16.02.1928
Neðri deild: 24. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 4175 í B-deild Alþingistíðinda. (3638)

88. mál, atvinnuleysisskýrslur

Haraldur Guðmundsson:

Jeg skal vera mjúkhendur á hv. 3. þm. Reykv. En jeg verð þó að benda honum á það, að hann heldur fram alröngu máli, þegar hann segir, að við jafnaðarmenn höfum hvatt fólk til að flytja hingað til Reykjavíkur. Hann hefir líka viðurkent það sjálfur, að þessi ásökun hans á hendur jafnaðarmönnum er röng. Má honum og vera það kunnugt, að breyting atvinnuhátta hefir mestu valdið um flutning fólks hingað. Sjálfur sagði hann, að fólkið hefði komið af því að togurunum hefði fjölgað. Og það er alveg rjett. En hitt er kórvilla, að atvinnurekendur hafi fjölgað togurunum af eintómum brjóstgæðum, til þess að veita mönnum atvinnu. Auðvitað hafa þeir gert það sjálfum sjer til hagsbóta, í gróðaskyni, en ekki til annars. Og sönnunin fyrir því er sú, að þeir hafa látið skipin standa uppi um hábjargræðistímann, án þess að taka tillit til þess að með því sviftu þeir fjölda manna atvinnu. Og það er í meira lagi kynlegt hjá hv. 3. þm. Reykv., sem þykist harma svo mjög innflutning fólks til bæjarins, að hann skuli, í hvert skifti, sem deilt er um 5 aura kaupmismun við verkafólkið, láta smala fólki út um allar sveitir hingað til Reykjavíkur. En það er sannanlegt, og honum þýðir ekki að neita því, að þetta hefir hann gert hvað eftir annað.

Hv. þm. er kunnugt um aðra ástæðu, sem veldur því, að fólkið yfirgefur sveitirnar. Hún er sú, að mestur hluti veltufjárins í landinu hefir safnast hjer fyrir. Verkafólk, sem ekki er þess umkomið að reisa bú, leitar auðvitað þangað, sem fjeð er fyrir hendi til að borga með vinnu þess. Úr þessu verður best bætt með því að veita bændum lán, svo að þeir geti goldið verkafólki svipað kaup. En það er að sumu leyti dálítið undarlegt, að hv. þm. skuli vera þetta innstreymi til bæjanna svo mikið áhyggjuefni sem hann lætur. Það hefir þó komið fótunum undir hans eigið fyrirtæki. Það hefir fært honum ódýrt verkafólk, sem ásamt starfi sjálfs hans hefir skapað auðlegð hans.

Hv. þm. segir, að það sje ekki nóg að heimta. En hann má vita það, að það er heldur ekki nóg að segja, að ástandið sje vont. Menn verða að kynna sjer það, til þess að geta ráðið bót á því. En því er þessi hv. þm. andvígur. Það snertir líka annað mál, sem honum er ofur viðkvæmt, þ. e. kaupgjaldsmálið. Því meira framboð, sem er á verkafólki, því lægra kaup kemst hann af með að greiða. Atvinnuleysi gefur atvinnurekendum ávalt von um ódýra vinnu.

Hv. þm. gat þess í sambandi við atvinnuleysisskýrsluna frá 1926, að þá hefði verið hægt að fá atvinnu úti um land. sje þetta rjett hjá honum, styður það mitt mál. Ef skýrslurnar hefðu sýnt, að einhversstaðar var atvinnu að fá, hefði fólk leitað þangað. Það getur auðvitað altaf komið fyrir, að á einum stað vanti verkefni, en á öðrum fólk. Úr því eiga atvinnuleysisskýrslurnar að bæta.

Hv. þm. segir nú, að innstreymið í bæinn stafi af því, að fólki þyki skemtilegt að vera í Reykjavík. Jeg segi nú bara: Trúi þeir, sem vilja. Jeg held samt, að veran hjer sje ekki sjerstaklega skemtileg fyrir þá, sem eru atvinnulausir og þar af leiðandi bjargarlausir. Hann viðurkendi það, að 300 kr. væru ekki miklar tekjur. En 1200–1500 kr. eru heldur ekki miklar meðaltekjur, og menn lifa engu höfðingjalífi, í svalli eða skemtunum af þeim hjer í Reykjavík.

Þá sagði hv. þm., að samflokksmaður minn, sem í fyrra átti sæti í þessari hv. deild, hefði verið á móti Titan sjerleyfinu, og með því lagst á móti því, að verkamenn fengju atvinnu. Jæja, stjórnin fjekk nú heimild til að veita Titan sjerleyfið, þrátt fyrir mótstöðu þessa hv. þm., en atvinnan er ekki komin enn. Og ef hv. 3. þm. Reykv. ætlar að bíða eftir því, að Titan sjái um atvinnubæturnar, held jeg, að fáir hv. þdm. geti orðið honum samferða, eða rjettara sagt sambiða.