16.02.1928
Neðri deild: 24. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 4161 í B-deild Alþingistíðinda. (3635)

88. mál, atvinnuleysisskýrslur

Jón Ólafsson:

Það lítur ekki út fyrir, að hv. þdm. þyki umræður þessar sjerstaklega skemtilegar, því að nú hefir hv. 4. þm. Reykv. fælt út deildina, að undanteknum einum 6–8 mönnum.

Það er nú svo, að þetta frv. er ekki í sjálfu sjer eins mikið meinleysisgrey eins og það lítur út á pappírnum. Það fer að vísu ekki fram á meira en það, að safnað sje þessum skýrslum í öllum kaupstöðum, sem hafa 300 íbúa eða meira.

Jeg held það sje flestum kunnugt, að frá því að kaupstaðir mynduðust hjer á landi, hafi ekki verið gert ráð fyrir því — enda ekki hægt að ætlast til þess, eftir legu landsins og náttúrufari —, að ekki sje svo og svo mikið af kaupstaðabúum vinnulausir öðruhvoru. Þau 30 ár, sem jeg hefi verið búsettur í Reykjavík, hefi jeg aldrei orðið var við annað, og jafnvel þó mest á árunum frá 1890 til aldamóta. Eftir að atvinnuvegirnir breyttust í seinni tíð, þannig að menn gátu stundað meira sjó að vetrarlagi, hefir nokkuð ræst úr þessu. En það er áreiðanlegt, að sjávarútvegur getur aldrei fullnægt þessari atvinnuþörf, sem hjer er að vetrinum; verksmiðjuiðnaður einn dygði til þess. Þetta er öllum ljóst, sem nokkurn skapaðan hlut hafa hugsað um það frá öðru sjónarmiði en að safna skýrslum. Menn vita, að svona er þetta og svona hlýtur það að vera, þangað til bætt verður úr með auknum verksmiðjuiðnaði í bæjum í stærri stíl en nú er.

Það hefir dálítið verið gert að því að safna þessum atvinnuleysisskýrslum hjer í Reykjavík, og síðast 1926. Það var það allra versta ár, sem komið hefir yfir þennan bæ. En þó var í raun og veru ekki svo mikið að græða á þeim skýrslum. Atvinnuleysi var að vísu nokkuð mikið, en það kom líka stundum í ljós, að sumir þeirra, sem gáfu sig fram við skýrslusöfnunina, höfðu atvinnu, nema ef til vill þann daginn, sem skýrslan var tekin. Út frá þessu get jeg ekki sjeð, að raunverulega sje hægt að fá áreiðanlegar skýrslur.

Hjer í bæ var safnað skýrslum í þessu efni í september 1926, og voru nokkrir þá atvinnulausir, en um sama leyti var talsverð eftirspurn eftir fólki víða úti um land, bæði við heyskap og ýms jarðyrkjustörf, langt fram á haust. Hugsunarhátturinn er nú orðinn sá, að verkamenn hjeðan vilja ekki sæta vinnu í sveit, þó að sæmilegt kaup og ágætis viðurværi bjóðist. Þessar atvinnuleysisskýrslur auka á ýmsan hátt ómensku einstaklinganna; þegar þeir hafa látið skrásetja sig, bíða þeir von úr viti eftir þeim atvinnubótum, sem þeim hefir ef til vill verið sagt, að hið opinbera mundi og ætti að láta þeim í tje, og hætta þá um leið að bera sig sjálfir eftir þeirri björg, sem unt er að fá víðsvegar úti um land. Þessar vonir um atvinnubætur, ásamt fleiru, stuðla að því, að fólkið flytur úr sveitinni og sest að á mölinni við sjóinn.

Það er kannske ekki hægt að segja annað en að því opinbera beri skylda til að hafa auga með atvinnuleysi manna og reyna að vinna bót á því á skynsamlegan hátt. En reynslan hefir orðið sú, að þegar búið er að safna þessum skýrslum, þá er tekið til þeirra örþrifaráða að láta atvinnuleysingjana vinna eitthvert „óplanlagt“ verk, sem engan eða lítinn arð gefur. Og sú hugsun virðist mjer liggja á bak við þetta frv.

Út frá því vildi jeg þá taka fram sem mína skoðun, að jeg get ekki hugsað mjer, að ríkið gangi nokkru sinni svo langt að styðja atvinnubætur í kaupstað, sem lítið eða ekkert er upp úr að hafa. Hitt er annað mál, og ekki nema sjálfsagt, að gefa því vel gætur, að fólkið safnist þar ekki saman, sem lítið eða ekkert verkefni er handa því, eins og því miður er alt of áberandi hjer í Reykjavík. Enda er auðsætt, að eigi Reykjavík að haldast við með því innstreymi fólks, sem hingað er árlega, þá getur það orðið með því eina móti, að stofnað verði hjer til verksmiðjuiðnaðar í stórum stíl. Að ríkið fari að leggja þeim mönnum til eyðslueyri, sem stopula eða enga atvinnu hafa, getur ekki komið til mála.

Fyrir þinginu í fyrra lá frv., sem gaf mönnum vonir um atvinnu í stórum stíl, og á jeg þar við fossavirkjun „Titans“ og járnbrautarbyggingu austur yfir fjall í því sambandi. Jeg man ekki betur en að sá hv. þm. jafnaðarmanna (HjV), sem sæti átti þá hjer í deildinni, legðist á móti því, og hefði maður þó getað vænst annars af honum. En hann hefir kannske hugsað sem svo, að þessi stóriðnaður myndi ekki komast í framkvæmd, og getur það satt verið; en engu að síður bar honum þó skylda til, sem þm. atvinnuleysingjanna, að leggja slíku stórmáli liðsyrði.

Þessar atvinnuleysisskýrslur, sem safnað hefir verið undanfarið hjer í bæ, hafa gefið mörgum mönnum vonir um atvinnubætur, en þær vonir hafa ekki rætst, og geta ekki rætst, af þeirri einföldu ástæðu, að bærinn getur tæplega sjeð sínum mönnum fyrir atvinnu, hvað þá öðrum óviðkomandi. Hjer er ekkert útistarf hægt að vinna að vetrinum, og upp á annað er ekki að bjóða, eins og allir vita. En þetta umtal um atvinnubætur hefir átt sinn þátt í því að draga fólkið til bæjarins. Og eftir því sem fólkinu fjölgar, verður það óhjákvæmilegt, að hjer rísi upp verksmiðjuiðnaður í ýmsum greinum, og það er það eina, sem gera má sjer vonir um, að bætt geti úr atvinnuleysinu.

Sem sagt, jeg get ekki sjeð eða skilið, hvaða gagn þessi skýrslusöfnun á að gera. Öllum er ljóst, að atvinnuleysi er bæði hjer og annarsstaðar á landinu í allflestum sjóþorpum. En úr því bæta þessar skýrslur ekki á nokkurn hátt. Jeg get ekki hugsað mjer annað en að með þessu eigi að gefa einhverjum auka-„sportlur“ fyrir að safna skýrslunum; en líklega er það ekki tilgangur margra, þó að eitthvað slíkt kynni ef til vill að vaka fyrir hv. flutningsmönnum.