18.02.1928
Neðri deild: 26. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 4181 í B-deild Alþingistíðinda. (3641)

88. mál, atvinnuleysisskýrslur

Jóhann Jósefsson:

Það hefir nú verið rætt talsvert um frv. þetta, sem virðist geta átt við, ef miðað er við ástandið hjá öðrum þjóðum, þar sem stóriðnaður er rekinn. En þau form í atvinnurekstri, sem við eiga hjá þeim, eiga ekki ávalt við hjer hjá oss. Jeg vil ekki segja, að óþarft sje að öllu leyti að safna slíkum skýrslum sem þessum, nje heldur að hinu opinbera sje gangur atvinnulífsins óviðkomandi. Jeg lít svo á, að hinu opinbera sje skylt að greiða fyrir atvinnulífinu á allan hátt með viturlegri löggjöf. En sú löggjöf á ekki fremur að greiða götu einnar stjettar en annarar, en það er einmitt það, sem þeir, sem standa að þessu frv., virðast oft gleyma.

Jeg tók svo eftir, að hv. flm. segði, að ekki væri tilætlunin með þessu frv. að gera kröfur til hins opinbera. Það er þó þegar gert með því að leggja því kostnað á herðar með skýrslusöfnuninni. Hv. flm. hefir líklega átt við, að ekki væri ætlast til, að ríkissjóður legði fram fje til atvinnubóta. Það er að vísu gott að hafa þessa yfirlýsingu, en ef litið er til reynslu undanfarinna ára, þá hefir mjer virst sækja í það horf hjá jafnaðarmönnum hjer eins og annarsstaðar, að knýja á opinbera sjóði til að leggja fram fje í atvinnuleysi. Þetta getur að vísu verið nauðsynlegt, þegar sjerstaklega stendur á. En jeg verð að taka undir það með hv. 3. þm. Reykv., að ástæða er til að ætla, að þetta verði til að gefa mönnum undir fótinn um innflutning í kaupstaðina, að það verði til að ala upp í mönnum þá trú, að hið opinbera útvegi mönnum vinnu, ef ekki vill betur til. Það er þetta, sem mjer finst hættulegt við frv. Stærri kaupstaðir landsins eru þegar of fullir af fólki, og atvinna af skornum skamti. Það er því síður en svo, að vert sje að gera gyllingar til að fá fólk til að flytja í kaupstaðina.

Hv. 1. flm. var að tala um, til hverra meðala yrði tekið, er fyrir lægju skýrslur um mikið atvinnuleysi. Leit hann svo á, að ekki yrði gripið til þeirra ráða að láta ríkissjóð og bæjarsjóði leggja fram fje, heldur að skipulagsbinda atvinnuvegina. Mjer er nú ekki ljóst, hvað hv. flm. á við með þessu, þegar sannað er, að fólkið er orðið alt of margt, svo að tveir menn eru um hvert verk, sem einn getur unnið. Mjer þætti fróðlegt að fá skýringu á því. Jeg held, að hjer sje aðeins um orðaleik að ræða, en ekki raunverulegar ráðstafanir, sem reynslan hefir sýnt, að að haldi komi. En reynslan hefir sýnt það bæði hjer og annarsstaðar, að jafnaðarmenn hafa leitað á náðir hins opinbera um atvinnubætur. Fulltrúi þeirra hjer á þingi hefir áður flutt stórkostlegar brtt. við fjárlagafrv. um fjárframlög til atvinnubóta, sem stundum hafa skift hundruðum þúsunda. Þó hefir þá ekki verið um yfirstandandi atvinnuleysi að ræða, heldur það, að ríkissjóður skuli viðbúinn að taka við fólki, sem ekki hefir atvinnu. Grunur hv. 3. þm. Reykv. um, að þessi skýrslusöfnun verði til að draga fólkið úr sveitunum, er rjettur. Þegar menn úti um land sjá, að stór stjórnmálaflokkur beitir sjer fyrir því, að veitt sje í fjárlögum fje til atvinnubóta, þá er það beinlínis til að ýta undir menn að flytja sig á eyrina.

Það er eitt í frv., sem sýnir, að flm. er það áhugamál að láta flokk sinn fjalla sem lengst um þetta mál. Það kemur glögglega fram í 2. gr. frv. Í 2. gr. er gert ráð fyrir, að sú skylda að safna skýrslum sje lögð á herðar sveitar- og bæjarstjórnum, og skyldi maður þá ætla, að þær hefðu frjálsar hendur um það. En því er ekki að heilsa. Það eru jafnaðarmannaforkólfarnir, sem þar eiga að hafa tögl og hagldir, og þar mega engir aðrir nærri koma. Og þegar þess er gætt, hve hætt slíkum mönnum er við að flytja litaðar frásagnir, jafnvel svo, að hreinn flokkslitur verði á, þá er síst ástæða til að fela þeim það fremur en öðrum.

Jeg þarf hjer ekki miklu við að bæta. Þingsagan sýnir það ljóslega, að jafnaðarmenn vilja, að bætt sje úr atvinnuleysi á kostnað hins opinbera. Það er verið að gera gyllingar til þess að fjölga fólki í kaupstöðunum, auka með því atvinnuleysi þar og leggja stórum auknar byrðar á ríkissjóð og bæjarsjóði.

Einn af hv. flm. frv., sem nú er ekki hjer viðstaddur, sagði fyrir skömmu, að vjer yrðum að leggja kapp á að standast samkepni við aðrar þjóðir. Þetta er vel mælt og viturlega, en það er víst, að ráðið til þess er ekki það að fá fólkið til að flytja úr sveitum landsins í yfirfylta kaupstaði.