20.03.1928
Neðri deild: 52. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 4133 í B-deild Alþingistíðinda. (3616)

131. mál, dragnótaveiði í landhelgi

Jón Ólafsson:

Fyrst hv. frsm. sjer ekki ástæðu til að taka til máls, þá ætla jeg að segja nokkur orð. Frá mínu sjónarmiði er það nú svo, að það, sem fram hefir komið í þessu máli, samsvarar fyllilega undirbyggingunni. Hún var bygð á sandi, og þá hefir yfirbyggingin vitanlega verið reist á því sama efni. Annað hefir heldur ekki komið fram frá hv. þm. N.-Þ. Ræða hans var að mestu leyti smáútúrsnúningar, sem lítil þörf er á að svara orði til orðs. Það má þó minna á það, að í Englandi var nokkur hreyfing í þá átt að friða kolann. En þeir hurfu þó fljótt frá því ráði. Því er nú svo farið með kolann, að hann lifir ekki nema 12–14 ár. Ef hann því ekki veiðist á þeim tíma, þá deyr hann og verður engum að notum.

Þá þykir hv. þm. N.-Þ., sem þetta veiðarfæri muni vera dálítið lúmskt og muni það vera lítið betra en botnvarpan. Hann segir, að það sje þjettriðið og mjúkt, og lýsti hann því með mörgum velvöldum orðum, sem jeg hirði ekki að hafa upp eftir honum En það var helst að heyra á honum, að hann hjeldi, að það væri að flestu líkt botnvörpunni. En það er svo, og finst mjer, að hv. þm. hefði átt að vita það, að þetta veiðarfæri er mjög ljett — líklega ekki yfir eina vætt —, en botnvarpan er útbúin með þungum járnkeðjum, trjerúllum og hlerum, sem skera sig niður í botninn. Og sje það leirbotn, þá oft margar tommur niður í leirinn. En þetta veiðarfæri, dragnótin, er aftur á móti svo ljett, að ekki er saman berandi við botnvorpuna. Ennfremur sagði hann, að hún eyðilegði gróðurinn í botninum. Er svo að sjá, sem þessi þm., eins og fleiri, sem lítið þekkja til fiskveiða og fiskifræði, haldi, að fiskurinn gangi á beit á sjávarbotni, líkt og kindur og kýr á landi. En það er svo, að kolinn, sem aðallega er veiddur með þessu tæki, heldur sig helst þar, sem sandbotn er og því lítill sem enginn gróður. Hann grefur sig niður í sandinn, þegar rok ganga, og næst þá ekki í „snurrevaad“, en botnvarpan þrýstir honum upp úr sandinum, og það er því hún, en ekki „snurrevaaden“, sem mest eyðileggur botninn. Þetta segja vísindin, og jeg held, að það megi taka það til greina.

Það má vel vera, að ákveða megi stærð möskvanna í dragnót, en það sýnist sæmileg stærð, er tveggja til þriggja ára fiskur smýgur nótina, og halda fiskifræðingar, að slík nót geri ungviðinu lítið mein. Danir hafa sett það í lög, að ekki má flytja í land nema þann fisk, sem nær vissu stærðarmarki. Minna fiski eru fiskimenn skyldir, að fleygja og eru sektaðir, ef út af er brugðið, Veit jeg ekki annað en að þær reglur sjeu vel haldnar.

Þá heyrðist mjer hv. þm. halda því fram, að þetta frv. mundi verða nokkuð til að friða landhelgina og það gæti borið uppi strandvarnirnar, ef við eldum þessar dýru tegundir þannig upp til að freista útlendinga til að fara í landhelgina. Jeg veit ekki, hvort hann hefir meint þetta, en það kom svona út hjá honum. Jeg verð því að skilja hann svo, að hann álíti, að friða eigi landhelgina fyrir landsmönnum sjálfum, en ala upp fiskinn handa útlendingum. En jeg er þeirrar skoðunar, að við eigum að verja landhelgina með öflugum skipum, en leyfa landsmönnum að hagnýta sjer hana eftir bestu getu. Þó enn sje erfitt að hagnýta sjer þessa fisktegund, sökum skorts á íshúsum, þá eru þau nú sem óðast að rísa upp, svo að fljótlega ætti að rakna úr því. En sje byrjað að banna veiðina nú, þá er þar með tekið fyrir þessar framkvæmdir, og verð jeg að telja það illa farið. Því margt bendir til þess, að þetta sje framtíðarveiðiaðferð.

Þá vitnaði hv. þm. í aðalfund Fiskifjelagsins, þar sem jeg hafi verið í minni hluta og haft fiskifræðing landsins á móti mjer. En jeg held, að það sje ekki hægt að leggja mikið upp úr því, sem fiskifræðingurinn sagði þar, því að þegar hann hafði sagt, að dragnótin væri skaðleg, þá knúði jeg það fram hjá honum, hvaða veiðarfæri væru þá yfirleitt skaðleg, og svaraði hann þá, að það væru öll veiðarfæri, „sem dræpu fiskinn“. Það er rjett, að jeg hafi verið þar í minni hluta, og stóðu þar á móti Strandarmenn og Innnesjungar, sem hjeldu þar uppi vörn fyrir sinni gömlu hugsjón að friða. En meðan á fundinum stóð, bárust honum tilmæli frá um 30 Keflvíkingum um að friða ekki. Þetta eru yngri mennirnir, þeir kjarkmeiri og bjartsýnni, sem ekki eru trúaðir á það, að dragnótin eyðileggi ungviðið og spilli fiskigöngum.

Það getur vel verið, að ástæða sje til þess að vera hræddur við Dani, að þeir gleypi það gagn, sem við gætum haft af þessari veiðiaðferð. Ef dæma má eftir því, sem Danir hafa gert hjer hingað til, þá er ekki ástæða til að óttast þá, því að þeir hafa aldrei getað sótt gull í greipar okkar. Og þó nokkrir menn hafi nú verið að tala um að mynda hlutafjelag, þá gera þeir það mest í þeim tilgangi að stofna hlutafjelag utan um sjálfa sig, en ekki vegna hagnaðarvonar af veiðunum.

Jeg tel alls ekki rjett að vera að setja þjóðina í þann gapastokk að banna þessa veiði, til þess eins að koma í veg fyrir það, að Danir geri tilraun með hana hjer.

Menn hafa haldið því fram, að Danir væru að koma hingað vegna þess að fiskveiðarnar heima fyrir hjá þeim væru að ganga til þurðar, en það er mikill misskilningur. Samkvæmt dönskum fiskiskýrslum frá 1925 hafa fiskveiðar þeirra það ár numið 38 miljónum shillinga. Er þetta háa verð mest fólgið í því, að þeir veiða dýrar fiskitegundir, sem eru hálfu meira virði en okkar fiskafurðir eru. Jeg hefi í höndum skýrslu frá 1914, sem sýnir einnig, hve mikils virði danskar fiskafurðir hafa verið þá. Af þessum skýrslum að dæma virðast danskar fiskveiðar altaf vera að aukast, þótt meðmælendur frumvarpsins segi, að þær sjeu altaf að minka.

Með tíð og tíma má ætla, að við getum hækkað okkar fiskafurðir í verði, með því að taka upp dragnótaveiðina. Þá halda flutningsmenn því fram, að veiðin hafi alveg horfið síðan þessi veiðiaðferð var tekin upp hjer á þeim slóðum, sem hún hefir verið stunduð. Mjer finst ekki ástæða til að ætla, að þessi veiði sje alveg horfin frá landinu, þó að á Austfjörðum hafi verið dregnar upp nokkrar kolabröndur um aldamótin. Jeg geri mjer mikla von um, að þessi veiði verði okkur til gagns, ef hún yrði tekin upp hjer, og sjálfsagt sje að reyna hana til hlítar. Í sambandi við það, að jeg nefndi Tryggva Gunnarsson sem forgöngumann þessara veiða, sagði hv. þm. N.-Þ., að ekki væri mikið leggjandi upp úr því, sem Tryggvi hefði sagt um þessi mál, því að hann hefði t. d. staðið á móti togaraútgerð í 10 ár. Jeg held, að þetta sje ekki rjett; að minsta kosti veit jeg ekki til þess. En hitt veit jeg, að hann lánaði 10 þús. kr. til þess að gera fyrstu tilraunina með togaraútgerð hjer. Einnig lánaði hann okkur 5 eða 6 skipstjórum 20 þús. kr. til þess að kaupa togara. Jeg man, að hann hafði mjög mikinn áhuga fyrir þessu, en hann sagði, að bankinn væri ekki svo efnum búinn, að hann gæti hjálpað eins og æskilegt væri. Síðustu árin áður en hann fór frá bankanum hjálpaði hann og mjög drengilega. þessu fyrirtæki. Það er því alveg rangt hjá hv. þm., að þessi ágætismaður hafi ekki haft áhuga fyrir togaraveiðunum, og ef hann ætti nú sæti hjer í þessari hv. deild, þá mundi þetta frv. ekki verða samþ. Hv. þm. N.-Þ. var að gera gys að Englendingum fyrir það, að þeir flyttu kolann til, en menn verða að hafa það hugfast, að Englendingar eru stórir í hugsun og stórir í framkvæmd. Veit jeg að þetta er rjett, að þeir flytja kolann lifandi út á banka sína, og hefir það reynst vel. Þetta hafa þeir gert að ráði vísindamanna sinna. Þótt menn sjeu smáir og hugsi smátt, þá mega menn ekki gera gys að þeim, sem eru stórir og hugsa stórt.

Þá sagði hv. 1. þm. Árn., að kolinn væri svo spakur, að hann færðist ekkert úr stað. En þetta er ekki rjett, og fiskifræðin segir alt annað. Kolinn er farfiskur, en hitt er rjett, að hann liggur stundum kyrr, og oft sjer til óþurftar, á öðrum stöðum en þeim, þar sem uppvaxtarskilyrði hans eru best.

Hv. þm. N.-Þ. talaði um það, að jeg vildi greiða skuldir okkar við Dani með því að leyfa þeim að hagnýta sjer landhelgina. Þetta er útúrsnúningur hjá hv. þm., og nenni jeg ekki að eltast við hann. En jeg get vel skilið, að þegar engin rök eru fyrir hendi, þá freistast menn til þess að grípa til útúrsnúninga, og verður þá að taka vægt á þeim.