20.03.1928
Neðri deild: 52. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 4152 í B-deild Alþingistíðinda. (3621)

131. mál, dragnótaveiði í landhelgi

Jóhann Jósefsson:

Jeg hafði því miður ekki tækifæri ti1 að hlusta á alt, sem hv. 1. þm. S.-M. sagði, en skal þegar láta þess getið, að jeg þekki skoðun hans á málinu úr sjútvn.

Jeg skal taka fram til árjettingar því, sem jeg sagði viðvíkjandi brtt. á þskj. 520, að þær eru til orðnar til þess að gera löglega þessa veiði þeim, sem rjett hafa til hennar, á þeim tíma árs, sem hún er arðvænlegust. Jeg tel nógu langt gengið um bann í þessu efni með því, sem við leggjum til, sem stöndum að þessum brtt. Jeg tel jafnvel skaðlegt að hafa bannið víðtækara að því leyti, sem það getur skert atvinnu sjómanna á smábátum hjer við Faxaflóa og Breiðafjörð. Mjer sýnist það ætti að vera nóg til að friða hv. flm. frv. og þá, sem annars vilja fylgja banni í þessu efni, að 9 mánuði ársins væri algert bann, þó að 3 mánuðir væru undanskildir, — og einkum þegar þess er gætt, að þrátt fyrir það, þótt samþ. væri brtt. á nefndu þskj., stendur ennþá sú leið opin fyrir hin ýmsu hjeruð að innleiða bann í samræmi við núgildandi lög.

Jeg fyrir mitt leyti vil leggja áherslu á, að jeg treysti mjer ekki til að ganga svo langt í skerðingu á atvinnu sjómanna, að jeg vilji fylgja þessu banni skilyrðislaust, heldur því aðeins, að þessi brtt. verði samþ. Og það sama hygg jeg megi segja um hinn flm. brtt. (ÓTh).