18.02.1928
Neðri deild: 26. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 4198 í B-deild Alþingistíðinda. (3646)

88. mál, atvinnuleysisskýrslur

Jóhann Jósefsson:

Jeg ætla að gera hv. flm. þann greiða að benda honum á þrjú dæmi, sem hann fór rangt með, svo hann gæti sín betur næst, þegar hann vitnar í erlendar fyrirmyndir. Í fyrsta lagi fór hann með rangt mál, er hann sagði í framsöguræðu um aukinn svefntíma á togurunum, að íslenskir fiskimenn á togurum væru verst launaðir allra fiskimanna. En sannleikurinn er sá, að þeir hafa mun betri launakjör en Þjóðverjar að minsta kosti, og ekki verri kjör en breskir fiskimenn, að þeim ef til vill undanteknum, sem frá Hull sigla.

Í öðru lagi fór hv. þm. með rangt mál í umr. um bann gegn næturvinnu, er hann taldi heilsusamlegri skilyrði í erlendum hafnarbæjum heldur en hjer. Og í þriðja lagi fullyrti þessi sami hv. þm. í umr. um sama mál, að í erlendum fiskihöfnum væri ekki unnið á nóttum. Það tíðkaðist aðeins hjer og hvergi annarsstaðar. En þetta er rangt. Í Grimsby, Hull, Geestemünde og Aberdeen er unnið að fiskuppskipun úr togurum að nóttu til, eftir þörfum, og geta þeir trúað því, sem vilja, að hollara sje að vinna að nóttu til í kolaryki þessara stóru hafnarbæja heldur en hjer í hinu hreina íslenska vetrarlofti.

Þetta verður hv. flm. að láta sjer nægja í bili. Það getur gefist tækifæri til að hrekja aðrar staðhæfingar hans síðar, ef hann vandar ekki betur staðhæfingar sínar en hann hefir gert fram að þessu.