18.02.1928
Neðri deild: 26. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 4194 í B-deild Alþingistíðinda. (3645)

88. mál, atvinnuleysisskýrslur

Jón Ólafsson:

Það er hvorttveggja, að jeg má aðeins gera stutta athugasemd nú, enda var jeg svo heppinn, að um daginn, þegar mál þetta var síðast til umr., rak hv. flm. ofan í hv. þm. Ísaf. flest af því, sem hann hafði sagt, og viðurkendi, að frv. væri borið fram meðal annars í þeim tilgangi að hrinda af stokki atvinnubótum og æsingi. Að öðru leyti rangfærði hv. þm. Ísaf. alt, sem jeg hafði sagt, sennilega af einhverri vöntun um að fara ráðvandlega með orð andstæðinga sinna, og ætla jeg því ekki að þreyta hv. deild með því að fara að eltast við það.

Hinsvegar kom fram í ræðu hv. flm. sú raunverulega hugsun, sem einkennir allar athafnir jafnaðarmanna, að þetta frv. sje borið fram í þeim tilgangi að stíga með því fyrsta sporið til þess að skipuleggja atvinnuvegina á jafnaðarmanna vísu, en forðast að fara inn á þá braut að útskýra nánar, í hverju þetta skipulag ætti að vera fólgið.

Jeg læt nú hv. þd. bændur um það, hvort þeir álíti skipulag á jafnaðarmanna vísu nauðsynlegt að því er landbúnaðinn snertir, eða hvort þeir vilji, vegna atvinnubóta, lengja sláttinn fram til veturnátta o. s. frv. Hitt er víst, að sjávarútvegsmenn munu ekki treysta jafnaðarmönnum, og allra síst foringjum þeirra, til þess að skipuleggja útveginn.

Hv. þm. Ísaf. var eitthvað að dylgja um það, að jeg hefði látið skip mín liggja við landfestar um hábjargræðistímann. En veit þm., hvað eru aðalbjargræðistímar atvinnuveganna? Eða heldur hann, að bjargræðistími á þorskveiðum sje í júlí og ágústmánuði? En á þeim tíma liggja togararnir helst í höfn vegna ýmislegrar aðgerðar og hreinsunar. Á öðrum tímum árs hafa ekki mínir togarar legið í höfn, nema hafi verið um verkföll eða verkbönn að ræða. Eftir þessu að dæma gæti jeg trúað því, að þessi hv. þm. vissi ekki betur en að síldveiðin hjer við land væri mest á þorranum.

Hann sagði líka, þessi sami hv. þm., að jeg hefði sótt vinnufólk í aðra landsfjórðunga, og því ekki hlynt að atvinnu bæjarbúa. Þessu er því til að svara, að í stórum stíl hefir það ekki verið, aðeins fáeinar stúlkur undan Jökli árið 1923, og síðan ekki. Að öðru leyti má geta þess, að enn ganga verkafjelagsmenn og konur ómerkt af forkólfum jafnaðarmanna, svo að ilt er að þekkja þá frá öðrum, er atvinnu leita hjá þeim, sem eitthvað hafa að láta vinna.

Annars er það rjett hjá hv. þm. Ísaf., að það er atvinnuvonin, sem ginnir fólkið til kaupstaðanna, og mætti þá segja, að jeg hafi óbeinlínis átt þátt í því, að fólk hefir komið hingað í atvinnuleit.

En hinu, sem jeg hjelt fram og held enn fram, því verður ekki hrundið með rökum: að það eru forkólfar jafnaðarmanna, sem eiga þó stærsta þáttinn í innflutningnum til bæjarins, með því að lofa fólkinu gulli og grænum skógum í atvinnubótum á ríkiseða bæjarkostnað, en sem hljóta að reynast tálvonir.

Þá eru það rakalausar aðdróttanir í garð atvinnurekenda, að þeir vilji innflutning fólks til bæjarins til þess að hafa hægari aðstöðu um að þrykkja niður kaupi. Þvert á móti er mjer það ljóst, að af innflutningi fólks og að engu leyti auknum atvinnumöguleikum hljóta að leiða færri dagsverk hjá þeim, sem fyrir eru, og gefur því síður ástæðu til kauplækkunar.

Þetta læt jeg mjer nægja, enda nenni jeg ekki að ræða þetta mál frekar við hv. flm. þessa hugsanagrautar. Það er öllum ljóst, hvað liggur á bak við frv. þetta og hvað vakir fyrir þessum jafnaðarmannaforkólfum með flutningi þess.