16.02.1928
Neðri deild: 24. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 4171 í B-deild Alþingistíðinda. (3637)

88. mál, atvinnuleysisskýrslur

Jón Ólafsson:

Hv. þm. Ísaf. kvað svo að orði, að við værum sammála um, að atvinnuleysið væri þjóðarböl, sem þyrfti að bæta úr, ef kostur er. Það er alveg rjett, að um þetta er jeg honum sammála. En um hitt er jeg honum ósammála, að nokkur þörf sje að safna skýrslum í þessu efni. Þær skýrslur hafa altaf verið fyrir hendi frá fyrstu tíð. Allir hafa vitað og vita enn um atvinnuleysið.

Það var fyrst þegar togaraútgerðin fór að færast í aukana, að mönnum gafst kostur á miklu meiri vinnu að vetrinum en þekst hafði nokkru sinni áður.

Fyrir 30 árum var hjer varla um neina vetrarvinnu að ræða. Þá var það mjög sjaldgæft, að nokkurt skip kæmi hjer á höfnina frá því að haustskipin fóru og þangað til sigling til landsins hófst á næsta vori. En aðalatvinna verkafólks var bundin við afgreiðslu verslunarskipanna. Um aldamótin fer þetta að breytast; þá aukast siglingar til landsins og atvinna, vex í stórum stíl, svo að nú er ekki nándarnærri jafnmikill fjöldi atvinnuleysingja, hlutfallslega sjeð, eins og þegar bærinn taldi um 6000 íbúa.

Það er því algerlega rangt að segja, að ekkert hafi verið gert til þess að bæta úr atvinnuleysinu. Það hefir einmitt verið gert afarmikið. En hitt er vitanlegt, að hjer þarf margt að vinna, bæði að jarðrækt, vegagerð, húsabyggingum, eins og hv. þm. Ísaf. benti rjettilega á. En ekkert af þessu er hægt að vinna að vetrinum, svo að slíkar atvinnubætur geta ekki komið að neinu haldi.

Nei, það, sem liggur á bak við hjá jafnaðarmönnum, er ekki eingöngu það, að auka vinnuna, heldur hitt, að ríkið borgi úr sínum sjóði fyrir þá daga, sem kaupstaðabúar ganga iðjulausir.

Hv. flm. segir, að hægt hefði verið að vinna að jarðrækt, vegagerð og húsabyggingum. Jeg hjelt nú, að flestir, sem kunnugir eru hjer á landi, vissu, að jörð er oft frosin meira og minna frá því í október á haustin og fram á vor. Er því auðsætt, að ekki er hægt nema sum ár að veita mönnum þá vinnu, sem hv. flm. nefndi. Þá fyrst getur orðið um varanlegar atvinnubætur að ræða, þegar iðnaður er risinn hjer upp í stórum stíl. En jeg verð að segja það, að þeirri tilraun, sem gerð var í fyrra til þess að koma á fót stóriðnaði í landinu, var ekki tekið svo sem skyldi af sumum þeim, sem nú tala hjartnæmast um atvinnuleysið.

Því fer fjarri, að jeg vilji mæla því bót, að menn sjeu atvinnulausir. En jeg verð að fara nokkrum orðum um atvinnuleysisskýrslu þá, sem hjer hefir verið talað um. Hún er samin á árinu 1926 um haustið, einmitt á einhverju lakasta atvinnuári, sem komið hefir um langt skeið. Eins og hv. þm. Ísaf. tók fram, var þá skráður hjer í bæ 361 maður atvinnulaus; þar af voru 226 daglaunamenn og 129 sjómenn. Af þessum 226 daglaunamönnum voru 34 alveg einhleypir og 43 hjá foreldrum sínum. Fjölskyldur hinna voru sem hjer segir:

Barnlaus hjón .. 25

Hjón með 1 barn 42

— — 2 börn 29

Hjón með 3 börn 20

— — 4 — 14

— — 5 — 12

— — 6 — 3

— — 7 — 3

— — 9 — 1

Af þessu má sjá, að flestir þessara höfðu ljett hús. Aðeins í einni fjölskyldu voru 9 börn, og henni var hjálpað.

Nú er þess að gæta, að um þessa menn er það eitt vitað, að þeir voru atvinnulausir, þegar skýrslan var tekin. Engrar vitneskju var aflað um það, hve lengi þá hefði vantað atvinnu. Og hv. þm. Ísaf. gerir ekki ráð fyrir, að svo verði gert framvegis.

Tekjur fjölskyldufeðra þeirra, sem skrásettir voru, reyndust mestar 3500 kr., en minstar 300 kr. Það er að vísu rjett, að þetta eru ekki miklar tekjur. En við vitum alt of lítið um ástæður þessara manna til þess að geta fullyrt, að tekjurýrð þeirra allra stafi af því, að þeir hafi ekkert getað fengið að vinna. Það er svo um marga menn, að þeir vilja endilega vera hjer í Reykjavík. Þeim þykir það skemtilegra, og svo neita þeir vinnu úti á landi, þó að hún bjóðist. Og atvinnuleysisskýrslurnar mundu vafalaust heldur ýta undir menn að koma hingað. Altaf er nokkuð af mönnum, sem ekkert vinna, beinlínis af því að þeir nenna því ekki. Sumir geta ekki unnið vegna heilsuleysis. En um þetta þegja atvinnuleysisskýrslurnar.

Nei, atvinnuleysisskýrslurnar gefa ekki rjettar hugmyndir. Við vitum það allir, að hjer er atvinnuleysi. Og úr því verður aldrei bætt af ríkisins hálfu nema með innivinnu.

Það, sem jeg hefi haldið fram og hv. þm. Ísaf. ekki tekist að hrekja, er það, að ríkið eigi ekki að vera að káka við skýrslusöfnun og atvinnubætur, því að það gefur mönnum aðeins falskar vonir. Það er verið að telja mönnum trú um, að þeir geti fengið atvinnu, ef þeir bara heimti hana. En bæði jeg og aðrir, sem eitthvað þekkjum fjárhagsafkomu þjóðarinnar, vitum, að eitthvað þarf að gera annað en heimta. Það verður að leggja hönd á framkvæmdir. Það má nú með sanni segja, að mikið sje búið að gera í landinu á þessari öld. En ef ríkið fer að leggja fram fje til annars en nytsamlegra fyrirtækja, verður það aðeins til þess að vekja hjá mönnum falskar vonir.

Jeg nenni ekki að eltast við það, sem hv. þm. Ísaf. misskildi í ræðu minni. Og jeg ætla ekki að fjölyrða um þær atvinnubætur, sem gerðar hafa verið handa sjerstökum mönnum. En það er rjett, sem jeg benti hv. 4. þm. Reykv. á, að blað jafnaðarmanna hefir hvað eftir annað gefið fólki undir fótinn að safnast til Reykjavíkur. Og einn maður úr flokki þeirra hefir m. a. sagt, að hjer gætu allir landsmenn lifað og hingað ættu þeir að koma. Jeg veit ekki, hvað getur hvatt fólk til að flytjast hingað, ef það eru ekki svona ummæli. Væri almenningi aftur á móti sýnd sú rjetta hlið á ástandinu hjer, og það væri jafnaðarmönnum sæmra að gera, má vera, að fleiri gættu að sjer en nú gera þeir. En jafnaðarmennirnir telja fólki þvert á móti trú um, að allir geti verið hjer. Svo mjög bregðast þeir skyldu sinni. En á meðan atvinnan eykst ekki í bænum, er innflutningurinn aðeins til þess að skifta í fleiri staði þeim alt of fáu dagsverkum, sem hjer er að fá. Aðalatriðið í þessu máli er það að koma í veg fyrir, að of margir setjist að sama aski. Þá fyrst gerðu jafnaðarmenn skyldu sína, ef þeir reyndu að hindra það.

Svo ætla jeg ekki að lengja umræðurnar meira en orðið er, enda býst jeg ekki við, að hv. þdm. þyki þær svo skemtilegar, að það sje fært. Hefi jeg því ekki fleiri orð um þetta nú, og vildi helst ekki þurfa að svara aftur.