nauðsynleg væri vorum skuldunautum erlendis. Jeg veit nú ekki, hvort þetta beri að skilja svo, sem samið hafi verið við Dani um greiðslu á lánum þeirra í kola, veiddum í dragnót í landhelgi. Það væri gaman að fá sundurliðað, hve mikið af slíkum kola vjer eigum að láta í afborganir og hve mikið í vexti. Líklega hefir þó einhver önnur hugsun legið að baki orðum þm., og vil jeg síst snúa út úr fyrir honum.

Jeg tel þá óþarfa að lengja þetta mál. Jeg ber fult traust til hv. þdm., að þeir láti skynsemi og góðan vilja ráða um afdrif þessa máls.

Hv. þm. Vestm. talaði mjög hóglega og fjelst á aðalatriði frv. Um brtt. hans og hv. 2. þm. G.-K. tel jeg vera álitamál. Hygg þó frekar, að hún spilli frv. en bæti það, og mun því greiða atkv. gegn henni.